28.04.1925
Efri deild: 62. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 3041 í B-deild Alþingistíðinda. (1889)

50. mál, tollalög

Fjármálaráðherra (JÞ):

Jeg heyri sagt, að hv. 5. landsk. þm. (JJ) hafi dróttað því að mjer, að jeg legði á flótta undan ræðum hans.

Í allan dag hefir verið til umr. í Nd. stjfrv., sem jeg flyt og miklu varðar. Það veldur fjarveru minni. En hitt væri engin furða, þótt ráðh. legði á flótta undan ræðum hans, svo langar og litlausar sem þær eru. Og þó þær sjeu ofurlítið kryddaðar með ónotum til andstæðinga hans, þá eru menn orðnir því svo vanir, að enginn veitir því eftirtekt.

Jeg hjelt því aldrei fram, að það væru rök í þessu máli, að ástæður hans voru hraktar í Nd. En hans vegna þarf ekki að endurtaka það hjer.

Annars fer best á því, að höfuðumræðurnar fari fram við 2. umr. Og þar sem hjer þarf að koma mörgum málum í nefnd í dag, þá vil jeg ekki verða til þess að lengja umr., svo að dagskrá geti orðið lokið.

Jeg heyrði ekki alla síðari ræðu hv. 5. landsk. (JJ). En það heyrði jeg, að hann var að brigsla stjórninni um, að hún hefði ekki á síðasta þingi viljað hækka tekjur ríkissjóðs með álagningu á lyfjaáfengi. Þetta er ósatt. Þessi hv. deild afgreiddi málið frá sjer með þessari tekjuhækkun, og var því lokið þannig, að það kom til Nd. á síðasta þingdag. Þá mæltist jeg til þess við marga hv. þm. Nd., að þeir samþyktu frv. óbreytt, þar sem annars var sýnt, að frv. mundi ekki ná fram að ganga, af því tími var svo naumur. En þetta strandaði á flokksmönnum hv. 5. landsk. þm. Og ef um ábyrgð er að tala, fellur hún á þá. Þetta sagði jeg í hv. Nd., og hafði þar enginn á móti.

Háttv. 5. landsk. (JJ) getur skemt sjer við að segja rangt frá þessu, og jeg geri ráð fyrir, að það sje í samræmi við reglu hans, að telja þá rjett skýrt frá, er rangt er farið með.