28.04.1925
Efri deild: 62. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 3045 í B-deild Alþingistíðinda. (1895)

50. mál, tollalög

Jóhann Jósefsson:

Jeg hafði ekki búist við, að svona miklar umræður yrðu um þetta mál við 1. umr. En af því búið er að segja svo margt af vinum einkasölunnar, get jeg ekki varist að láta uppi mína skoðun. Það er alkunna, að nú eru uppi tvær stefnur í verslunarmálum, ríkisrekstur og einkarekstur. Og það er barátta þessara tveggja stefna, sem kemur fram í þessu máli.

Í ófriðnum mikla var ríkið til þess knúið að ráðast í margt. Það ástand gaf fylgjendum ríkisverslunar byr í seglin.

Tóbakseinkasalan er upphaflega stofnuð með tekjuauka ríkissjóðs fyrir augum. Síðan hafa „princip“skoðanir blandast inn í það mál. Nú er um það deilt, hvort ríkið tapi á því að gefa þessa grein verslunar frjálsa á ný. Þetta er orðið stefnumál í stjórnmálum, að minsta kosti hjá mörgum.

Hv. 5. landsk. þm. (JJ) sagði, að á bak við orð frv. lægi undirróður þeirra manna, sem versluðu með tóbak. Þetta er varla rjett. Frv. er komið fram af því, að mikill hluti þjóðarinnar er því mótfallinn, að ríkið afli sjer tekna með því að reka verslun.

Af því minst var á frjálsa verslun, þá held jeg, að það hafi verið misskilningur hjá hv. þm. (JJ), að frjáls verslun í því sambandi, er hjer um ræðir, væri sama og enska hugtakið „free trade“. Það, sem átt er við, er það, að það sje frjálst þeim borgurum, sem rjett hafa til þess að versla, að gera það án þeirrar íhlutunar ríkisins, að verslunarbann sje lagt á einstaklinga. Og að því er tóbakið snertir virðist engin ástæða til þess að ganga á þennan rjett borgaranna. Það er engin hætta fyrir þjóðina, þó verslunin með tóbak sje gefin laus, sje sú skoðun rjett. sem fram hefir komið, að ríkissjóði sjeu með þessu frv. trygðar eins miklar tekjur eins og ágóðanum af tóbakseinkasölunni nemur. Þá er deilt um, hvort tóbakið muni hækka. Fleiri eru þeirrar skoðunar, að það hækki ekki. Jeg get ekki fallist á, að það sje nein höfuðröksemd, hvort góður maður velst til forstöðu slíku fyrirtæki sem þessu eða ekki. Það er að vísu nauðsynlegt, en haggar ekki grundvelli þessa máls. Það, sem aðallega kemur hjer til greina, er þetta, hvort ríkið á að blanda sjer inn í verslun, sem verslunarstjett landsins er vel fært að reka. Fyrir skömmu var hjer til umr. frv. um verslunaratvinnu. Þá var á það minst af mörgum, að verslunarstjettin væri of fjölmenn í samanburði við vörumagnið og stærð þjóðarinnar. Ef svo er, sýnist ennþá minni ástæða til þess að taka af verslunarstjettinni þær vörur, sem hún vel getur ráðið við. En vitanlegt er, að við landsverslun hafa mestmegnis starfað menn, sem ekki hafa áður fengist við verslun. Svo virðist sem 1. umr. þessa máls hefði ekki þurft að verða mjög löng. Málið á eftir að fara til nefndar, og þar verða fjárhagsatriðin væntanlega krufin til mergjar. Jeg vil benda á, að hjer ræður mestu sá stefnumunur hvort menn vilja, að ríkið versli með sem flestar vörutegundir eða aðeins það, sem óhjákvæmilegt virðist.

Hæstv. fjrh. (JÞ) hefir lýst yfir því, að í sínum augum væri þetta ekki mikið fjárhagsatriði, tekjumunur mundi ekki verða mikill, hvort heldur haldið væri einkasölufyrirkomulaginu eða verslunin gefin frjáls og tollur aukinn. Hv. þm. A.-Húnv. (GÓ) sagðist ekki sjá neitt athugavert við það, þó ríkið hefði tekjur af óþarfavöru. Það er rjett. En ríkið fær einmitt tekjurnar með tollum, sem lagðir eru á þessar vörur. Með einkasölufyrirkomulaginu er, að því er tóbaksverslunina snertir, verið að grípa inn í verkahring manna, sem hafa haft þessa verslun áður og geta rekið hana framvegis, ríkinu algerlega að skaðlausu.