22.04.1925
Neðri deild: 62. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2978 í B-deild Alþingistíðinda. (1869)

50. mál, tollalög

Jón Baldvinsson:

Það var gott að því leyti, að þessar umr. hafa lengst þetta sem orðið er, því það hefir þegar komið til leiðar umbótum á frv., því hefði það verið samþykt nú eins og það lá fyrir í byrjun fundarins, þá hefðu menn samþykt alt annað frv. en það, sem samþykt var við 2. umr.; en þessi skekkja, sem slæðst hefir inn í frv., hefir nú verið leiðrjett. Í upphafi umr. spurði hv. þm. Str. (TrÞ) ýmsa þm. nokkurra spurninga, þá þm., sem voru með að stofna þessa einkasölu 1921, og vildi hann fræðast af þeim um ástæður þeirra til þessa fráfalls frá einkasölunni, sem hefir, eins og hæstv. atvrh. (MG) komst að orði, að engu brugðist þeim vonum, sem í peningalegu tilliti voru gerðar til hennar. Hæstv. fjrh. (JÞ) svaraði þessum spurningum hv. þm. Str. (TrÞ) á sína vísu og bar fram nokkrar tölur, sem hv. 2. þm. Rang. (KlJ) nú hefir upplýst okkur um hvernig eru tilkomnar, og ætla jeg því ekki að fara nánar út í þær, en þetta minnir mig á söguna um prestinn, sem var að spyrja fermingarbörnin, en þeim gekk treglega að svara. Greip þá kerling nokkur fram í fyrir presti og segir: „Jeg svara fyrir mitt barn og segi já.“ Þessi alkunna saga datt mjer í hug, er hæstv. fjrh. greip tækifærið til svara fyrir flokksmenn sína hjer í deildinni. Það er margbúið að sýna og sanna, að þó tollurinn verði hækkaður, fara þó hinar væntanlegu tekjur af tóbaksvörum algerlega eftir árferði. Það er árferðið, sem ræður því, hvort menn geta keypt svo svo mikið af tóbaki eða ekki. Og það eru fleiri tollar og skattar, sem fara eftir árferðinu. Það er afkoma manna, sem knýr menn til að spara hitt og þetta, eða örvar menn til eyðslu. Að nokkru er hið sama um tekjuskattinn. Þannig varð hann árið 1922 100 þús. kr. lægri en hann var áætlaður, og sýnir það, að afkomu manna hefir hrakað þetta ár. Sama verður um tóbakið. Þegar illa árar, minka öll kaup á munaðarvörum. Árið 1919 fóru allir tollar fram úr áætlun, og sýnir það gott árferði; innflutningur var þá mikill og kaupgeta landsmanna eftir því. Þetta hefir að vísu verið tekið fram áður, en það er rjettmætt að rekja þetta upp aftur, er andstæðingar einkasölunnar eru að bera saman innflutninginn fyrir og eftir það að einkasalan komst á fót. En áætlanir allar viðvíkjandi einkasölunni hafa staðist; því þó að árið 1922 gæfi lægri tekjur af einkasölunni en við var búist, stóðust þær 1923 alveg áætlun. en 1924 fóru tekjur tóbakseinkasölunnar um 150 þús. kr. fram úr áætlun, og um það þarf ekki að deila, að árið 1925 mun tóbakseinkasalan fullkomlega gefa áætlaðar tekjur, svo framarlega sem árferðið verður ekki verra en það var 1923—24. Háttv. þm. N.-Ísf. (JAJ) taldi engan gróða hafa orðið á einkasölunni. Telur hann það engan gróða fyrir ríkissjóð að fá 350 þús. kr. á árinu 1924 frá einkasölunni, sem er langt fram yfir það. sem áætlað var? Það er nú svo, að jeg býst að vísu við því, að hv. frsm. fjhn. hafi rjett fyrir sjer í því, að meiri hl. þessarar háttv. deildar sje á móti einkasölunni. en jeg veit þó um tvo þm. í Íhaldsflokknum, sem eru með því í hjarta sínu að halda tóbakseinkasölunni áfram, þótt þeir þori ekki að sýna það við atkvgr.

En hvað viðvíkur þessum samanburði á „frjálsri verslun“ og einkasölu, þá segi jeg óhikað, að einkasalan sje langtum heppilegra fyrirkomulag. Nú sem stendur er nefnd, skipuð af ríkisstjórninni, að rannsaka ástandið hjer í Reykjavík og orsakir dýrtíðarinnar, og nýlega lýsti einn þessara nefndarmanna því yfir á fundi í bæjarstjórn Reykjavíkur, að dýrtíðin hjer stafaði að langmestu leyti af hinni svokölluðu „frjálsu samkenni.“ Þetta sama hefir líka orðið niðurstaðan víðar. Þannig sagði danski þingmaðurinn Ove Rode í ræðu í fólksþinginu í vetur, er rætt var um orsakir dýrtíðarinnar, að hún væri að miklu leyti af því, að kaupmennirnir væru of margir. Þetta sama mundi óefað sýna sig hjer, ef til væru nokkrar skýrslur um þetta efni, svo hægt væri að sýna þetta með tölum. Út frá þessu verður það augljóst, að þegar kaupmennirnir taka við tóbaksversluninni, þá verður sá kostnaður miklu meiri, sem á tóbakið legst, heldur en nú. Þess vegna er það óefað, að varan verður dýrari framvegis hjá kaupmönnum er landsverslunin hættir að gera innkaupin fyrir þá.

Hæstv. fjrh. (JÞ) var í ræðu sinni að lýsa þessum mikla rekstrarkostnaði landsverslunarinnar og taldi hann nema sem svaraði einni krónu á hvert kg. af tóbaki, og sagði hann, að t. d. gæti Samband ísl. samvinnufjelaga hagnast sem þessu næmi við það að einkasalan hætti. Þetta er nú dálítið annað en áður hefir heyrst hjá meðmælendum frjálsrar verslunar, er þeir hafa talið, að þetta ætti að koma öllum almenningi til góða í lækkuðu verði á þessum vörum. Það hefir hingað til verið talið ómögulegt að gera tvo mágana úr einni dótturinni. En þó vilja nú andstæðingar tóbakseinkasölunnar gefa þessa 1 kr. bæði kaupmönnum og almenningi líka. En mála sannast mun það, að kaupmönnum mun gjöfin ætluð, en ekki almenningi.

Hæstv. fjrh. talaði um, að meðhaldsmenn landsverslunarinnar hefðu verið með ögranir út af þessu máli og að landið mundi verða látið gjalda þess, hvernig atkvgr. fjelli um þetta mál, og að hótað hefði verið að fella tekjuaukafrv. stjórnarinnar. En nú vil jeg spyrja hæstv. fjrh. (JÞ): Er það undarlegt, þó að menn yrðu tregir á að samþykkja nýja, háa tolla handa þeirri stjórn, sem með opnum augum kastar frá sjer vissum mörg hundruð þúsund króna tekjustofni? Væri það undarlegt, þó að menn yrðu tregari til að játast undir þunga skatta og álögur, aðeins til þess, að kaupmenn gætu hagnast sem mest! Jeg svara hiklaust nei. Og það er undarlegt, hversu langt andstæðingar stjórnarinnar hafa farið í því að útvega þessari stjórn tekjuaukningar, er hún fer jafnilla með þá tekjustofna, sem hún hefir nú þegar til umráða. Það er í fleiru en tóbaksmálinu, sem stjórnin fer illa að ráði sínu; t. d. er hjer frv. um að kasta á braut af tekjuskatti þeim, sem greiðast á á árinu 1925, allverulegum hluta af tekjum ríkissjóðs. Jeg veit ekki, hversu miklu þetta nemur, enda hefir hæstv. fjrh. (JÞ) gefist upp við að reikna þetta út, en það mun alveg óhætt að giska á 300—400 þús. kr. í það allra minsta. Þetta fje er hægt að fá í ríkissjóð á þessu ári, en hæstv. fjrh. á ekki víst, hvort hann fær þetta unnið upp síðar, ef hann drepur hendi við því nú. Sennilegast er, að þetta vinnist aldrei upp. Það er því ekki nema eðlilegt, að mönnum þyki óvarlegt að afhenda stjórninni nær ótakmarkað vald um nýjar skattaálögur, er hún fer jafnóviðurkvæmilega með þá tekjustofna, sem fyrir eru. Það væri því ekki að undra, þó að verðtollurinn fengist t. d. alls ekki framlengdur framar, því það er skattur. sem gengur mjög nærri öllum þorra almennings. Jeg geri ekki ráð fyrir því, að langar umr. hafi mikið að þýða úr þessu, en jeg tel rjett, að málið gangi ekki svo fram, að ekki sjeu víttar aðferðir og kann fylgismanna þess, og er rjett, að mótmæli komi fram um þetta. Málið er flutt af ofurkappi; er heimtað, að það komi fyr á dagskrá en þingvenja var til, og því flýtt úr hófi fram. Þetta er því undarlegra, sem nú eru allmargir þm. snúnir til andstöðu við einkasöluna, sem áður voru henni meðmæltir og ljeðu sitt atfylgi til þess að hún kæmist á fót, og hafa einnig játað, að tóbakseinkasalan hafi ekki brugðist vonum þeirra. Þetta er því undarlegri harðneskja hjá þeim flokkum, er mestu ráða um þetta mál, er það er vitað, að þeir eru ekki allfáir meðal þm., sem vilja alls ekki leggja niður einkasöluna, þó að harðfylgi flokkanna neyði þá til að greiða atkvæði með frv.