20.04.1925
Neðri deild: 60. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2925 í B-deild Alþingistíðinda. (1852)

50. mál, tollalög

Frsm. meiri hl. (Jakob Möller):

Háttv. frsm. minni hl. (KlJ) hefir ekki andmælt neinu af því, sem jeg sagði. Ræða hans beindist nær eingöngu að greinargerð flm. fyrir frumvarpinu, og þeim athugasemdum hafa þeir hæstv. fjrh. (JÞ) og háttv. þm. Ak. (BL) svarað. Annars má segja um háttv. frsm. minni hl. (KlJ), að hann hafi Móses og spámennina til að vitna í, þar seni hann lagði út af skýrslu landsverslunarinnar eins og guðspjalli. (JBald: Það er líka óhætt). Háttv. samþingismaður minn segir, að það sje óhætt. En jeg er ekki eins viss um það.

Háttv. frsm. minni hl. sagði, að það væri óviðkunnanlegt að afnema slíka stofnun sem landsverslunina einungis með breytingu á tolllögunum. Þetta má vel vera. En þá er hægt að fá inn í fyrirsögn frumvarpsins: „og afnám laga um tóbakseinkasölu ríkisins“. Þetta má lagfæra við 3. umr., ef vill.

Þá sagði háttv. frsm. minni hl., að útreikningar meiri hlutans gætu ekki staðist. En þetta er ekki rjett, því að þeir standast í öllum aðalatriðum, að því er tollhækkunina snertir. En hitt er ágiskun ein, hvað verslunarhagnaður landsverslunarinnar af tóbakssölunni verði í framtíðinni, því að um það er ekkert hægt að segja, sem á sje byggjandi.

Alt, sem háttv. frsm. minni hl. sagði um væntanlegan ágóða landsverslunarinnar í framtíðinni, er því óábyggilegt; eins og t. d. gengishagnaðurinn, sem háttv. þm. var að tala um, því að enginn skyldi byggja framtíð fyrirtækis á því, að því hlotnaðist svo og svo mikill hagnaður af gengismismun. Kemur því sá hagnaður, sem verslunin hafði af gengi árið 1924, ekkert málinu við, nema að því leyti, að taka verður tillit til þess, að þessi hagnaður ársins 1924 gerði hag þess árs betri. En þar sem ekki þarf að gera ráð fyrir slíkum hagnaði framvegis til þess að greiða útsvarið með, en það er aftur fastur gjaldaliður verslunarinnar, verður að draga frá fyrir því af væntanlegum verslunarhagnaði.

Þá taldi háttv. frsm. minni hl. það alt hagnað, sem lagt væri í fyrningarsjóð. En það er stórt spursmál, að svo sje. Þegar það er játað, að þetta er áhættufyrirtæki, sem gera má ráð fyrir töpum hjá, þá er vitanlega lagt í fyrningarsjóð, til þess að standast þann halla, sem af því kann að leiða fyrir verslunina að lána út vörur, skemdum og rýrnun o. fl. Má því ekki telja fyrningarsjóðinn sem hagnað verslunarinnar. Og eins og það er víst, að tap getur orðið á útistandandi skuldum verslunarinnar, eins er það áreiðanlegt, að tap verður á birgðum hennar.

Hinsvegar er það viðurkent í greinargerð frv., og jeg hefi sömuleiðis viðurkent það í framsöguræðu minni, að þau ár geta komið, að verslunarhagnaðurinn yrði meiri en tolltekjurnar; aftur geta líka komið þau ár, að hann verði minni. Um þetta er ekki hægt að gera ákveðna útreikninga.

Þá sagði háttv. frsm. minni hl., að það væri rangt að leggja árið 1922 til grundvallar fyrir verslunarhagnaðinum. En ef það er rjett í öðru tilfellinu, þá er það jafnrjett í báðum, bæði með tolltekjurnar og verslunarhagnaðinn. Meðaltolltekjurnar verða minni, sjeu þær miðaðar við öll þrjú árin, alveg eins og verslunarhagnaðurinn af einkasölunni verður minni, sje hann miðaður við þann tíma. Þess vegna er það rjett að miða við öll árin, sje það aðeins gert í báðum tilfellunum.

Háttv. frsm. minni hl. gerði og samanburð á útsöluverði á tóbaki í desember 1921 og í jan. þessa árs. Var sá samanburður upp og niður. Að minsta kosti tók jeg eftir, að hann taldi útsöluverð hjer í jan. á einni vindlategund 44,50 en 45 kr. í des. 1921. Munurinn virðist ekki mikill. Í þessu sambandi ber þess að gæta, að síðan 1921 hafa allar vörur lækkað í verði erlendis. En til þess að gera samanburð á verðlagi hjer og erlendis hefi jeg ekki skýrslur á takteinum. Sömuleiðis vantar upplýsingar um, hver tollurinn er í þeim löndum, sem verðlagið er borið saman við.

Loks gat háttv. frsm. þess, að salan á tóbaki þá mánuði, sem liðnir væru af árinu, væri miklu meiri en á sama tíma í fyrra. Gæfi það því von um mikinn verslunarhagnað á árinu. En þar er alveg sama máli að gegna með tollinn. Hann verður vitanlega þeim mun meiri, sem innflutningurinn verður meiri.

Þá hafði háttv. þm. það eftir mjer, að krepputíminn væri á enda. Það er rjett; jeg held því fram. En svo bjartsýnn er jeg ekki að halda, að kreppa komi aldrei aftur, heldur þvert á móti. Jeg hefi játað það, sem er margviðurkent, að krepputímabil koma altaf við og við, og það er ein af höfuðástæðunum fyrir því, að bæði jeg og aðrir vilja afnema tóbakseinkasöluna nú. Því að þau ár geta komið, að hún verði ekki tekjulind fyrir ríkissjóð, heldur þvert á móti.

Jeg þóttist leiða góð rök að því, að smyglunarhættan væri meiri undir einkasölufyrirkomulaginu en með frjálsri verslun. Því að smásalarnir hafa ekki eins bundnar hendur, þegar frjáls verslun er, eins og með einkasölunni, því að þeir geta fengið miklu betri kjör hjá heildsölum en landsversluninni. Að minsta kosti geta þeir fengið öllum að skaðlausu rekstrarkostnað landsverslunarinnar, sem er allmikið fje. Yrði því minni hvöt til smyglunar, en meiri hvöt til þess að versla heiðarlega, þegar þeir fengju vöru, sem ekki væri ókleift að versla með.

Þá vjek háttv. frsm. minni hl. örfáum orðum að 2. gr. frv. og taldi, að ákvæði hennar um að tollmerkja vörurnar yrðu erfið í framkvæmd. En jeg hygg, að sú merking yrði ekkert erfiðari í framkvæmd en sú, sem nú er undir einkasölufyrirkomulaginu.