22.04.1925
Neðri deild: 62. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2941 í B-deild Alþingistíðinda. (1860)

50. mál, tollalög

Tryggvi Þórhallsson:

Mjer þykir það leitt, að ekki fjekst, að þetta mál mætti bíða þennan dag. Jeg átti ekki von á því, að það yrði tekið svo fljótt á dagskrá aftur. Flm. þess mega eiga það alveg víst, að það hefði aldrei orðið málinu að grandi hjer í deildinni, en á hinn bóginn hafa ýmsir þm. haft svo mikið að starfa, að þeir hafa ekki getað komið því við að athuga það, en jeg býst við, að það þyki ekki óeðlilegt, þó að þeir óski að geta gert frekari grein fyrir sinni aðstöðu, ekki síst af því að ekkert hefir verið gert til þess að tefja málið af hálfu annars stærsta flokksins hjer í þessari háttv. deild. Af hans hálfu hefir ekki talað nema háttv. frsm. minni hlutans (KlJ) svo að háttv. flutningsmenn frv. hafa enga ástæðu til að væna um það að verið sje að reyna að tefja málið; þess vegna þykir mjer það mjög undarlegt, að hv. flm. hafa ekki getað tekið undir þá beiðni að láta málið bíða ofurlítið, þegar það hefir komið svo fljótt inn á dagskrá aftur. sem þingsköp frekast leyfa.

Jeg tel það skyldu mína að víkja að þessu máli með nokkrum orðum og beina nokkrum fyrirspurnum til hv. þm., því að eins og málinu nú er komið, horfir það mjög einkennilega við. Eitt af því merkilegasta, sem fram kom er ræða hæstv. ráðherra (MG) 2. umr. málsins. Hann lýsti yfir því þegar þetta frv. var borið fram að það væri gert til þess að afla ríkissjóði tekna, og þetta sagði sami hæstv. ráðherra (MG) líka, þegar þessi einkasala kom fyrst fram og ennfremur sagði hann, að allar þær vonir sem hann hefði gert sjer í þessu efni, hefðu ræst, svo að framkoma hæstv. ráðherra (MG) er að þessu leyti í góðu samræmi, því að í fyrra óskaði hann eftir því, að frestur fengist enn eitt reynslunar, og eftir það ár segir hæstv. ráðherra (MG): Allar vonir mínar hafa ræst. Þar fara ummæli hæstv. ráðherra (MG) algerlega saman við ummæli minni hl. nefndarinnar, þar sem sýnt var fram á, að einkasalan hefir verið öruggur tekjuliður fyrir ríkissjóð, og það sem af er þessu ári bendir alt á, að tekjurnar verði enn meiri, og það má telja víst, að með þessari breytingu, sem hjer á að gera. missi ríkissjóður 250 þús. kr. fastar tekjur, því að jeg get ekki tekið það með, þó að hæstv. fjrh. (JÞ) vitni í meðaltal af tekjum þriggja síðustu ára, þar sem svo er í raun og veru, að tvö þeirra er ekki hægt að taka með í því sambandi. Hæstv. atvrh. (MG) segir, að allar vonir sínar í þessu efni hafi ræst og er alveg sammála hv. frsm. minni hl. (KlJ) um þetta, og má telja víst, að þessar tekjur verði í framtíðinni. Jeg ætla ekki að fara út í það sem hæstv. atvrh. sagði í gær; jeg geri ráð fyrir. að hann hafi heyrt orð mín um það. (Atvrh. MG: Jeg hefi ekki heyrt það) Jæja, jeg taldi það víst, að hæstv. ráðherra (MG) hefðu verið flutt þau því að jeg bað um, að honum yrðu flutt þau, en annars skal jeg með ánægju segja honum frá því, þegar jeg hefi lokið máli mínu. En mjer dettur í hug gamalt orð í sambandi við þetta, þegar hæstv. atvrh. (MG) álítur sig ekki, nema með því að hann sje fjrh., skyldan til að taka tillit til fjármála ríkisins. Mjer dettur það í hug, að þegar átti að fá Skagfirðinga til þess að taka Þorgils skarða fyrir höfðingja, þá var sagt við þá: Skagfirðingar hafa jafnan haldið höfðingja með kostnaði. Það veltur á atkv. hæstv. atvrh. (MG), hvort á að kasta frá sjer þessum tekjum eða ekki. (Atvrh. MG: Jeg viðurkenni alls ekki, að hjer sje kastað burt 250 þús. kr.).

Á þessum grundvelli vildi jeg beina nokkrum fyrirspurnum til annara háttv. þm., þar sem það er viðurkent, að vonirnar hafa ræst, og þar sem það er viðurkent um nálega alla menn í þessum sal, að það er ekki um stefnumál að ræða fyrir þeim, heldur um fjárhagsmál, þá vil jeg fyrst spyrja þá, hvers vegna þeir hverfa frá að halda þessu máli áfram, eftir að vonirnar hafa ræst. Það var meðal annara háttv. þm. Borgf. (PO), sem fylgdi málinu áður en vonirnar höfðu ræst, sömuleiðis hv. þm. V.-Húnv. (ÞórJ), hv. 2. þm. Skagf. (JS) og hv. þm. N.-Ísf. (JAJ), og enn má nefna hv. þm. Barð. (HK), sem bjargaði málinu, ef jeg man rjett, tveim sinnum við atkvgr. Mjer finst, þegar um svo mikið fjárhagsatriði er að ræða, að þessir hv. þm. sjeu skyldir til að gera grein fyrir því, hvers vegna þeir nú, eftir að vonirnar hafa ræst, hverfa frá því að halda þessu skipulagi, sem hefir í för með sjer svo miklar og góðar tekjur. Jeg skora á þá að segja, hvað því veldur, að þeir snúa við blaðinu, eftir að vonirnar hafa ræst. Þá vil jeg beina máli mínu til hv. 2. þm. N.-M. (ÁJ). Sá hv. þm. hafði að vísu ekki þá aðstöðu að sitja á þingi er málið var fyr á ferð og greiða atkv. með því, en við 1. umr. málsins flutti hv. þm. (ÁJ) ræðu, þar sem hann sagði, að ekki væri um stefnumál að ræða, heldur um fjárhagsmál, og nú hefir hv. þm. (ÁJ) fengið að heyra rökin fyrir því, um hve miklar tekjur hjer væri að ræða fyrir ríkissjóð, og auk þess af hálfu eins af þeim mönnum í Íhaldsflokknum, sem jeg veit, að hv. þm. (ÁJ) hefir mikið álit á, og nú er það sjeð, að ríkissjóður missir miklar tekjur, ef. þetta frv. nær fram að ganga. Jeg spyr: Hvernig stendur á því, að hv. þm. (ÁJ) fellir þennan úrskurð, sem hann feldi? Hv. þm. lagði þá mikla áherslu á, að þetta þyrfti að grannskoðast. Og nú hefir það verið gert og ekkert komið í ljós annað en það, að einkasalan hefir fyllilega uppfylt þær vonir sem um hana voru gerðar. Jeg vil því spyrja: Hvað veldur því, að hann fellir þennan úrskurð við 2. umr. þessa máls? Það er skylda hans gagnvart kjósendum sínum að gera grein fyrir því, og jafnframt skylda hans gagnvart sínum þingmannsheiðri.

Þá er eitt atriði enn, sem jeg vildi minnast á. Það er ekki beinlínis í sambandi við þetta mál, en snertir það þó að nokkru leyti.

Eins og kunnugt er, rekur ríkið verslun með steinolíu. Ekki til þess að græða á henni, eins og tóbakinu, heldur til þess að brjóta á bak aftur útlendan auðmannahring. Jeg vil nú spyrja hæstv. stjórn. hvort hún ætli líka að leggja niður þá verslun.

Jeg þykist vita, að stjórnin geti svarað þessu nú, því jeg býst við, að hún hafi athugað þessi mál hvort í sambandi við annað. Mjer þykir nefnilega ekki ólíklegt, að sumir þm. hjer í þessari háttv. deild, sem voru í broddi fylkingar að brjóta niður vald hins ameríska steinolíuhrings, vilji fá það skýrt fram, hvort þeir með því að samþykkja þetta frv. sjeu að greiða götu hinnar illræmdu einokunar inn í landið aftur. Sjerstaklega vil jeg víkja þessu til hv. þm. Dala. (BJ) sem var einn í fylkingarbrjósti, er vald þessa einokunarhrings var brotið á bak aftur.

Annars þykir mjer leitt. að jeg gat ekki búið mig betur undir þetta stórmál nú, en til þess vanst ekki tími.