22.04.1925
Neðri deild: 62. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2960 í B-deild Alþingistíðinda. (1865)

50. mál, tollalög

Magnús Torfason:

Það var sagt hjer við 2. umr. þessa máls, að einkasala væri yfirleitt óheppileg. Jeg fyrir mitt leyti mótmæli því svona alment sagt. Jeg hygg, að hið sanna og rjetta sje það, að hún sje stundum óheppileg og stundum heppileg. Jeg er í engum vafa um það, hvernig sem fer með einkasölu landsverslunarinnar nú, að aftur mun verða tekið til þess fyrirkomulags síðar. Það hefir verið sagt hjer í umr., að ágóðinn af landsverslun færi nokkuð eftir genginu. Jeg vil orða þetta skýrar og segja, að það, sem til greina kemur, er, hvort gengið fer hækkandi eða lækkandi. Nú er gengið að hækka, og það má búast við, að það haldi áfram að hækka. Hækkandi gengi er hagur landsversluninni, svo að útlitið mælir með því, að henni sje lofað að starfa í friði. Eru líkurnar miklar til þess, að hún mundi græða vel. En það er vitanlegt, að ríkissjóður hagnast ekki af þeim gengisgróða, sem einstakir kaupmenn taka til sín. Eitt af því, sem haldið hefir verið fram hvað eftir annað í þessum umræðum, er það, að tóbaksnautn mundi aukast, ef ríkisverslunin væri afnumin. Jeg hygg alveg ómögulegt að spá neinu um þetta. Það er algerlega ósannað, að svo yrði. Og jeg vil ekki láta því ómótmælt, að þó tóbaksnautn kynni að aukast hjer á næstu árum, yrði það afleiðing af niðurlagningu einkasölunnar. Tóbaksnautn fer töluvert eftir árferði, þó auðvitað komi ýmsar fleiri ástæður til greina. Engir munu t. d. nota eins mikið tóbak og sjómenn. Þeim fjölgar óðum og peningaráð þeirra fara vaxandi. Þetta bendir á, að tóbaksnautn muni aukast hjer að öðru jöfnu. Þá hefir því verið haldið fram, að einkasölufyrirkomulagið mundi auka tóbakssmyglun. Hæstv. fjrh. hefir sannað með mjer, að það rjeði litlu eða engu. Tóbakssmyglun færi eftir öðrum ástæðum. einkum því, hve mikil væri gróðavon á hverjum tíma. Jeg vil því mótmæla því, að smyglun mundi minka, ef tóbakseinkasalan væri afnumin. Hún mundi þvert á móti aukast. Ein tegund smyglunar hefir horfið eftir að landsverslunarfyrirkomulagið komst á, og það sú stórbrotnasta. Það er kaupmannasmyglunin. Það er ómögulegt eins og nú stendur að hafa smyglað tóbak verulega til sölu, að minsta kosti ekki svo, að nokkur kaupmenska geti kallast, án þess að uppvíst verði, nema þá að beint sje ætlast til, að lögreglustjórar þessa lands sjái í gegnum fingur við smyglun. En kaupmannasmyglunin var alveg „gasaleg“ — eins og stelpurnar segja — og það eru dæmi til þess, að þeir hafa orðið að borga stórsektir fyrir smyglun.

Það hefir verið minst á smyglun bryta á skipum og smyglun Færeyinga. Jeg held, að hún skifti ekki miklu máli. Hún mundi hvorki minka eða vaxa, þó að tóbakseinkasalan væri afnumin. Annars er þetta atriði þannig, að úr því mætti draga með ríkara eftirliti. Og það mundi gleðja mig, ef hæstv. fjrh. (JÞ) gerði það eftirlit skarpara en verið hefir. Jeg vísa til hans, þó að hann sje ekki dómsmálaráðherra, því að það er sýnilegt, að hann breiðir sig yfir alla ráðherrastólana og ræður einn öllu í stjórninni.

Það hefir verið talað svo mikið um árangurinn af tóbakseinkasölunni, að óþarfi er að taka það upp. Í því efni vil jeg fullkomlega halda mjer við yfirlýsingu hæstv. atvrh. (MG). Sýni jeg þá með þessu, að jeg er einu sinni sammála þessum mislukkaða frænda mínum. Má ekki skilja þetta sem skammaryrði, því að jeg veit, að jeg er eins mislukkaður í hans augum og hann í mínum.

Það er eitt atriði viðvíkjandi því, hvernig reikna eigi ágóðann af tóbaksversluninni, sem jeg vil minnast á betur en gert hefir verið. Því hefir verið haldið fram, að ekki mætti miða við gróðann 1924. Jeg held, að fullkomlega megi á því byggja. En það er spurning, hvort næstu ár verða meðalár. Út af því, sem jeg talaði um góðæri í sambandi við tóbaksnautn, má benda á, að 1924 fór það ekki að hafa áhrif á nautnir manna fyr en liðinn var helmingur ársins eða svo. Jeg held menn ættu að muna eftir sultardropunum, sem láku úr nefum hv. þingmanna hjerna í fyrra vor. Sjerstaklega runnu stríðir sultarstraumar úr nefi hæstv. fjrh. (JÞ).

Eftir því, sem fram kom hjer í dag, er enginn vafi á, að þetta er fyrsta sporið í þá átt að leggja landsverslunina algerlega niður. Jeg verð að segja, að mjer þykir þessi stjórnarstefna alt annað en varleg. Það hefir verið játað hvað eftir annað hjer í þingsalnum, að alt væri á reiki í peningamálunum. Það hefir verið sagt úr ráðherrastóli, og sjerstaklega haldið fram af hæstv. fjrh. (JÞ), að kreppa sje þegar í aðsigi, og þegar svo er, getur altaf rekið að því, að taka verði þetta fyrirkomulag upp aftur. Er það þá ekki afskapleg pólitík að eyðileggja þessa dýrmætu reynslu, sem fengin er, og tvístra þeim kröftum, sem stjórnin hefir fengið sjer til hjálpar, og selja öll tæki fyrir tiltölulega lítið verð? Jeg segi þetta vegna þess, að þögn hæstv. fjrh. (JÞ) viðvíkjandi fyrirspurn minni um það, hvort leggja eigi niður steinolíuverslunina, sannar þetta. (Fjrh. JÞ: Heyrir ekki undir mig). Þó að hæstv. fjrh. ráði því ekki formlega, mun hann samt ráða því í raun og veru. Þess vegna beini jeg þessu til hans, og það því fremur, sem hann hefir unnið mjög dyggilega að því, að það yrði gert. Hæstv. fjrh. hefir samsint því, sem jeg sagði um tóbakseinkasöluna, að hún væri nokkurskonar útvígi steinolíuverslunarinnar. Það hefir verið og er fast stefnumið hans að rífa niður þetta útvígi, til þess að komast að sjálfu höfuðvíginu. Að þetta er stefnumál hans, sjest á því, að síðasta þingdaginn í fyrra fórnaði hann 100 þús. kr. tekjum fyrir ríkissjóð, til að koma í veg fyrir, að landsverslunarfyrirkomulagið yrði trygt. Og það var hæstv. fjrh., sem gerði alt, sem í hans valdi stóð, til þess að koma í veg fyrir, að áfengissalan væri lögð undir landsverslun. Jeg hygg því, að jeg taki ekki of djúpt í árinni eða fari með neitt fleipur, þó að jeg segi, að það muni vera fastur ásetningur hans að koma steinolíuversluninni fyrir kattarnef líka. Að því er snertir framkomu hæstv. atvrh. (MG). í þessu máli, þá er hún alveg einstök. Til forna báru menn út börn sín, ef einhver ljóður var á þeim, og þótti þó ekki fagurt. En það þótti ótækt að bera út efnileg börn og börn, sem voru farin að dafna og þroskast. En þetta er verið að gera hjer. Ef málið er athugað með ró og gætt að því, að hæstv. fjrh. hefir játað, að tóbakseinkasalan væri til gagns og styrktar steinolínversluninni, skyldi maður ætla, að þó að deilt væri um það stefnuatriði, hvort landsverslun skyldi rekin eða ekki, þá mætti samþykkja till. um að fresta niðurlagningu einkasölunnar um eitt ár. Hv. fríverslunarmenn mistu þá ekki annað en tóbaksgróðann í eitt ár. Frá sjónarmiði hæstv. fjrh. væri slíkur frestur alls ekki hættulegur fyrir ríkissjóð, því að hann hefir játað, að vegna ríkissjóðs væri ekki skaðlegt, þó verslunin hjeldi áfram. Þess vegna hljóta að vera hjer sjerstakar ástæður fyrir hendi. Jeg skal ekki fara út í að rekja þær hjer í dag. En jeg get lýst því yfir strax, að ein ástæðan, sem hæstv. fjrh. og flokkur hans hefir til að flýta þessu svo mjög, er þessi gamla og góða regla: „Neyttu meðan á nefinu stendur.“ Samkvæmt þessu boðorði vilja þeir enga bið.

Hæstv. fjrh. og Íhaldsmenn vita, hvert stefnir hjá mjer, og að þessi orð stefna til þess, sem þeim er vitanlegt, að gengi Íhaldsflokksins hefir lækkað mikið síðan hann tók við stjórn. Því hugsa þeir. Það er ekki víst, að svona gott tækifæri bjóðist fyrst um sinn. Því að þetta, sem hjer er gert í dag, er hreint og beint hermdarverk og kemur til að lækka gengi Íhaldsflokksins langt niður fyrir gengi krónunnar. Annars verð jeg að láta í ljós undrun mína yfir því, sem fram kemur í þessu máli, hve margir hv. þm. hafa haft skoðanaskifti, án þess að geta gert grein fyrir nokkurri ástæðu. Yfir höfuð er tæplega hægt að lýsa þeirri pólitík, sem fram kemur í þessu máli. Jeg skal enda með því að segja, að svona pólitík er áreiðanlega ekki samboðin öðrum en þeim, sem reykja sama fretstertinn tvisvar sinnum, eins og sagt var hjer í deildinni fyrir skömmu.