20.04.1925
Neðri deild: 60. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2924 í B-deild Alþingistíðinda. (1851)

50. mál, tollalög

Frsm. minni hl. (Klemens Jónsson):

Jeg þarf ekki að vera langorður. En nokkrum orðum þarf jeg samt að víkja að háttv. þm. Ak. (BL) og hæstv. fjrh. (JÞ). Það, sem skilur á milli mín og þeirra, er það, að þeir vilja taka meðaltal allra þeirra þriggja ára, sem tóbakseinkasalan hefir staðið, en jeg vil aðeins taka árið 1924, eða í hæsta lagi meðaltal tveggja áranna, 1923—’24, því að það tel jeg alveg rangt að taka árið 1922 með, árið, sem einkasalan byrjaði og varð að kaupa upp allar birgðir, sem til voru í landinu. Hitt tel jeg miklu sanngjarnara, að leggja aðeins árin 1923 og ’24 til grundvallar, og ef það er gert, býst jeg við, að útkoman verði svipuð því, sem jeg hefi sagt. En þetta hefi jeg fullkomlega sýnt og sannað áður, og get vísað til þess. Það skal sannast á sínum tíma, að útkoman á árinu 1925 mun sýna, að það er ekkert rangt, þó að árið 1924 sje lagt til grundvallar. Er því óhætt að geyma alla spádóma um það, hvort þessar tölur eru rjettar eða ekki, þar til reynslan hefir skorið úr því.

Hv. þm. Ak. (BL) sagði, að þetta yfirstandandi ár gæti landsverslunin ekki grætt eins mikið á gengismismun eins og síðastliðið ár. Þetta er vitanlega nokkuð sem enginn getur sagt neitt um, því það er ekki langt liðið á árið enn. En móti því kæmi þá aftur hin aukna útsala, sem nemur um 90 þús. kr. þann tíma, sem liðin er af árinu, fram yfir það, sem var á sama tíma síðastliðið ár.

Þá fullyrti háttv. þm., að tap landsverslunarinnar á útistandandi skuldum myndi ekki nema minna en varasjóður hennar. Við höfum nú haft fyrir okkur í fjhn. skuldalista hennar, að jeg verð að segja fyrir mitt leyti, að jeg er ekki svo kunnugur skuldunautum hennar, að jeg treysti mjer til að segja um, hvað mikið muni tapast af skuldum þeim, sem hún á úti. En það er víst, að tap verður eitthvert hjá henni, eins og öðrum, sem lána eitthvað út. En hversu mikið það verður, hygg jeg, að enginn okkar sje fær um að segja, því að við þekkjum það úr sögu Landsbankans, að þeir menn, sem dæmdir hafa verið eignalausir, og það svo, að þeir myndu aldrei geta eignast neitt aftur, eru þó sumir þeirra nú með efnuðustu mönnum landsins.