20.04.1925
Neðri deild: 60. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2928 í B-deild Alþingistíðinda. (1853)

50. mál, tollalög

Jón Baldvinsson:

Jeg hjelt sannast að segja, þegar mál þetta kom hjer aftur til umræðu, að þá myndum við fá skýra grein hjá flutningsmönnum þess fyrir því, að ríkissjóður myndi engu tapa við breytingar þær, sem frv. hefir í sjer fólgnar. En því fer fjarri, því að jeg hefi ekkert heyrt koma fram í þá átt.

Ræða hv. frsm. meiri hl. (JakM) snerist mest um það, hvort rjett myndi að taka upp ríkisrekstur yfirleitt eða ekki. Komst hann, sem vænta mátti hjá honum. að þeirri niðurstöðu, að það væri bæði ilt og skaðlegt. En hann færði engin rök fyrir því. Alt, sem hann sagði, voru því tómar fullyrðingar, og ekkert annað; enda var honum óhægt um vik, þar sem hann var að tala um tóbakseinkasöluna, sem allir telja, að hafi gengið ágætlega og óhætt mun að fullyrða, að hafi farið langt fram úr vonum þeirra, sem litu hana vafasömum augum í upphafi.

Það má vitanlega segja margt með og móti einkasölufyrirkomulaginu. En það hefir sýnt sig, að það, sem ríkissjóður Íslands hefir fengist við ríkisrekstur, hefir gengið sæmilega. Og einmitt það, sem hvað mest hefir verið óttast, að ekki væri hægt að fá góða menn til þess að veita ríkisrekstrarfyrirtækjum forstöðu, hefir ekki komið þar að sök. Því altaf hefir tekist að fá ágæta menn í þeim tilfellum, og þarf þar ekki annað en að benda á stjórn landsverslunarinnar, útflutningsnefndina o. fl. Þetta fór alt mjög vel úr hendi. Þess vegna mælir öll þessi starfsemi með einkasölufyrirkomulaginu.

Þó að jeg sem jafnaðarmaður sje með þjóðnýtingu, þá legg jeg samt ekki mikið upp úr tóbakseinkasölunni frá því sjónarmiði. Enda var henni ekki komið á af hvötum þeirra manna, sem vilja að ríkisrekstur sje tekinn upp, þar sem hún var beinlínis sett á af fjárhagslegum ástæðum. En eigi að síður teljum við jafnaðarmenn þessa leið rjetta til þess að útvega almenningi ódýrari vörur, og jafnframt meiri tekjur í ríkissjóð.

Háttv. frsm. meiri hl. fór ekkert út í samanburð á vörugæðum landsverslunarinnar og kaupmanna áður, eins og sumir háttv. þm. gerðu. Enda hefði slíkur samanburður litla þýðingu, þar sem landsverslunin kaupir mestallar vörur sínar frá sömu verslunarhúsum og seldu hingað áður. Hitt get jeg gengið inn á, að það eru sennilega ekki margir, sem hafa sömu skoðun á þessu og jeg hjer innan þings, og ef til vill ekki nema jeg einn, en jeg vona, að þeim fjölgi áður en langt um líður.

Háttv. þm. sagði, að rekstrarkostnaður tóbaksverslunarinnar kæmi smásölunum að gagni og vildi láta líta svo út, að verslunin væri einhver óþarfur milliliður. Hjer kveður við nokkuð annan tón heldur en þegar verið er að tala um, að það borgi sig alls ekki fyrir smásala að versla með tóbak frá landsverslun.

Háttv. þm. talaði ennfremur um, að einkasalan hefði dregið úr tóbakskaupum. Má vera, að svo sje að einhverju leyti, en þó hefir tóbak verið flutt inn síðastliðið ár fyrir 2½ milj. króna í stórsölu, og mun það efalaust um 3 milj. í smásölu. Verður ekki annað sagt en að þetta sje dálagleg fúlga fyrir vöru þessa hjá ekki stærri þjóð.

Annars var þetta atriði málsins þrautrætt við 1. umr. Þeir, sem þá hjeldu þessu fram, játuðu þó, að minkaður tóbaksinnflutningur hefði að nokkru leyti verið afleiðing fjárkreppu landsmanna. Um það þarf heldur engum blöðum að fletta. Salan fer eftir árferði. Þarf ekki annað en að bera saman innflutning á tóbaki og öðrum munaðarvörum á þessum krepputímum. Hvorttveggja gengur í bylgjum eftir árferði og kaupgetu manna. Þetta viðurkendu andstæðingarnir við 1. umr., og eins hitt, að ekki væri rjett að telja fyrsta ár einkasölunnar með, er litið væri á hag hennar undanfarin ár. Nú vilja þeir í báðum tilfellum ganga á bak orða sinna. Fyrsta árið var reynsluár eingöngu, og nær því engri átt að telja það með. Auk þess voru þá miklar birgðir til í landinu, sem kaupmenn seldu alt það ár og jafnvel fram á hið næsta. Þess vegna má ekki líta á afkomu einkasölunnar eftir því ári.

Háttv. frsm. talaði um, að með einkasölunni væri ríkinu gefinn kostur á „spekulations“ -gróða. Jeg skil ekki, hvað hann á við með því. Hjer er um áframhaldandi stofnun að ræða, sem hefir sínar föstu, vissu tekjur. Enda hafa aðrar þjóðir sjeð þegar, hve einkasala á tóbaki er tryggur tekjustofn, og hefir áður verið bent á það undir umræðunum.

Þá kem jeg að tolleftirlitinu, ef frv. þetta nær fram að ganga. Nefndin hefir fallist á till. frv. óbreyttar hvað það snertir. Á samkvæmt þeim að líma miða á hvern vindlakassa og vindlingapakka. Hinsvegar hefir ekki verið sýnt fram á, hvílíkt feikna verk þetta er og hvílíkan kostnað það hefir í för með sjer. (JakM.: Það kostar ekkert). Það er altaf hægt að slá fram slíkum rakalausum fullyrðingum. En mjer þætti gaman að sjá, hvað landsreikningarnir sýna síðar í þessu efni. Þá skildi jeg ekki, hvers vegna hv. frsm. meiri hl. hjelt því fram, að rekstrarkostnaður einkasölunnar næmi 8%. Reikningarnir sýna ekki meira en 4—5%. Jeg veit ekki, hvaða póstum hann hefir bætt hjer við, því að hann skýrði ekki frá því.

Þá sný jeg mjer að hæstv. fjrh. með nokkrum orðum. Hann vildi ekki viðurkenna það, sem þó var gert við 1. umr., að ekki væri rjett að telja fyrsta árið með. Bendir það ekki á góðan málstað að taka nú aftur upp þessa röksemd, sem búið var kveða niður fyr í umræðunum.

Þá sagði hæstv. fjrh., að það væri út í loftið að segja, að ríkissjóður myndi tapa ¼ milj. kr. við afnám einkasölunnar. Vjer, sem höldum þessu fram, höfum staðreyndirnar fyrir oss. En andstæðingarnir hafa ekkert nema spádóma — út í loftið. Það, sem þeir byggja mest á, er það, að tóbaksinnflutningur aukist við breytinguna. Auðvitað er þetta út í loftið. Það hefir áður verið sýnt fram á, að innflutningur og sala fer næstum eingöngu eftir árferði. Það kom fram í ræðum hv. frsm. minni hl. (KlJ) og hv. frsm. meiri hl. (JakM), að líkindi væru til, að innflutningurinn yrði meiri á árinu 1925 en 1924. Þetta er líka mjög líklegt, því að þótt árið 1924 yrði gott ár, var þó fyrri hluti þess allmiklu lakari en það, sem af er þessu ári. Menn voru enn aðþrengdir af kreppunni, og rættist ekki úr því fyr en kom fram á sumar.

Lítur út fyrir, að yfirstandandi ár verði allgott ár. Auk þess má vera, að árið 1925 gefi meiri tekjur en árið 1924, og enda miklar líkur til þess.

Jeg skal ekki tefja tímann lengi úr þessu. En mjer þykir ólíklegt, að þeir hv. þm., sem voru því fylgjandi, að einkasalan var stofnuð af fjárhagsástæðum, vilji nú láta leggja hana niður eftir þennan glæsilega árangur. Hitt gefur að skilja, að hinir, sem þetta er stefnumál, muni enn sem fyr berjast gegn einkasölunni. Það kemur engum á óvart, þótt þeir hv. þm., sem sendir eru á þing af kaupmönnum, reki erindi þeirra hjer sem annarsstaðar.