28.04.1925
Efri deild: 62. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 3045 í B-deild Alþingistíðinda. (1894)

50. mál, tollalög

Jónas Jónsson:

Þegar þetta mál var til umr. á þinginn 1921 og samþykt þar, tók einn af þeim þremur hæstv. ráðherrum það fram að siðirnir væru farnir að breytast í þinginu á þá leið, að menn töluðu lítið um málin við 1. umr. Jeg ætla nú samt að vera svo gamaldags að segja nokkur orð og athuga, hvernig stjórnarflokkurinn sem stendur hjer að því að kasta þessu á burt, hefir áður tekið í þetta mál og hverjar ástæðurnar eru. Jeg hefi áður sagt hæstv. atvrh. (MG) frá því, að jeg mundi víkja að meðferð hans á þessu máli, svo að ef hann vill ekki vera við, er það ekki mjer að kenna.

Þegar þetta mál var hjer til umr. á þinginu 1921, voru tveir þeir sömu ráðherrar, sem nú eru; hæstv. atvrh. (MG) var þá fjrh., sami dómsmálaráðherra, en sá maður, sem þá var atvrh., er nú dáinn. Það ráðuneyti hafði að miklu leyti sama stuðning, og margir af núverandi stuðningsmönnum stjórnarinnar voru sem sagt pottur og panna í því að koma á einkasölunni, eða að minsta kosti eindregnir stuðningsmenn hennar. Það, sem núverandi stjórn virðist leggja mesta áherslu á, er sú svokallaða frjálsa verslun, en nú er það ekki sama hugtak, sem meint er í öðrum löndum; þegar talað er í Englandi um „free trade“, er það andstæða við tollvernd, sem átt er við, en hjer á landi hefir sennilega fyrir vankunnáttu þeirra manna, sem hafa tekið að sjer það sem kallað er frjáls verslun, hugtakið verið tekið og breytt merkingu þess, og kaupmannsverslun kölluð frjáls verslun. Alloft hefir þetta nafn verið notað í gagnstæðri merkingu við kaupfjelögin. Þetta hugtaksrugl stafar ekki af öðru en fáfræði þeirra, sem að Íhaldsflokknum standa. Þeir skilja ekki, hvað „free trade“ þýðir, og hafa því snúið merkingu þess orðs upp á alt annað en það þýðir í öðrum löndum.

Nú vill svo vel til, að tveir þeirra ráðherra, sem nú eru í stjórn, voru líka við völd 1921. Báru þeir þá fram nokkur frv. um einkasölu, sem eru, eftir því sem þeir kalla nú, brot á frjálsri verslun, þar sem þeir kalla alla einkasölu nú einokun.

Hæstv. forsrh. (JM) bar þá fram frv. um einkasölu á lyfjum. Upp úr því fæddist aftur einkasala á áfengi. Ennfremur bar þáverandi atvrh. (Pjetur Jónsson) fram frv. um einkasölu á korni, sem allmjög var um deilt í þessari háttv. deild. Loks bar núverandi hæstv. atvrh. (MG), þáverandi fjrh., fram frv. um einkasölu á tóbaki og áfengi, sem hann var svo heppinn að koma gegnum þingið.

Jeg er nú búinn að sanna, að þeir menn, sem nú vilja ekki, að landið versli með neitt, báru einmitt sjálfir fram frv. um einkasölu, og sum þeirra höfðu svo mikið fylgi, að aðeins einir þrír menn voru á móti hjer í deildinni, eins og var t. d. um tóbakseinkasöluna.

Þegar núv. hæstv. atvrh. (MG) lagði fram frv. um tóbakseinkasöluna, tekur hann fram í 7. gr. frv., að verslunin skuli leggja frá 15—50% á tóbak, eftir því sem henta þykir fyrir hverja tegund. Af því mjer þykir margt í greinargerð hæstv. atvrh. fyrir frumvarpinu vel sagt, vil jeg, með leyfi hæstv. forseta, lesa upp örlítinn kafla úr henni. Þar segir:

„Frv. það, sem hjer liggur fyrir, má að ýmsu leyti telja að fari nýjar leiðir. Þó verður alls ekki sagt, að sú hugmynd sje ný, að ríkissjóður taki að sjer einkasölu, því að Alþingi samþykti 1917 lög um heimild fyrir ríkisstjórnina til þess. að taka að sjer einkasölu á steinolíu, og einkasölu á kolum hafði landsstjórnin á hendi eigi allskamman tíma. Hinsvegar er það nýtt hjer á landi að taka einkasölu á tóbaki og áfengi. En ríkiseinkasala á tóbaki er alls eigi óþekt og því eigi heldur í þessu efni um nýja hugmynd að ræða. Í Svíþjóð hefir slík einkasala verið síðan 1. janúar 1915, og mun auk þess vera í Frakklandi, Ítalíu, Spáni, Portúgal, Austurríki, Ungverjalandi, Rúmeníu, Serbíu, Japan og víðar.“

Þá segir hæstv. ráðh. svo ennfremur í greinargerðinni:

„Tilgangurinn með einkasölu á tóbaki er að sjálfsögðu einkum sá, að útvega með því fje í ríkissjóð og ljetta þannig undir skattabyrði almennings. Er gert ráð fyrir, að tóbak, hvort heldur er vindlar, vindlingar, reyktóbak, neftóbak eða munntóbak, verði ekki, eða að minsta kosti ekki sem neinu nemur, dýrara en annars mundi, því að bæði mundi auðið að komast að betri innkaupum fyrir þann, sem hefir umráð yfir allri versluninni, en þegar hún er frjáls, og auk þess er það vitanlegt, að eigi alllítið er lagt einmitt á þessa vöru af stórsölum. Það virðist á engan hátt athugaverð stefna að ljetta skattabyrðina á þennan hátt, þar sem atvinna er með þessu eigi tekin af nema tiltölulega mjög fáum, því að smásala tóbaks verður að sjálfsögðu rekin eftir sem áður.“

Mjer finst jeg geta skrifað undir hvert orð í þessum rökstuðningi hæstv. núverandi atvrh. (MG). Enda hafa engin rök verið færð fram, sem hrundið hafa þessari skoðun hans. Því sorglegra er, að hann skuli ekki þora að standa við hana lengur. Því hefir verið haldið fram af hæstv. núverandi fjrh. (JÞ), — sem nú hefir flúið deildina ásamt flestum fylgifiskum sínum, af því að flóttinn sæmir málstað þeirra betur en vörnin — að vonirnar um gróða af einkasölunni hafi brugðist. Er því best að athuga það dálítið nánar.

Í athugasemdunum við frumvarpið 1921 gerir flm. áætlun um, að gróði einkasölunnar af tóbaki muni nema ca. 60 þús. kr., en af vindlum og vindlingum ca. 140 þús. kr. Með öðrum orðum, þegar einkasalan er komin í lag, gerir hann ekki ráð fyrir meiri tekjum af henni en ca. 200 þús. kr. En svo herfilega hafa menn vilst á þessum tölum, að einn andstæðingur einkasölunnar heldur því fram í fyrra, að gert hafi verið ráð fyrir 5—6 hundruð þús. kr. tekjum af henni. Þessi misskilningur mun stafa af því, að upprunalega var gert ráð fyrir, að áfengiseinkasalan væri í sambandi við tóbakseinkasöluna, og gerir flm., núverandi hæstv. atvrh. (MG), ráð fyrir, að tekjur af áfengiseinkasölunni muni nema um 400 þús. kr. Með því svo að slengja þessu hvorutveggja saman er hægt að fá nógu háar tölur til þess að hægt sje að halda því fram, að vonbrigði hafi orðið með tekjur af einkasölunni. Jeg vil nú benda á til frekari skýringar, að þau þrjú ár, sem einkasalan hefir staðið, hafa fjvn. altaf áætlað tekjur af henni í samræmi við fyrstu áætlun flutningsmanns. Fyrsta árið eru tekjurnar af henni áætlaðar 150 þús. kr. Að þær eru ekki áætlaðar meira, er fyrir þá sök, að þá eru í landinu miklar gamlar birgðir hjá kaupmönnum. Annað og þriðja árið eru tekjurnar áætlaðar 200 þús. kr. hvort árið. Nú vill svo vel til, að fyrir liggur skýrsla um landsverslunina. Á henni má sjá, að reynslan hefir orðið sú, að fyrsta árið hafa tekjurnar ekki orðið nema 100 þús. kr., eða 50 þús. minni en þær voru áætlaðar í fjárlögunum; annað árið standast þær áætlun, eru 200 þús. kr., en þriðja árið reynast þær 350 þús., sem er bókfærður gróði. Eru þær þannig miklu meiri en gert var ráð fyrir. Og af skýrslu landsverslunarinnar fyrir yfirstandandi ár er það sannað, að þá þrjá mánuði, sem liðnir eru af þessu ári, hefir salan verið miklu meiri en í fyrra á sama tíma. Og gróðinn verður þannig miklu meiri en hann hefir verið áður.

Það er því fyllilega sannað, að allur sá blekkingavefur, sem um tóbakseinkasöluna hefir verið ofinn af hæstv. stjórn og fylgifiskum hennar, eru hrein og bein ósannindi, fals á tölum o. fl., þegar tekið er tillit til hinna fyrri ráðagerða hæstv. stjórnar og svo aftur, hver reynslan hefir orðið.

Við 1. umr. tóbakseinkasölunnar í hv. Nd. á þinginu 1921 segir flm. (MG) nokkur orð, sem enn eru orð í tíma töluð til þess að sannfæra stuðningsmenn hans.

Með leyfi hæstv. forseta vil jeg þá lesa upp dálítinn kafla úr framsöguræðu hans:

„Í ástæðunum fyrir frv. þessu eru færð rök að því, að vjer þurfum tiltölulega háa skatta, vegna staðhátta hjer á landi, og því sje það ekki undarlegt, þótt vjer í einhverju verðum að víkja frá alfaraleiðum í skattamálum Fyrir mjer vakir hin brýna nauðsyn að útvega tekjur, og hjer sýnist mjer vera útvegur .... án þess að landsmönnum sje verulega íþyngt eða atvinna tekin af mörgum. Jeg sje ekki betur en að vjer getum vel haft á hendi tóbaksverslunina sjálfir, eins og svo margar aðrar menningarþjóðir heimsins, og jeg sje ekki betur en vjer getum það að óskertum heiðri. Hjer er um vörutegund að ræða, sem ekki telst til nauðsynjavara.“

Ennfremur segir hann:

„Og jeg get alls ekki undir það tekið, sem jeg býst við, að sumir kunni að halda fram, að eigi sje fært að láta landið versla með neinar vörur, því að á öllu verði tap. Landsverslunin, sem nú er, hefir einmitt sýnt það, að þetta er ekki rjett, enda er það svo, að einasti tilgangurinn með frv. þessu er að auka tekjur ríkissjóðs, og ef jeg hefði enga trú á, að landsverslun gæti grætt fje, hefði mjer aldrei dottið í hug að flytja þetta frv.“

Það var mjög vel tekið í þetta mál flm. í háttv. Nd. 1921. Í fjhn. þeirrar deildar áttu þá sæti 7 menn. Hún klofnaði þannig, að 5 studdu frv., einn var á móti því, en einn fjarverandi, þegar nefndarálitið var skrifað.

Þeir, sem vildu samþykkja frv., voru: Magnús Kristjánsson, Jón Auðunn Jónsson, Sveinn Ólafsson, Þórarinn Jónsson og Hákon Kristófersson.

Á móti frv. var Jakob Möller.

Þessi nefndarmeirihluti lagði til, að frv. yrði samþykt með litlum breytingum. Af nöfnum þeim, sem jeg las upp, sjest að fylgjendur frv. eru þrír Íhaldsmenn, sem allir eru nú á móti einkasölunni og fylgja afnámi hennar. Það eru: HK, ÞórJ og JAJ. Hafa þeir því allir snúist síðan og hafa enga afsökun. Sá, sem því klauf nefndina 1921, var Jakob Möller, og hefir hann altaf verið trúr sinni skoðun síðan.

Við umr. í háttv. Nd. 1921 komu fram mjög góð rök með málinu, bæði frá flm. (MG) og fleiri stuðningsmönnum hans.

Með leyfi hæstv. forseta vil jeg lesa upp nokkur orð, þar sem flm. er að svara einum af þm. Reykv., sem mælti gegn frv. Hæstv. núv. atvrh. farast þá þannig orð:

„Hann verður að viðurkenna það, að slík einkasala, sem frv. þetta fer fram á, er alls ekki nein ný bóla, og því er það undarlegt, að hann skuli verða svona hræddur. Það var ekki málaðar svona svartur fjandi á vegginn, þegar kolaeinokunin var á döfinni árið 1913, eða steinolíueinokunin árið 1917.“

Ennfremur segir hann:

„Hann spáir frv. þessu stuttra lífdaga. Við sjáum nú til. Vissara er nú samt að binda fyrir naflastrenginn á því; þetta getur orðið allra efnilegasta barn með tímanum.“

Það var mjög eðlilegt, að flm. vitnaði

til kolaeinkasölunnar, því að að henni stóð einn, af forvígismönnum Heimastjórnarflokksins.

Þá er það mjög einkennilegt, að á þinginu 1921 líkir flm. tóbakseinkasölunni við barn, og það efnilegt barn, sem þurfi að hlynna að. Seinna fæ jeg eflaust tækifæri til að minnast á þau orð, sem fjellu í Nd., þar sem hugsuninni um barnið var haldið uppi, en á mjög sorglegan hátt fyrir hæstv. atvrh.

Þá vil jeg, með leyfi hæstv. forseta, lesa upp nokkur orð, sem fjellu hjá einum úr fjhn. á þinginu 1921, núverandi hv. þm. N.-Ísf. (JAJ): Hann segir:

„Jeg hygg, ef farin er sú leið, sem stjórnin vill í þessu máli, þá þurfi ekki að hækka tollana, heldur muni stórsöluágóðinn vega upp á móti þeirri hækkun, en kaupmenn halda smásöluhagnaðinum jafnt eftir sem áður.“

Ennfremur segir hann:

„En jeg vil geta þess, að víða erlendis er slík ríkiseinkasala á ýmsum vörutegundum, t. d. bæði á Spáni og Ítalíu.“

Með þessum tilvitnunum er sýnt, að í einn af meiriháttar stuðningsmönnum stjórnarinnar, bæði þá og nú, hugsar sjer, að aðeins stórkaupmennirnir muni líða tap við þetta fyrirkomulag. Smákaupmennirnir haldi sínum hagnaði eftir sem áður. Landið taki aðeins heildsalagróðann. Með þessu verði því aðeins tiltölulega fáir, sem tapi við breytinguna, en landið græði.

Þetta er alveg sama hugsunin og hjá flutningsmanni.

Nú má vel vera, að smásalarnir megi hafa minni álagningu en þeir höfðu áður; en þar sem þeim er leyfð 25% álagning, verður að telja það sæmilegt, þegar þeir líka geta nálgast vöruna eftir hendinni, og þurfa því ekki að liggja með birgðir. Það er því eins og hv. þm. N.-Ísf. (JAJ) og flm. (MG) hjeldu fram, að það eru stórkaupmennirnir einir, sem bíða tjónið. Þar sem það er nú sannað, að einkasalan hefir gefið meiri tekjur en gert var ráð fyrir í fyrstu, og það er játað af höfundi hennar (MG), þá er það ljóst, að það eru stórkaupmennirnir, sem eru það hreyfiafl, sem setur á stað afnám einkasölunnar nú.

Þar sem háttv. þm. N.-Ísf. (JAJ) segir, að meira að segja sje verslað í einkasölu með ýmsar vörutegundir bæði á Spáni og Ítalíu, gengur hann lengra en flm., og er því ekki að sjá, að hann sje hræddur við fordæmið.

Þá segir flm. ennfremur eftirtektarverð orð, og jeg vona, að samherjar hans leggi þau rök hans sjer á hjarta, því að þau voru bæði sönn og einföld. Getur líka verið gott seinna meir fyrir hv. Íhaldsmenn að minnast þess, að þeir hafi þó altaf einu sinni haft góðan málstað. Hv. flm. segir:

„Einokunin gamla bygðist á valdboði útlendrar stjórnar, en hjer tekur þjóðin sjálf einkasölu á þessum tilteknu vörum. Það er sá mikli munur, sem er á milli þess að fara sjálfur einn með verslun sína eða láta aðra fara eina með hana.“

Jeg verð að játa, þó jeg hafi ekki mikla aðdáun fyrir hugsanagangi þessa ráðherra, að þessi skýring er eitt hið besta, sem jeg hefi heyrt sagt í þessum efnum. Í þessum fáu orðum er hinum illræmda blekkingarvaðli, að einkasala þessi sje hliðstæð einokun frá 16. öld, þar sem stærri þjóð kúgaði aðra minni, gefið fullkomið rothögg.

Til þess að gera það ljóst, og til þess að það sjáist í þingtíðindunum, hverjir studdu flm. (MG) að því að koma einkasölunni á, hefi jeg skrifað hjá mjer nöfn þeirra. Og telst mjer svo til, að alls 11 íhaldsmenn hafi veitt frv. fylgi 1921 í hv. Nd. Þeir voru:

Björn Hallsson, Hákon Kristófersson, Jón Auðunn Jónsson, Jón Sigurðsson, Magnús Guðmundsson, Pjetur Jónsson, Pjetur Ottesen, Sigurður Stefánsson, Stefán Stefánsson, Þórarinn Jónsson.

Við þennan hóp bættist svo við eina. umr. í Nd. kaupmaðurinn Einar Þorgilsson.

Af þessum mönnum eiga nú sæti í hv. Nd. 6 menn, og hafa þeir allir snúist nú, án þess að þeir gætu fært fram frambærileg rök fyrir snúningnum, þrátt fyrir það, þó að ýtt væri undir þá að útskýra snúninginn.

Á þessu sama virðist bóla nú í þessari hv. deild hjá hinum hv. íhaldsmönnum. Hjer eru enn nokkuð margir menn, sem stóðu að frv. 1921, og skal jeg nú, til þess að minna þá á, hvernig þeir stóðu þá, og gefa þeim tækifæri til þess að útskýra þann æðri skilning, sem þeir virðast sumir a. m. k. hafa fengið síðan, nefna nöfn þeirra úr Íhaldsflokknum, sem þá greiddu tóbakseinkasölunni atkvæði, en það eru hv. 3. landsk. (HSn), hv. þm. Snæf. (HSteins), hv. þm. Seyðf. (JóhJóh). Ennfremur aðrir þrír, sem ekki eiga hjer sæti nú, þeir Sigurður Kvaran, Guðjón Guðlaugsson og Guðmundur Björnson. Á móti voru þáverandi þm. Vestm., Karl Einarsson, hv. 1. landsk. (SE) og núverandi hv. 2. þm. G.-K. (BK). Það er sem sje alveg ljóst, að allur Íhaldsflokkurinn, eða höfuðuppistaða hans, var þá málinu fylgjandi. Ennfremur skal jeg taka það fram, að hjer í deildinni voru allir Framsóknarflokksmenn með frv., og hefi jeg ekki orðið var við það, að þeir hafi fundið neina ástæðu til þess að skifta um skoðun síðan. Jeg verð nú að gera ráð fyrir því, vegna meðferðar málsins hjer í Ed. 1921, sem jeg hefi nú lýst, þá hljóti þetta frv. að verða felt nú við þessa 1. umr., þar sem jeg veit ekki annað en að við Framsóknarflokksmenn sjeum allir á móti því, og auk þess eru hjer allmargir úr Íhaldsflokknum, sem fylgdu lögunum frá 1921 og engin ástæða er til að ætla að hafi snúist, þar sem það er viðurkent, að einkasalan hafi gefið auk heldur meira fje í ríkissjóð en flm. málsins gerðu þá ráð fyrir. Jeg þykist líka vita, að hæstv. landsstjórn stilli svo til, að ekki verði lengdar mjög umr. um þetta frv., sem hlýtur að falla, ef ekki á að snúa ofan af allmiklum hluta Íhaldsflokksins. Jeg vil benda hv. þm. Vestm. (JJós), sem kallaði það snúning hjá mjer nýlega, að jeg óskaði eftir skýringum í máli, — jeg vil benda honum á það að hafa vakandi auga á því, ef flokksmenn hans greiða nú atkv. þvert ofan í það, sem þeir gerðu 1921. Það væri verklegur snúningur, en jeg ætla nú ekki að gera ráð fyrir öðru eins. En þó finst mjer það benda á vonda samvisku, að hv. þdm. eru óvenjuókyrrir í sætum sínum, eins og þá langi burt frá umr. En kannske ber það þó vott um uppbyggilegar tilfinningar, ef snúningur er af þeim heimtaður.

Einkasalan var sem sagt samþykt á þingi 1921, og árangurinn hefir orðið sá, að spádómur hv. flm. hefir ræst berlega. Undir eins á öðru ári var búið að ná áætlun, og var þó þá hörmungarár. Og á 3. ári komust tekjurnar langt upp fyrir áætlun, og nú á 4. ári einkasölunnar virðist sýnilegt, að gróðinn muni verða helmingi meiri en gert var ráð fyrir 1921. Þrátt fyrir þetta hefir verslunin liðið fyrir óvenjulegar ytri kringumstæður. Þannig byrjaði ísl. krónan að falla skömmu eftir að versl. byrjaði, og hlaut það að verða henni til stórtjóns. Því hvað sem hæstv. fjrh. (JÞ) kann að segja um það, hversu mjúklega sjúkdómurinn byrjaði, þá má gera mun á reikningslegu lággengi og byrjun sjúkdómsins, meðan það var ekki sýnilegt leikmönnum, hvert stefndi. 1922 reyndist verslunarágóði ríkissjóðs 50 þús. kr. minni en fjárlögin gerðu þá ráð fyrir. Það var ekkert undarlegt, eins og tímunum var háttað, enda margbætt upp með hinum óvenjulega gróða síðustu missira. Kaupmenn hrúguðu inn tóbaki um það leyti, sem kreppan var að byrja. Sumt keypti landsverslun, en mest seldu kaupmenn sjálfir. Landssjóður fjekk tollinn af þessu tóbaki, en gróðinn af versluninni fór í aðra vasa. Yfirleitt veldur það miklum óþægindum að hringla aftur og fram með fyrirtæki eins og tóbaksverslunina, því verði hún lögð niður nú, þá er hjer um bil víst, að hún verður sett upp aftur eftir 2—3 ár. En það er sjáanlega til mikils skaða fyrir landið að þurfa að byrja af nýju, því í millitíð er víst, að kaupmenn munu hrúga inn geysimiklum tóbaksbirgðum, og tapaði landið á þann hátt stórfje, sem flm. laganna ætlaðist upphaflega til að gengi í ríkissjóð. Einmitt þetta hringl hefir það í för með sjer, að kastað er burtu miklu fje, sem mundi nægja til þess að leggja langa vegi og byggja dýrar brýr, ef þingið vildi það heldur en að láta það renna í vasa nokkurra heildsala, sem róa munu undir þessu frv. Reynslan hefir sýnt það, að þjóðin sættir sig vel við einkasöluna, að frátöldum fáeinum mönnum, sem áður ráku tóbaksverslun og hafa orðið fyrir talsverðu tapi. Það hafa flm. frv. 1921 líka sjeð fyrir. Þá var t. d. hjer í bænum eitt firma, sem álitið var að hefði haft ca. 40 þús. kr. tekjur af því að hafa umboðsverslun með eina tegund af tóbaki aðallega. Þetta er mikið fje, og maður skilur það, að þeir menn, sem svona stendur á fyrir, vilji heldur fá þetta fje í sinn vasa en að landið njóti þess. Slíkt er aðeins mannlegt, þó þeir vilji ná aftur í þennan gróða. En hinsvegar er ekki hægt að ásaka þingið, þó það líti fremur á hagsmuni almennings en gróða þessara manna. Jeg játa það, að jeg er samdóma flm. einkasölufrv. um það, að hagsmunir einstaklinga eru svo litlir í þessu efni, að ekki er á þá lítandi.

Sem sagt, einkasalan gekk vel. Og nú kem jeg að einu atriði, sem 1921 var notað sem rök á móti einkasölunni, sem sje það, að rekstur hennar mundi verða í ólagi. Það gæti farið svo, að illa hæfur maður yrði látinn hafa forstöðu hennar með höndum. Um þetta urðu talsverðar umr. í báðum deildum. Flm. sagði, að ef landið yrði svo óheppið að ráða slæman mann í fyrstu, þá yrði að reka hann. Nú vill svo einkennilega til, að við umr. um þetta mál, bæði nú og í fyrra, hefir enginn haldið því fram, a. m. k. ekki sem alvarlegum rökum, að forstaða landsverslunar hafi gefið illa raun. Þvert á móti. Jeg hygg, að ekki muni vera til nokkur maður í þjónustu ríkisins, sem sje minna tortrygður fyrir meðferð sína á opinberu fje en forstjóri landsverslunarinnar. Og þegar þess er gætt, að landsverslunin hefir verið bitbein milli tannanna á blöðum, sem gefin eru út af hring verslunarmanna, og aldrei hafa sjest í nokkru blaði aðdróttanir um það, að forstaðan væri óheiðarleg. Jeg held því, að þar sem flm. tóbakseinkasölunnar var svo heppinn að fá til hennar slíkan forstöðumann, þá sje þar með hrundið alvarlegustu röksemdinni, sem færð var fram móti einkasölunni 1921. Því að það var talsverð röksemd í því, sem hv. 1. landsk. (SE) hjelt þá fram, að slíkt gæti verið hættulegt fyrir ríkið. Höfuðhættan bæði fyrir þingið og stjórn landsins yfirleitt er auðvitað sú, að óheppilegir menn hafi afgreiðslu málanna með höndum. Og jeg veit, að allmikill hópur þingmanna í hv. Nd. hefir nú sannað þessa kenningu hv. 1. landsk. (SE) frá 1921, að því er til þessa máls kemur nú því þeir hafa með atkvæði sínu kastað í vasa fáeinna einstaklinga hinum mikla gróða af þessari verslun. Slíkt er dæmi illrar ráðsmensku þeirra manna, sem hafa fjárráð almennings með hendi.

Jeg hefi áður minst á það, að 1921 klauf þessi deild einkasölufrv. það. sem þáverandi fjrh. bar fram, þar sem lagt var til, að víneinkasalan væri sameinuð lyfjaversluninni. Nú skyldi maður ætla, þar sem orðið hefir stórkostleg sjóðþurð í þeirri stofnun, að eitthvað yrði breytt til um hana. Þarna hafa tapast 20—30 þús. kr., og þrátt fyrir rannsókn hefir ekkert hafst upp um það, hvernig þessu sje varið. Ríkið hefir bara orðið þessum þúsundum fátækara. Hjer er engu breytt. Forstjórinn situr kyr, eins og ekkert hafi í skorist, þó hann beri ábyrgð á þessu óhappi siðferðilega. Þessi maður hefir tvöföld ráðherralaun, óátalið, og það er ekki minst á það af þessum berserkjum frjálsrar verslunar að leggja niður víneinkasöluna, og enn síður að laga hana, þrátt fyrir þessa ófyrirgefanlegu misfellu og margskonar sleifarlag. Það er fullkomlega vítavert, bæði af hæstv. forsrh. (JM) og ekki síður hæstv. fjrh. (JÞ), að hjer skuli ekki vera kipt í taumana og skift um forstöðumann, er hann hefir reynst óheppilegur fyrir stofnunina. Það stingur nokkuð í stúf við þessa herferð gegn tóbakseinkasölunni, þar sem þó ekki liggur fyrir svo mikið sem athugasemd frá endurskoðunarmönnum ríkisins, er sýni hina minstu misfellu. Og til þess að mönnum geti verið ljósara, hvað mikið er varið í þessi þögulu meðmæli, vil jeg minna menn á, að þessi endurskoðun er framkvæmd af öðrum eins reikningsmönnum og dr. Ólafi Dan. Daníelssyni og Gísla Ísleifssyni skrifstofustjóra í stjórnarráðinu. Það er því ekki aðeins að útreikningar hæstv. atvrh. (MG) hafi staðist, heldur hefir uggur hv. 1. landsk. (SE) reynst marklaus. Draumur flm. hefir meir en ræst hvað snertir verslunarhagnaðinn. En hræðsla hv. 1. landsk. (SE) hefir fullkomlega orðið sjer til minkunar. Þvert á móti hefir forstaðan við einkasöluna reynst svo góð, að hinir aðgætnustu endurskoðendur hafa ekkert haft við reksturinn að athuga, sem nokkru máli skifti, og harðsnúnir mótstöðumenn hafa ekki treyst sjer til að kasta á hana steini. En á sama tíma bíður hin deild ríkisverslunarinnar þau álitsspell, sem telja má alveg óviðunandi. Og það ber vott um frábært hirðuleysi stjórnarinnar að láta það viðgangast, að leggja fyrst niður þá ríkisverslunina, sem rekin er á heilbrigðum grundvelli, en reyna auk heldur ekki til þess að endurbæta hina stofnunina, þar sem stjórnleysið og óreglan hefir verið á svo háu stigi, að hlaut að varða frávikning forstöðumannsins; því þó að hann hafi ekki verið valdur að sjálfu tapinu eða verið beint við það riðinn, þá er það að vera óheppinn í þessum efnum venjulega það sama og gera rangt. Má því til sönnunar benda á hið fræga dæmi frá Norðmönnum, er einn fylgismesti stjórnmálamaður þeirra, Berge, tapaði öllu þinginu þegar það komst upp, að hann hafði lánað fje til banka, sem ekki gat borgað. Og ekki aðeins að Berge glataði áliti sínu, heldur beið flokkur hans þann hnekki, að ekki þótti viðlit, að hann hjeldi áfram að fara með völdin, þótt hann væri stærsti flokkurinn í þinginu. Þannig er litið á slíka hluti þar, sem stjórnmál eru með meiri þroska en hjer. Jeg fæ ekki betur sjeð en að ef frv. þetta nær fram að ganga, þá beri það vott, vægast sagt, um pólitíska spillingu, þegar á að kasta frá ríkinu tekjum, sem nema hundruðum þús. kr., til þess eins, að fáeinir borgarar í landinu, sem annars hafa góða atvinnu, geti grætt meira. Og til þess að koma þessu fram verður partur af þeim núverandi stjórnarflokki þess valdandi, að meiri hluti Íhaldsflokksins er þvingaður til þess að skifta um skoðun í málinu frá því, sem var fyrir nálega 4 árum. Og það sorglega atvik kemur fyrir, að einn úr hæstv. stjórn lýsir því yfir, að sjer hafi að vísu engar vonir brugðist í sambandi við einkasöluna, heldur hafi hún miklu fremur reynst öllum vonum betur. En þó lætur hann fyrirtækið falla. Hann situr hjá atkvgr. og borgar líklega dagsektir samkvæmt þingsköpum. Það er ótrúlegt, að nokkur maður skuli láta bjóða sjer slíkt. Það er kúgun, sem aldrei hefir átt sinn líka hjer á Alþingi. Það að greiða ekki atkv., var hjer sama og að greiða atkvæði á móti einkasölunni. En hitt, að greiða atkvæði eins og hv. 1. þm. Skagf. og flm. einkasölunnar (MG) vildi, samkvæmt sannfæringu og betri vitund, það var að tryggja landinu gróða og fella þetta frv.

Jeg býst við því, að ef svo fer, sem jeg vil ekki gera ráð fyrir, að fylgismenn stjórnarinnar hjer í þessari deild fylgja skoðanabræðrum sínum í hv. Nd. og kasta burtu tóbakseinkasölunni, þá sje það eitthvert það stærsta hneykslismál og alvarlegasta, sem gerst hefir á þessu landi. Það er búið að deila um það hjer í báðum deildum, hvort landið eigi að geta lokið við byggingu yfir geðveika menn, þar sem grunnurinn hefir beðið mörg ár fullgerður, en framkvæmdin strandað á því, að ríkið hefði ráð á 100 þús. kr. til þess að koma verkinu af. Þetta hefir ekki verið gert. Og nú á að kasta burtu tekjustofni, sem áætlað er að gefi 200 þús. kr. í meðalári og í góðu ári miklu meira — þessu á nú að kasta í vasa fárra manna. Það hefir líka lengi legið fyrir þinginu teikning og áætlun um landsspítala og verið talað fagurt um nauðsynlega framkvæmd þess máls, bæði af hv. 6. landsk. (IHB) og hæstv. forseta (HSteins). Sá hluti, sem áætlað er, að ríkissjóður leggi fram til þeirrar byggingar, er nokkuð yfir ½ miljón króna, að frátöldu gjafafje kvenna, sem vex árlega. Það lítur út fyrir, að þessu máli yrði hrundið í framkvæmd á næstu árum, ef landið legði fram l—2 ára gróða sinn af tóbakseinkasölunni. En vegna fjeleysis er nú gert ráð fyrir, að það taki 5—6 ár. Og ef til vill fer hjer eins og á Kleppi. Þegar svo í þokkabót er búið að kasta burtu mestöllum tekjuskattinum, sem líklega verður gert nú, þá fer að verða þröngt fyrir dyrum um þessar framkvæmdir. Jeg hefi hjer nefnt þessa tvo spítala. En það er margt fleira, sem ekki er hægt að framkvæma vegna fjeleysis. T. d. eru öll stórhjeruð landsins slitin sundur af veglausum heiðum og óbrúuðum ám, svo ekki er vagnfært á milli þeirra. Og eins og hæstv. atvrh. (MG) tók fram fyrir 4 árum síðan, er hann flutti hjer frv. um einkasölu á tóbaki, þá hljóta skattarnir að verða hjer

einlægt tiltölulega þungur, vegna þess, hve þjóðin er fámenn en landið stórt. Við getum ekki lagt akveg yfir Holtavörðuheiði milli Húnavatnssýslu og Skagafjarðar, milli Skagafjarðar og Eyjafjarðar o. s. frv., vegna fjeleysis blátt áfram fyrir utan það, að enn eru margar ár óbrúaðar af sömu ástæðum. Það er þá nokkuð hastarlegt, þegar stofnað er til þess af stærsta flokknum hjer í þinginu að kasta burtu úr ríkissjóði fje, sem gæti nægt til þess að byggja árlega 2—3 brýr eins og brúna á Eyjafjarðará, sem er ein stærsta brú landsins. Það er ekki óviðeigandi við þessa umræðu að vekja athygli hv. þdm. á því að þegar nú fjárlögin koma hjer til 2. umr. á morgun og við þessir sömu menn förum að skera niður ýmsar smáupphæðir, en höfum í dag kastað burtu úr ríkissjóði hundruðum þúsunda króna, þá fer samræmið í fjármálaráðsmensku þingsins að verða dálítið skrítið.

Þeg hefi þá farið yfir sögu málsins síðan einkasalan var stofnuð og sýnt fram á, að hæstv. atvrh. (MG) stofnaði hana til þess að afla landssjóði tekna. Áætlun hans hefir staðist enda var einkasalan svo heppin að fá fyrir forstjóra góðan mann og hefir enginn tortrygt heiðarleik hans af þeim, sem eru á móti einkasölu. Samhliða þessu hefir verð á þessari vörutegund ekki hækkað, þrátt fyrir verðfall íslensku krónunnar, og eins og sannaðist við 3. umr. í Nd., þá er tóbak yfirleitt ódýrara hjer heldur en í útlöndum. Þar hefir tóbak ekkert lækkað síðan 1921. Að landsverslunin hefir gefið vaxandi arð án þess að hækka verð á tóbaki, sýnir það að fyrirtækið gengur vel, bæði inn á við og út á við.

Það vill nú svo illa til fyrir hæstv. forsrh. (JM) að hann studdi að því 1921, að þessi einkasala komst á. Sjálfur bar hann fram frv. um einkasölu á lyfjum og einn af nánustu vinum hans bar fram frv. um einkasölu á korni. Og svo var það hæstv. atvinnumálaráðh. (MG) sem kom þessari einkasölu á. Annaðhvort hefir nú hæstv. forsrh. (JM) og þeir sem vilja drepa tóbakseinkasöluna, öðlast nýtt ljós þekkingar, eða þá að þeir eru í fullu ósamræmi við sjálfa sig. Og jeg vildi þá óska. að þeir gæfu okkur hinum einhvern glampa af þessu ljósi líka svo að okkur gefist tækifæri til að snúast ef í því er fólgin hin sanna sáluhjálp. En ef ekkert hefir komið fram, sem máli skiftir, á þessum 4 árum annað en það, að fyrirtækið hefir gengið vel, þá sjest af því, að þeir, sem greiddu málinu atkvæði 1921, en eru nú á móti því eru undir annarlegum áhrifum, og má búast við, að þeir skýri frá, hvort þau eru þess eðlis, að þingið verði að taka tillit til þeirra. En þótt það sjeu 4—5 tóbakskaupmenn hjer í bænum, sem vilja afnema einkasöluna, fæ jeg ekki sjeð, að það sje frambærileg ástæða til þess að gera landssjóði svo mikið mein.