28.04.1925
Efri deild: 62. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 3035 í B-deild Alþingistíðinda. (1888)

50. mál, tollalög

Jónas Jónsson:

Það er varla hægt að hugsa sjer ánægjulegri aðstöðu í nokkru máli en þá, sem jeg hefi nú að því er þetta mál snertir; — andstæðingarnir hafa tekið til fótanna og flýja af vígvellinum, vegna þess að þeir treystast ekki til að verja lengur sinn málstað. Þegar málið kom hjer til umræðu, hvarf allur þorri flokksmanna stjórnarinnar burt úr deildinni. Þeir segjast að vísu vera búnir að ræða málið annarsstaðar, en hjer var ekki einu sinni hægt að fá stjórnina sjálfa til að skýra frá afstöðu sinni, þótt henni væri boðið að verjast. Þegar jeg ljet frumkvöðul þessa máls, hæstv. atvrh. (MG), vita, að jeg ætlaði að tala um þetta mál og ljet hann vita, að jeg vænti þess, að hann kæmi og lýsti sinni afstöðu til málsins, svaraði hann mjer því einu, að sjer kæmi málið alls ekkert við! Ánægjulegri þrotayfirlýsingu en þetta er ekki hægt að hugsa sjer. Þessi maður, sem var frumkvöðull að því, að tóbakseinkasalan var upp tekin og barðist hraustlega fyrir því máli fyrir fjórum árum síðan, segir, að málið komi sjer nú alls ekki við! Þetta mætti ef til vill skilja svo, að hann teldi sjer nú svo vissan meiri hluta í þessari deild, að hann teldi óþarft að ræða málið frekara og þannig mátti einnig skilja orð hæstv. fjrh. (JÞ), er hann sagði, að rök mín hefðu þegar komið fram í Nd. Ef þetta væri rjett, þá væri nóg að hafa aðeins eina deild og láta sitja við þann úrskurð, sem þann veg yrði lagður á málin. Það er nú t. d. nýbúið að afgreiða fjárlögin frá Nd. Vill þá hæstv. fjrh. láta sjer lynda þann úrskurð, er þau fengu þar? Jeg held, að þetta sje ekki rjett; jeg held, að það eigi að ræða málin af viti og með alvöru í báðum deildum, því að þó að hæstv. fjrh. (JÞ) hafi látið sitt ljós skína í Nd., þá koma þau rök, og hann kann að hafa borið fram þar, ekki til greina hjer í Ed. Þetta er því augljós vottur þess, að stjórnin treystir sjer ekki til að verja málið, þótt hún sje knúð af verslunarstjett landsins til að veita einkasölunni banasár. Jeg veit annars ekki, hvað hæstv. forseti (HSteins) hefði sagt við mig, ef jeg hefði lýst því yfir, að jeg ætlaði alls ekki að ræða það mál, sem á dagskrá væri, en mundi tala um eitthvað, sem væri því alveg óviðkomandi. Hæstv. forsrh. (JM) sagðist ekki mundu ræða þetta mál, heldur ætlaði hann að tala um vínverslun ríkisins, sem hann og gerði. (Forseti HSteins: Þm. gaf sjálfur tilefni til þess). Hann gerði það að aðalástæðu til þess að ræða málið, að til hans sneri jeg ádeilu minni út af afskiftum hans af þessu máli fyrrum og nú. Þegar tóbakseinkasalan var stofnuð fyrir fjórum árum síðan af núverandi stjórn, að mestu óbreyttri, þá var því haldið fram af andstæðingum málsins, að erfitt mundi að finna hæfan forstöðumann fyrir þessa einkasölu. Jeg benti á það í ræðu minni áðan, að forstöðumaður og alt stjórnarfyrirkomulag tóbakseinkasölunnar hefði þegar staðist hina allra ströngustu gagnrýning, sem hugsanleg hefir orðið, og þess vegna vildi stjórnin leggja hana niður, en það væri til önnur einkasala í ríkinu — áfengisverslunin, sem mjög væri ábótavant, að vel væri stjórnað, og þess vegna ætti hún að standa framvegis, og hefir hæstv. forsrh. (JM) sjálfur viðurkent það, sem vitanlegt er orðið, að þar hefir komið fyrir sjóðþurð um 30 þús. kr. Málið kom að vísu fyrir dómstólana og voru eitthvað einn eða tveir menn dæmdir í nokkrar smásektarupphæðir, en sýknaðir að öðru leyti, og hefir það eflaust verið rjett, en halli ríkissjóðs er engu minni fyrir þetta. Nú kvað málið vera fyrir hæstarjetti og dómur í því ekki fallinn ennþá; en því kemst hæstv. forsætisráðherra (JM) ekki framhjá, að enginn minsti skuggi er til af líkum fyrir því, að landið fái aftur nokkurn eyri af þessu fje. Það, sem fæst, verður aðeins það, að ef til vill fá einn eða tveir menn einhverja hegningu auk sektanna, sem þeir hafa áður verið dæmdir í; það er alt og sumt. En það, sem jeg tel vera aðalatriðið í þessu máli, er það, að forstöðumaður þessa fyrirtækis sleppur alveg og situr áfram í stöðu sinni með 18 þús. kr. að launum á ári; og meiri hl. þessarar deildar gaf honum í fyrra vetur þá traustsyfirlýsingu að neita að taka við stórmiklum tekjum í ríkissjóð af áfengisversluninni, — aðeins af þeirri ástæðu einni, að þá hefði orðið að leggja niður þetta kostnaðarmikla forstjóraembætti, og þó var þá þegar komin fram þessi sjóðþurð, sem dómstólarnir eru nú að dæma menn fyrir. Það er fyrir þetta, sem jeg átel hæstv. stjórn, að hún lætur þennan mann vera áfram í þessu embætti, mann, sem er svo óheppinn í vali sinna undirmanna, að hann tapar 30 þús. kr. þeirra vegna.

Þessum manni þarf endilega að halda í embætti, þó landið t. d. tapi 100 þús. kr. í tekjurýrnun þess vegna!

Þá bar hæstv. forsrh. (JM) það fram, að þessi maður hefði ekki ráðið sjálfur undirmenn sína, heldur hefði stjórnin gert það. En ef svo er, þá hefir maðurinn sýnt óverjandi roluhátt Það er enginn vafi á því, að manninum bar skylda til að ráða sjálfur sína undirmenn. Það er ekki nema um tvent að gera, að annaðhvort hefir forstjóri vínverslunarinnar valið sjálfur sína undirmenn eða látið aðra gera það fyrir sig, og ber hann því sjálfur alla ábyrgð á rekstri fyrirtækisins gagnvart þjóðfjelaginu, hvort heldur sem hefir verið. Hann ber ábyrgðina vegna þess, að honum bar að ráða mennina sjálfur og þeir starfa á hans ábyrgð. Vörn hæstv. forsrh. (JM) er því ekki veigamikil, en þar sem allur verslunarrekstur þessa fyrirtækis hlaut að vera, eins og hann er og var, á ábyrgð forstjórans, þá verður ekki dregin af þessu önnur ályktun en sú, að þeir, sem gera illa, fái feit embætti og önnur fríðindi í staðinn, en hinir, sem hafa staðið samviskusamlega í stöðu sinni, verði að láta af þeim störfum og embætti þeirra lögð niður og allri slíkri starfsemi hætt. Það er ekki að undra, þó að vörn hæstv. stjórnar í þessu máli sje hálftæp, því að allar grundvallarreglur, sem stjórnin hefir áður fylgt í þessu máli, hefir hún sjálf brotið eða haft að engu; þess vegna vill hún hylja sjóðþurð vissra manna og halda ónýtum mönnum í dýrum embættum hliðstæðra fyrirtækja.

Aðalatriðin í vörn stjórnarinnar í tóbakseinkasölumálinu eru þau, að atvrh. (MG) telur málið sjer óviðkomandi, fjrh. (JÞ) segir, að landið tapi engu á samþykt þessa frv., og forsrh. (JM) segir, að áfengismálið sje gott og blessað. Ef það væri rjett, sem hæstv. fjrh. (JÞ) segir nú. Þá tekur hann aftur alt sem hann og 11 flokksmenn hans sögðu 1921, en sjerstaklega ómerkir hann orð og athafnir stjettarbróður síns og núverandi fjelaga í stjórninni, hæstv. atvrh. (MG), á þinginu í fyrra og eins árið 1921 í umr. í Nd. þá. Þessa menn gerir hæstv. fjrh. (JÞ) að ómerkum mönnum. Þeir bygðu einkasöluna á því, að hún ætti að ná kaupmannagróðanum í ríkissjóð, en ekki á hækkun tóbaksverðsins, sem heldur hefir ekki orðið. Verðið hefir ekki verið hærra hjá einkasölunni en hjá kaupmönnum. Jeg læt þó þessa staðreynd fara fram hjá mjer að þessu sinni, en læt mjer nægja að vísa til þess, sem samherjar hans 1921 og stjettarbróðir, sem hann nú hefir gert að ómerkum manni, sögðu 1921, er þeir bentu á 9 stór og voldug ríki, sem höfðu hjá sjer einkasölu á tóbaki o. fl. til þess að græða á.

Jeg hefi nú sýnt fram á, hversu veigalitlar ástæður hæstv. stjórn hefir haft fyrir sig að bera, enda hefir nú stjórnin og flokksmenn hennar þegar gefist upp og þora nú ekki lengur að ræða málið. Rök þeirra eru nú brotin, og þarf jeg ekki nema að skírskota til framkomu hæstv. forsrh. (JM) og hæstv. atvrh. (MG) til að sýna fram á, hversu skoðanabrigði eða hringl þeirra er mikið. Þegar þeir voru báðir í sömu stjórn fyrir 4 árum síðan, báru þeir fram mörg einkasölufrv. Aðstaða hæstv. atvrh. (MG) nú hefir þegar verið skýrð til fulls; hann hefir látið á sjer skilja, að hann sje ennþá sömu skoðunar og áður. En hæstv. forsrh. (JM) ætlar að skjóta sjer undan allri ábyrgð með því, að hann hafi ekki haft atkvæðisrjett um þessi mál á þinginu 1921. Þó hann að vísu gæti ef til vill skriðið undir það, að aðrir ráðherrar í sömu stjórn gætu borið fram frv., ef þeir vildu, þó form stjórnarinnar væri þeim ekki samþykkur, þá eru þar þó vissulega takmörk fyrir, hversu langt verður farið í því efni, og stjórnarformaðurinn er það þó, sem valið hefir meðstjórnendur sína, og getur hann þá látið þá fara, ef hann getur ekki lynt við þá lengur, eða þá að stjórnin öll segir af sjer. Á Frakklandi kom það t. d. fyrir nýlega. að fjármálaráðherra þar varð að fara frá vegna þess að hann var ósamþykkur stjórnarformanninum í skattamálum, og var nýr fjármálaráðherra valinn í hans stað, sem hafði það embætti nokkra stund, þangað til öll stjórnin varð að fara frá. Þetta skýrir ljóslega, hvað ráðherrunum ber að gera, þegar slíkur skoðanamismunur kemur upp innan stjórnarinnar. Ef hæstv. forsrh. (JM) er ósamþykkur hinum ráðherrunum, þá eitt af tvennu skiftir hann um menn í stjórninni eða segir af sjer. Að hann sagði ekki af sjer stjórnarformensku 1921, sýnir það, að í raun og veru vildi hann bera ábyrgð á öllum einkasölufrv., þó að hann greiddi ekki atkv. um þau. Hann ber því alveg eins ábyrgð á þeim eins og þáverandi fjrh. Stjórnarformaðurinn ber ábyrgð á allri stefnu stjórnarinnar, þar til hann neitar að gegna stjórnarformensku, ef stjórnarstefna hans mætir of mikilli andstöðu.

Það mun sjást við atkvgr., að þessari umr. lokinni, hversu margir þeir eru af fyrverandi fylgismönnum einkasölunnar, sem nú hafa á einhvern leyndardómsfullan hátt snúist á móti því máli, sem þeir báru fram til sigurs fyrir aðeins fjórum árum síðan.

Jeg læt mjer svo nægja í þetta sinn að hafa sýnt fram á, að einkasölumál þetta er upphaflega borið fram af tveimur núverandi ráðherrum og að málið er svo mikils vert og viðurhlutamikið fyrir fjárhag ríkisins, að hver einasta samviskusöm stjórn mundi telja skyldu sína að fylgja því fram og styðja það framvegis; þannig er það t. d. á Frakklandi, og í engu öðru landi hefir lengur staðið en þar tóbakseinkasala eingöngu í gróðaskyni fyrir ríkissjóðinn; einkasölunni er ávalt haldið og dettur engum þar í hug að hrófla við henni, þrátt fyrir hin sífeldu stjórnarskifti, sem þar verða.

Það er tvent, sem telja má sannað um þetta fyrirtæki. Í fyrsta lagi, hvernig stofnað var til þess; í öðru lagi, hvernig það hefir gefist. Í þriðja lagi mætti og telja það sannað, að stjórnarliðið hefði svo slæma aðstöðu, að það treystist ekki til þess að rökræða málið. Það verður gaman, þegar þingtíðindin koma, að sjá, hvernig andstæðingarnir hafa gefist upp í báðum deildum. Það kynni að verða auðskildara þá, af hverju stjórnarliðið vill hindra prentun þingtíðindanna. Þá hefði mátt flýja frá aðstöðu sinni. Mjer er það ekkert áhugamál að sjá andstæðingana gefast upp, heldur hitt, að fylgja rjettu máli. En þó jeg óski stjórnarliðinu einskis ills, þá get jeg vel unt því að fylgja röngu máli, úr því þá langar til þess, og svo í ofanálag að lofa þjóðinni að sjá, að þeir þora ekki að standa við það.