22.04.1925
Neðri deild: 62. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 3006 í B-deild Alþingistíðinda. (1878)

50. mál, tollalög

Tryggvi Þórhallsson:

Jeg hefi ekki tafið þessar umr. mikið fram að þessu og setið þegjandi hjá, þó hnútum hafi verið til mín kastað úr ýmsum áttum. Þykist jeg því hafa fullan rjett til að bíta frá mjer. Þó tími vinnist aðeins til að svara nokkru af því sem þörf væri að fara frekar út í.

Vil jeg þá fyrst víkja að hæstv. fjrh. (JÞ). Aðalkjarninn í fyrstu ræðu hans var tilraun til að ósanna, að vonir þær, sem við höfðum gert okkur um tóbaksverslunina, hefðu ræst. Orðaði hann þetta svo, að vonirnar hefðu verið gerðar upp 1921. En þetta er rangt. Vonirnar eru gerðar upp eftir á; það er núna, sem þær eru gerðar upp. En hafi vonirnar brugðist, þá dynur það þyngst á hæstv. atvrh. (MG), sem bar fram þær vonir á þinginu 1921 og barðist fyrir þessu máli þá. En hann hefir nú lýst yfir, að vonirnar hafi alls ekki brugðist sjer. Hæstv. fjrh. vjek sömuleiðis að því, þó ekki beindi hann því til mín, að menn hefðu komið með ógnanir um að samþykkja ekki nýja skatta, ef einkasalan væri afnumin. Jeg hefi ekkert látið í ljós um þetta, en ósjálfrátt flýgur manni í hug, að ef svo mikil þörf er á nýjum sköttum, hvort ekki sjeu tekjur af tóbakinu betur komnar hjá ríkinu en hjá fáeinum einstaklingum. En ræð afnámi verslunarinnar hefir hæstv. ráðh. (JÞ) kveðið upp þann dóm, að þær sjeu betur komnar í vasa einstaklinganna. Kemur þetta vel heim við það, þegar hann álítur, að tekjur þær, sem hann vill sleppa að taka af gróðafjelögum, sjeu betur komnar í höndum gróðafjelaganna en ríkisins. Og sjerstaklega þegar hæstv. ráðh. (JÞ) er að beita sjer fyrir að kasta burtu tekjum ríkissjóðs, þá er ekki neina von, að menn víli fyrir sjer að samþykkja ranglátari og óeðlilegri skatta.

Hæstv. fjrh. (JÞ) vjek þar næst að S. Í. S. og sagði, að það væri stærsti viðskiftamaður landsverslunarinnar með tóbak, og myndi því hafa talsverðan gróða af því, að verslunin væri gefin frjáls, því þá gæti það m. a. komist að betri innkaupum. Þetta er rjett og í samræmi við það, sem við höfum haldið fram, að mikill ágóði myndi lenda hjá kaupmönnum við breytinguna. Nú vil jeg sömuleiðis leggja að jöfnu, hvað mjer er ant um S. Í. S. og honum um kaupmenn. En þó jeg sje Sambandinu eins velviljaður og hann er velviljaður kaupmönnum, þá kýs jeg samt fremur, að ríkið njóti teknanna af versluninni. Svo ant er mjer um það, að ríkinu sje sjeð fyrir nægum tekjum á sem hagkvæmastan hátt.

Þá vil jeg víkja að háttv. þm. N.-Ísf. (JAJ), sem er einn af þeim 4 eða 5 mönnum, sem börðust mest fyrir einkasölunni 1921. Hann hefir nú gert grein fyrir því, hvers vegna hann hafi skift um skoðun í þessu máli. Hann kom með heilmikið af tölum, sem áttu að sanna, að í staðinn fyrir að ríkissjóður hefði grætt, þá hefði hann tapað á tóbakseinkasölunni. Eftirtektarverðastar af öllum þessum miklu tölum hv. þm. voru þær, sem hann kom með alla leið frá 1919. Þar var niðurstaðan, sem hann komst að, alveg átakanleg. Jeg verð að taka undir með hv. 2. þm. Rang. (KlJ) og heimfæra upp á hv. þm. N.-Ísf. (JAJ): „Eftir á kemur ósvinnum ráð í hug.“ Allar þessar tölur lágu fyrir, þegar tóbakseinkasalan komst á. Háttv. þm. játar því, að hann hafi vanrækt sína þingmannslegu skyldu, með því að gera sjer ekki grein fyrir því þá, hve mikil hætta stafaði af þessari stofnun, sem hann stuðlaði að, að kæmist á. En þessi rök, sem hv. þm. færði fyrir því, að ríkissjóður tapaði ekkert á niðurlagningu einkasölunnar, bitna fyrst og fremst á þeim hæstv. ráðherra, sem hann styður, sem hefir lýst því yfir, að vonir þm. hafi fyllilega ræst; þær vonir, sem þeir gerðu sjer um einkasöluna 1921.

Annars get jeg ekki látið hjá líða að minnast á það í sambandi við þessa ræðu hv. þm. N.-Ísf. (JAJ), sem vel er kunnugt, m. a. frá kirkjusögu, að þeir, sem skifta um átrúnað eru oft fyrst á eftir talsvert harðvítugir að verja sinn nýja átrúnað. (JAJ). Þetta má hv. þm. vera kunnugast sjálfum). Í þessu máli hefi jeg ekki skift um átrúnað, og veit jeg ekki til, að hv. þm. geti hent á það á öðrum sviðum heldur.

Jeg þarf engu að svara háttv. þm. V.- Húnv. (ÞórJ), sem talaði að því er virtist bæði frá sinni hálfu og frá hálfu skoðanabræðra sinna í þessu máli. Það gildir sama um hann og hv. þm. N.-Ísf. (JAJ).

Þá ætla jeg að víkja fáeinum orðum að háttv. frsm. meiri hl. (JakM). Jeg þarf ekki að bregða honum um neina útúrdúra í þessu máli, þar sem hann hefir haldið fast strikinu. Hv. frsm. meiri hl. (JakM) vjek að skoðun Framsóknarflokksins alment og sagði, sem rjett er, að við værum fríverslunarmenn. Og hann veit að þeir, sem fylgja samvinnustefnunni, eru það en vildi segja, að við værum í mótsögn við sjálfa okkur, þar sem við vildum hafa tóbakseinkasölu. En spurningin er, hvar línan sje dregin milli opinbers rekstrar og prívatrekstrar. Jeg veit, að háttv. þm. játar, að t. d. póstmál og sími o. fl. eigi að vera rekið af því opinbera. Það má ekki kasta öllu í hendur einstakra manna. Jeg geri ráð fyrir, að ekki sje langt milli okkar um hvar línan skuli dregin, því að jeg álít frjálsa verslun betri af sömu ástæðum og vaka fyrir hv. frsm. meiri hl. (JakM), sem sje, að mennirnir eru ekki nógu fullkomnir og ekki er hægt að treysta þeim til að vinna eins vel fyrir aðra og þeir vinna fyrir sjálfa sig. Nú stendur dálítið sjerstaklega á. Annarsvegar er ríkissjóður þurfandi fyrir tekjur, en hinsvegar vill svo vel til, að sá maður sem veitir landsversluninni forstöðu, er maður, sem allir treysta og þekkja að samviskusemi. Jeg get lýst því yfir, að af þessu tvennu er jeg fylgjandi tóbakseinkasölunni. Ef jeg bæri ekki sjerstakt traust til þessa manns, væri jeg á móti ríkisverslun með tóbak. Hv. frsm. meiri hl. (JakM) getur sagt, að jeg sje ekki samkvæmur sjálfum mjer, en munurinn er aðeins sá, að jeg færi línuna neðar en hann en „princip“-munur er enginn.

Jeg hefi fengið svar frá hv. þm. N.- Ísf. (JAJ), hv. þm. V.-Húnv. (ÞórJ), hv. þm. Borgf. (PO) og hv. 2. þm. Skagf. (JS) við því, sem jeg spurði um, en mjer þykir undarlegt, að hafa ekki fengið svar við öðru atriði, og því hefi jeg beðið svo lengi með að tala, að jeg átti bágt með að trúa, að því yrði ekki svarað. Jeg á við fyrirspurnina til stjórnarinnar um það, hvort í kjölfar þess að leggja niður tóbakseinkasöluna eigi að koma afnám steinolíueinkasölunnar. Jeg játa, að jeg á ekki fulla kröfu á því, en jeg ætla, að svo sje náið nef augum, að menn hljóti að óttast, að ef tóbakseinkasalan verði lögð niður, sigli steinolíueinkasalan í kjölfar hennar, enda veit jeg, að allir þm. hafa heyrt, að þarna væri vegur til þess. En jeg get ekki neitað, að mjer hefði þótt það meiri kurteisi að svara slíkri fyrirspurn áður en sá þm., sem ber hana fram, er dauður.

Jeg þarf lítið að víkja að brtt. á þskj. 376. Bæði hv. 2. þm. Rang. (KlJ) og hv. 1. þm. Árn. (MT) hafa gert grein fyrir henni, og jeg get tekið undir ummæli þeirra. Jeg tel alveg sjálfsagt, að hún nái fram að ganga, því að ef frestað er um 1 ár, er fengin meiri reynsla um skipulagið. En þetta fæst ekki. Hæstv. fjrh. (JÞ) lýsti sig andstæðan því. En það á ekki að fara fram með meiri forsjá í þessu máli en svo, að hæstv. fjrh. og hv. frsm. meiri hl. (JakM) hafa lýst yfir aðstöðu sinni, án þess að bera sig saman við aðra nefndarmenn. Það á ekki að gefa eftir.

Jeg verð ekki langorður úr þessu. Jeg á 2 atriði eftir. Það fyrra vildi jeg mega kalla sálfræðilega atriðið í þessu máli. Það fyrsta, sem þar blasir við, er það að hæstv. ráðherra vill kasta burt 250 þús. kr. tekjum, eftir að vonirnar hafa ræst. Þá eru þeir 4—5 þm., sem fyrst og fremst styðja þennan ráðherra og hafa heyrt að vonirnar hafa ræst, en halda áfram að styðja hann eftir framkomu hans. Loks er 6. þm. í þessum hóp (ÁJ), sem óskar eftir upplýsingum. Hann fær yfirlýsingu frá þeim ráðherra, sem hann treystir best, um að vonirnar hafi ræst, en ætlar samt að greiða atkvæði á móti. Hvernig á jeg annað en haggast í þeirri trú, að það sje alvara hjá þessum mönnum að vilja rjetta við fjárhag landsins? Jeg vil einkum beina því til hv. 2. þm. Skagf. (JS), hv. þm. Borgf. (PO) og hv. þm. V.-Húnv. (ÞórJ), sem jeg vil bera hina bestu sögu um samvinnu í fjvn., að það er erfitt fyrir mig að halda áfram að trúa því, að þeim sje alvara að vilja keppa að því að rjetta við fjárhaginn, þegar þeir kasta frá ríkissjóði 250 þús. kr. vissum tekjum á ári, þegar sá ráðherra, sem þeir treysta best, hefir lýst því yfir, að vonirnar hafi ræst.

Jeg býst við, að eftir örfáar mínútur fari fram atkvgr. í þessu máli, svo að þetta verða síðustu orðin, sem jeg fæ að segja. Jeg vil því enda mál mitt með örfáum orðum til viðbótar, sem þá eru kveðjuorð mín til föður þessa skipulags, sem, eins og hv. 1. þm. Árn. (MT) komst að orði, er skilgetinn faðir þess barns, sem nú er verið að bera út. Jeg ætla að kveðja hann með sögu úr fornu riti, og það ljótri sögu. Það á ekki illa við, því að það er ljótt mál, sem hjer á að koma í gegn. og ljótt verk, sem hjer er verið að vinna. Þessi saga er af því, að seint á Sturlungaöldinni fór Einar Ásgrímsson að Stað í Steingrímsfirði til þess að sækja heim Vigfús Gunnsteinsson. Sló hann hring um bæinn og kveikti í. Í liði Einars var Eyjólfur nokkur Rögnvaldsson. Rögnvaldur faðir hans var inni í eldinum, og það vissi Eyjólfur. Hann margbað föður sinn að ganga út, en það var árangurslaust. — Jeg efa ekki, að hæstv. atvrh. (MG) hefir gert margar tilraunir til þess að bjarga barni sínu, sem nú á að bera út. Jeg veit, að hann hefir margoft reynt að leiða flokksmönnum sínum fyrir sjónir, hvílíkt óhappaverk þeir væru að vinna, en það hefir ekki tekist og því fer nú fyrir hæstv. atvrh. (MG) eins og fór fyrir Eyjólfi.

Eyjólfur sagði: „Brendu þá inni, djöfuls karlinn.“ Hæstv. atvrh. segir: „Verði það þá borið út, barnið mitt.“