28.04.1925
Efri deild: 62. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 3049 í B-deild Alþingistíðinda. (1897)

50. mál, tollalög

Ingvar Pálmason:

Jeg kvaddi mjer hljóðs vegna ummæla hv. þm. Vestm. (JJós), en hv. 1. þm. Eyf. (EÁ) tók að mestu af mjer ómakið. Jeg vil geta þess, að mjer þykir það ekki rjett framkoma og lítið drengileg að geyma sjer að tala, uns aðalmótstöðumaðurinn er „dauður“. En það gerði hv. þm. Vestm. (JJós), og bendir það á miður góðan málstað. Jeg get farið fljótt yfir. Hv. þm. (JJós) gerði mikið úr því, að hjer væri um stefnumál að ræða, annarsvegar frjáls verslun, hinsvegar ófrjáls. Það má vera, að þetta sje stefnumál fyrir hv. þm. Vestm. (JJós), en jeg fullyrði, að svo er ekki um alla þm. Jeg skal ekki fara út í að skýra hugtökin frjáls verslun og ófrjáls, en í raun og veru lít jeg svo á, að hjer sje ekki til frjáls verslun lengur. Þegar búið er að tolla allar vörur og hver, sem vill versla, verður að sækja um leyfi til þess og borga gjald fyrir, þá er verslunin ekki lengur frjáls. Hitt er annað mál, að hve miklu leyti hún á að vera frjáls. Jeg tel hana ekki ófrjálsari fyrir það, þó að ríkið annist innkaup á nokkrum vörutegundum. Það virðist vera ríkjandi stefna hjer, að tekjur ríkisins eigi að fá gegnum verslun. Ef þetta er rjett, þá er spurning, hvort rjettara sje að fara tollaleiðina eða taka sumt af versluninni í ríkisins hendur, en ljetta þá af einhverjum tollum. Eins og málið liggur fyrir, finst mjer, að það hljóti að vera fjárhagsatriðið, sem verður að ráða, þó að málið kunni að vera stefnumál hjá einstökum þingmönnum.

Eftir því sem jeg hefi kynt mjer málið, get jeg ekki annað sjeð en að tóbakið hljóti að verða neytendum dýrara með þessu svokallaða frjálsa fyrirkomulagi og tollhækkun þeirri, sem ráðgerð er.

Jeg geri ráð fyrir, að búið sje að gera málinu þá skó, sem halda muni út úr þinginu. En það er spurning, hve haldgóðir þeir verða í framtíðinni. Með eftirtekt mun þessu máli verða fylgt. Jeg hygg, að reynslan muni sanna, að annaðhvort missir ríkissjóður tekjur eða neytendur borga vöruna hærra verði.

Jeg sje svo ekki ástæðu til þess að fara frekar út í málið, en mun hiklaust greiða því mótatkvæði. Jeg tek undir með hv. 1. þm. Eyf. (EÁ) og tel þetta vont mál. Framtíðin mun kveða upp dóm yfir þeim, sem um það fjalla nú. Jeg kýs að sæta þeim dómi, sem upp verður kveðinn yfir mótstöðumönnum málsins, eins og það nú er borið fram.