22.04.1925
Neðri deild: 62. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2990 í B-deild Alþingistíðinda. (1871)

50. mál, tollalög

Þórarinn Jónsson:

Jeg kveð mjer hljóðs vegna ummæla hv. þm. Str. (TrÞ). Hann skoraði á mig og nokkra aðra hv. þm. að lýsa afstöðu okkar til þessa máls í sambandi við það, að við hefðum áður fylgt tóbakseinkasölunni.

Jeg átti að skila til hv. þm. (TrÞ), að við teldum okkur ekki skylt að standa honum reikningsskap gerða okkar, hvenær sem honum þóknast. Reikningsskil munum við á sínum tíma gera rjettum hlutaðeigendum, og þá á rjettum vettvangi.

Svar mitt þyrfti í raun rjettri ekki að vera lengra. En af því að jeg er hreinskilinn, þá skal jeg fara örfáum orðum um frv. þetta, úr því jeg er staðinn upp. Þá skal jeg fyrst segja hv. þm. (TrÞ), að jeg hefi altaf verið á móti því, að ríkið hefði einkasölu á tóbaki. Í fjhn. 1921 var jeg með frv. aðeins til þess að gera tilraun, en ekki til annars. En fyrir mjer hefir ekki farið eins og fyrir hæstv. atvrh. (MG). Mjer finst jeg hafa orðið fyrir vonbrigðum, þó vonirnar hafi aldrei verið ýkjamiklar, og jeg get ekki bygt á tóbakseinkasölu sem tekjulind fyrir ríkissjóð í framtíðinni.

Hv. andmælendur frv. segja, að einkasalan eigi að gera hvorttveggja í senn: að vera fastur tekjustofn ríkissjóðs og jafnframt draga úr tóbaksnautn landsmanna. Hvernig má slíkt verða? Mjer skilst, að eftir því sem innflutningur tóbaks minkar, eftir því rýrist tekjur ríkissjóðs, nema álagningin sje aukin jöfnum fetum, svo að hún verði með öllu ósanngjörn. Og ef álagningin á að vaxa á þennan hátt, þá endar það óumflýjanlega með því, að innflutningur stöðvast algerlega. Hvar verða þá tekjur ríkissjóðs?

Jeg veit nú ekki, hversu heppilegt það kann annars að vera, að tóbaksnautn hverfi úr sögunni. Jeg er hræddur um, að annað komi í staðinn, og er þá undir hælinn lagt, að það verði hollari nautn.

Það hefir verið margendurtekið af andstæðingum þessa máls, að þetta væri gert kaupmönnum til hagnaðar. Mjer hefir ofboðið að heyra þessar ófyrirleitnu endurtekningar og undrast það mest, að þá er kaupfjelögunum alveg gleymt. Það liggur þó í augum uppi, að kaupmenn geta ekki haldið verðinu uppi, ef kaupfjelög selja lægra við hlið þeim. Og hverjum kaupfjelagsmanni er innan handar að fá tóbakið með kostnaðarverði í pöntun. Hinu geri jeg ekki ráð fyrir, að kaupfjelögin eða Sambandið gengju í fjelag við kaupmenn til þess að hækka verðið, til þess að sanna þær fjarstæður, sem nú er haldið fram. Þetta tal er því vísvitandi ósanngjarnt og óhugsað.

Jeg skal svo ekki blanda mjer frekar inn í umræðurnar. En aðeins ítreka það, gagnstætt hæstv. atvrh. (MG), að landsverslunin hefir brugðist vonum mínum á allan hátt, þó þær væru ekki háar í fyrstu.