29.04.1925
Efri deild: 63. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 874 í B-deild Alþingistíðinda. (188)

1. mál, fjárlög 1926

Halldór Steinsson:

Jeg á hjer tvær eða þrjár örlitlar brtt., sem jeg þarf ekki að vera langorður um. Það er fyrst við 16. gr., um styrk til fyrv. eigenda Breiðafjarðarbátsins Svans. Eins og kunnugt er, fór þetta hlutafjelag illa í efnalegu tilliti. Það varð fyrir stórhnekki, sem olli því, að það varð gjaldþrota. Hluthafarnir mistu alt, en tjónið varð þó enn þyngra að því leyti, að stjórnin hafði oft orðið að binda sjálfa sig með ábyrgðum, til þess að hægt væri að halda rekstrinum áfram. Svo þegar báturinn varð að hætta, var ekki einungis alt hlutafjeð tapað, heldur einnig há upphæð, sem varð að lenda á stjórninni. Þetta fjelag er kunnugt háttv. þm. Þingið hefir áður hlaupið undir bagga með því og veitt því styrk. En þó að það hafi notið velvildar frá ýmsum hliðum, standa enn eftir um 12 þús. kr., sem ekki er annað sýnna en að lendi á stjórninni að greiða. Því hefir verið leitað til Alþingis um styrk til þess að greiða þessa skuld, en hv. Nd. hefir ekki sjeð sjer fært að veita í þessu skyni meira en 6000 kr. Hv. fjvn. þessarar deildar hefir þó þótt of ríflega til tekið og klipið af þessari upphæð 2000 krónur. Jeg sje ekki, að nein sanngirni mæli með þessari lækkun. Mennirnir, sem í stjórninni voru, áttu enga sök á, að svona fór, og það er ekki rjett, að einstökum mönnum blæði af því að þeim er treyst betur en öðrum til þess að standa fyrir þjóðþrifafyrirtækjum. Það hefir verið gert ráð fyrir, að Snæfellsnessýsla leggi fram aðrar 6000 kr. Vona jeg fastlega, að deildin felli þessa brtt. frá hv. fjvn. og láti fjárhæðina í frv. standa. En við þetta er það að athuga, að talað var um jafnháa upphæð frá Dala- og Snæfellsnessýslu. Jeg vildi breyta því þannig, að í staðinn fyrir þessar sýslur kæmi: eða annarsstaðar frá, — eða með öðrum orðum, ef sýslurnar sæju sjer ekki fært að greiða þessa upphæð, væri jafngilt, ef upphæðin kæmi annarsstaðar frá. En nú hefi jeg fengið símskeyti frá sýslufundi Snæfellinga, þar sem samþykt er að veita 3000 kr. til þessa, og þar sem telja má víst, að Dalasýsla komi á eftir, tek jeg þessa brtt. hjer með aftur.

Þá er brtt. mín við 18. gr., um að veita 500 kr. til Matthildar Þorkelsdóttur júbilljósmóður. Jeg vona, að hv. þdm. muni eftir því, að á síðasta þingi kom fram tillaga um að veita Þórdísi Símonardóttur á Eyrarbakka 1000 eða 1200 kr. Þá gat jeg þess, að svo framarlega sem fullvíst væri, að sú tillaga næði fram að ganga, mundi jeg bera fram till. fyrir ljósmóður í mínu læknishjeraði. En það kom aldrei til, því að styrkurinn var feldur. Nú hefir þessi sama ljósmóðir verið tekin upp í fjárlögin í háttv. Nd., í 18. gr. þeirra. Tillagan gekk í gegnum Nd. og fjvn. Ed. gerði engar athugasemdir við hana. Jeg er því í fullu samræmi við það, sem jeg sagði á síðasta þingi, þegar jeg nú ber mína till. fram.

Jeg skal þá færa rök að því, að þessi yfirsetukona er síst síður verðug styrks en ljósmóðirin á Eyrarbakka, að henni ólastaðri. Matthildur Þorkelsdóttir er fædd árið 1848, og er því 77 ára gömul. Hún tók yfirsetukvennapróf hjá doktor Haltalín 1873 og var þá sama ár lögskipuð yfirsetukona í Borgar- og Álftaneshreppi á Mýrum. Þannig hefir hún verið lögskipuð yfirsetukona í 52 ár, en áður hafði hún gegnt þessu starfi í 4 ár. Jeg hefi verið með henni sem læknir í 26 ár og jeg verð að segja, að hún er sú langbesta yfirsetukona, sem jeg hefi unnið með, því að hún sameinaði það tvent, að jafnframt því sem hún var ágæt ljósmóðir, er hún einnig góð hjúkrunarkona. Hjúkrunarhæfileikar hennar hafa komið að miklu liði, þar sem hún hefir setið í fjölmennasta hreppi sýslunnar. Eins og gefur að skilja, er hún, þar sem hún er orðin 77 ára gömul og hefir í fjölda mörg ár gegnt erfiðu yfirsetukvennaumdæmi, ekki lengur fær um að standa í stöðu sinni. Að hún hefir starfað fram á þennan dag, er ekki af því, að hún hafi ekki fyrir löngu óskað að losna, heldur af því, að ekkert liggur þá fyrir henni annað en hreppurinn. Hún býr með manni sínum, sem er 77–78 ára og hefir verið alblindur í 10 ár. Jeg vona því, að hv. þdm. sjái, að svo framarlega sem á að ganga inn á þá braut að styrkja þreyttar ljósmæður, þá stendur þessi ljósmóðir með þeim fremstu í landinu. Eftir því sem rök hafa verið færð fyrir ljósmóðurinni á Eyrarbakka, verð jeg að segja, að hún þolir alls ekki þennan samanburð, án þess jeg vilji á nokkurn hátt kasta skugga á hana. Þess vegna geri jeg ráð fyrir, að þessar ljósmæður fái að minsta kosti að fylgjast að. Þó þeir sjeu á móti þessu, sem álíta það principmál að styrkja ekki yfirsetukonur með ríkissjóðsfje, heldur eigi sýslusjóðir að gera það, er lítið við því að segja, en jeg vil, að báðum þessum ljósmæðrum sje gert jafnhátt undir höfði. Jeg vona því, að allir hv. þdm., hvort sem þeir eru með eða móti þeirri reglu að veita uppgjafaljósmæðrum eftirlaun úr ríkissjóði, geti greitt atkvæði með þessu núna, því að ef þessi ljósmóðir er feld nú, situr hin eftir. En það er ranglæti, og er því heppilegra að lofa þeim báðum að ganga til 3. umr.

Um aðrar brtt. sje jeg ekki ástæðu til að fjölyrða. Afstöðu mína gagnvart þeim mun jeg sýna við atkvgr.