29.04.1925
Efri deild: 63. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 889 í B-deild Alþingistíðinda. (190)

1. mál, fjárlög 1926

Ingibjörg H. Bjarnason:

Það er nú nokkuð áliðið kvöldsins, enda skal jeg ekki lengja umr. mikið. Jeg er líka svo heppin að eiga enga brtt. að þessu sinni. aðrar en þær, sem nefndin hefir komið sjer saman um að bera fram.

En þó langar mig að minnast lítilsháttar á mál, sem jeg hefi raunar oft hreyft áður, en að þessu sinni er það í sambandi við 7. brtt. nefndarinnar á þskj. 392, og á jeg þar við bygging landsspítalans.

Fyrir rás viðburðanna get jeg verið stuttorð að þessu sinni. Hv. Nd. samþykti við 3. umr. fjárlagafrv. 100 þús. kr. fjárveitingu til byggingar landsspítalans, og er jeg henni þakklát fyrir það. En sú fjárveiting var ekki bygð á þeim rjetta og endanlega grundvelli þessa máls, sem heldur ekki var von, því nú nýlega hafa samningar tekist milli hæstv. ríkisstjórnar og stjórnar landsspítalasjóðsins um byggingu spítalans, eins og hv. frsm. (JóhJóh) mintist á í dag. En vegna þess, að jeg tel æskilegt, að samningurinn komi í heild sinni fyrir almenningssjónir í Alþingistíðindunum, þá mun jeg taka hann upp í ræðu þessa. Samningurinn hljóðar svo:

„Samkvæmt heimild 1. gr. laga nr. 74, 28. nóv. 1919, um húsagerð ríkisins, hefir ríkisstjórnin gert svofeldan samning við stjórn Landsspítalasjóðs Íslands:

Af fje því, er Landsspítalasjóðnum þegar hefir áskotnast, og safnað kann að verða meðan á byggingu Landsspítalans stendur, og áætlað er að nema muni að minsta kosti 300000 kr., lofar stjórn Landsspítalasjóðsins að leggja fram þ. á. alt að 75000 kr., og á næsta ári, 1926, 100000 kr., en síðan það, sem eftir verður þá af fje sjóðsins, á þann hátt, sem síðar segir.

Hið fyrsta framlag Landsspítalasjóðsins — alt að 75000 kr. — skal greitt eigi síðar en um áramót 1925–'26. Árið 1926 fer greiðslan fram þannig: fyrsti þriðjungur framlagsins á tímabilinu 1. jan. til 30. apríl, annar á tímabilinu 1. maí til 30. ágúst og hinn þriðji á tímabilinu frá 1. sept. til 31. des. Síðari greiðslur af hálfu Landsspítalasjóðsins eftir samkomulagi. Alt fje sjóðsins skal talin gjöf til Landsspítalans frá íslenskum konum, er formlega verður afhent af sjóðsstjórninni samkv. 5. gr. skipulagsskrár Landsspítalasjóðs Íslands 19. júní 1916 (staðfest 24. nóv. s. á.). er spítalinn verður reistur.

Af hálfu gefendanna eru þessi skilyrði sett:

1. Ríkisstjórnin lætur á þessu ári byrja á undirbúningi og byggingu Landsspítalans samkvæmt þeirri teikningu, er húsameistari ríkisins hefir gert af byggingunni og um ræðir í brjefi hans til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, dags. 12. febr. 1925, með þeim breytingum, er ríkisstjórnin telur nauðsynlegar eða heppilegar. Það skal tekið fram sjerstaklega, að hæfilega stórri fæðingadeild skal komið fyrir í spítalanum og hún starfrækt frá þeim tíma, er spítalinn verður tekinn til notkunar. Gert er ráð fyrir, að fulltrúi sjóðsstjórnarinnar verði hafður í ráðum um þær breytingar, sem gerðar kunna að verða á teikningu húsameistara og um fyrirkomulag spítalans.

2. Um fjárframlög til spítalabyggingarinnar eru þessi skilyrði sett:

a. Gegn framlagi spítalasjóðsins þ. á., alt að 75000 kr., er ekki krafist neinnar greiðslu úr ríkissjóði.

b). Árið 1926 skal varið til byggingarinnar úr ríkissjóði að minsta kosti svo miklu fje, að jafngildi framlagi sjóðsins, eða 100000 kr., þannig, að varið verði til byggingarinnar það ár ekki minna en 200000 kr. alls.

Þyki það hentugt, að varið sje meiru til byggingarinnar það ár en 200000 kr., og örðugleikar á því að greiða meira úr ríkissjóði en 100000 kr., gerir sjóðsstjórnin þess kost að bæta við úr Landsspítalasjóðnum alt að 50000 kr., eða leggja þá fram alt að 150000 kr. alls.

c. Síðan skal byggingunni hraðað svo sem frekast er unt, þar til henni er lokið, og skal hvert ár greiða til framhalds verksins að minsta kosti 200000 kr. Fje það, sem til þess þarf, skal greitt úr ríkissjóði, að frádregnu framlagi Landsspítalasjóðsins, er sjóðsstjórnin lofar að greiða til verksins að jöfnu við ríkissjóð. meðan fje Landsspítalasjóðsins endist. Til þessa telst ekki Minningargjafasjóður Landsspítalans.

d. Bygging Landsspítalans skal lokið og útbúningi hans svo fljótt, að hann verði tekinn til afnota árið 1930.

Ríkisstjórnin samþykkir framanskráða ráðstöfun á fje Landsspítalasjóðsins, tekur umgetnu boði stjórnar hans og gengur að þeim skilyrðum, er sett eru af hálfu gefendanna.

Af samningi þessum eru gerð tvö samrit. Verður annað í vörslum ríkisstjórnarinnar, en hitt afhendist stjórn Landsspítalasjóðs Íslands.“

Eins og samningurinn ber með sjer, skal alt fje landsspítalasjóðsins teljast gjöf til landsspítalans frá ísl. konum, er formlega verður afhent af sjóðsstjórninni samkv. 5. gr. skipulagsskrár landsspítalasjóðs Íslands þegar landsspítalinn er fullgerður — Vjer konur þykjumst nú með þessu hafa gert það, sem í okkar valdi stóð, til þess að hrinda landsspítalamálinu í framkvæmd.

Eins og skýrt hefir verið frá, þá er samningur þessi nýundirskrifaður, og með honum er því slegið föstu, að byrjað verði á byggingunni í ár. Er þetta því mikið gleðiefni öllum þeim fjölda manna, er staðið hafa að þessu máli, og ekki þá síst mjer og öðrum þeim konum, er að því hafa starfað undanfarin ár, að landsspítali yrði reistur hjer í Reykjavík. Að ekki hefir tekist að byrja á byggingunni fyr, er meðfram að fjárhagsörðugleikum ríkissjóðs, og líka því, að fylgi við málið hefir ekki verið eins alment og vænta mátti. En það er jafnan óblandin gleði að sjá þó, að gott mál sigrar að lokum.

Jeg þykist ekki þurfa að skýra frá því, að landsspítalasjóðsstjórnin hefir jafnan gert sjer að skyldu að greiða fyrir því, að þetta stærsta áhugamál ísl. kvenna kæmist sem fyrst til framkvæmda. En það hefir líka verið áhugamál margra fleiri, bæði karla og kvenna um alt land, og mætti í því sambandi minna á erindi Læknafjelagsins í fyrra um að hraða þessu máli sem mest, og læknarnir vita, hvað þeir syngja í þessu efni: að hjer í höfuðstað hins íslenska ríkis er ekkert, sem jafnmikið vanhagar um eins og fullkomið nýtísku sjúkrahús. Alt hefir þetta orðið til þess að ýta undir málið og hrinda því áfram, en þó veldur mestu um, að málið siglir nú hraðbyri til sigurs, að sjóðsstjórnin hefir boðið fje fram til byggingarinnar, ekki þó að láni, eins og í fyrra, heldur er það full gjöf til spítalans, og þess vegna er það, eins og jeg tók fram áðan, að nú hefir því verið slegið föstu, að byggingin verði hafin í haust. Verður því ekki sagt, að við konur, sem beitt höfum okkur fyrir framkvæmd þessa máls, höfum unnið til ónýtis.

Eftir samningnum, sem jeg las upp, leggur ríkissjóður ekkert af mörkum til byggingarinnar á þessu ári. en á næsta ári, eða 1926, leggur ríkissjóður fram 100 þús. kr., gegn sömu upphæð úr landsspítalasjóði, og sömuleiðis 1927. Hefir þá spítalasjóðurinn lagt til 300 þús. kr., sem að vísu er ekki mikill hluti þess kostnaðar að reisa spítalann, en sýnir þó, að við konur látum ekki á okkur halla hvað getu okkar snertir, þegar um það er að ræða að styðja gott málefni. Við hefðum að vísu kosið, að mál þetta hefði komið fyr til framkvæmda og á annan veg, að ekki hefði þurft að slaka á klónni og taka lægri áætlunina; en um það er ekki að fást úr því sem komið er. Og þess vegna segi jeg nú, og mæli það fyrir munn allra þeirra kvenna, sem að máli þessu standa, að

alt sje gott þegar endirinn

allra bestur verður.

Það má segja, að byggingin sje nú hafin, og henni verður haldið áfram, uns henni verður lokið, en það er árið 1930, að landsspítalinn á að verða fullger og tekinn til starfa. Þetta eru aðalatriðin í samningi þeim, er jeg las upp og undirritaður er af ríkisstjórninni og okkur konum, sem erum í stjórn landsspítalasjóðsins. Og þó að okkur konunum finnist bygging spítalans dragast helsti lengi, þá verðum við að sætta okkur við það; við vitum, að ríkissjóður hefir í mörg horn að líta og að fjárhagur hans er þröngur, en hinu treyst um við líka, að landsspítalinn verði fullger til afnota árið 1930.

Jeg skal taka það fram, að þessi samningur er orðinn til og gerður af fúsum og frjálsum vilja sjóðsnefndar. Mjer þykir rjett að taka þetta fram, vegna þess, að jeg hefi heyrt utan að mjer — ekki þó hjer á þingi —, að við, sem spítalassjóðinn höfum haft undir höndum, hefðum verið neyddar til þess að gera þennan samning, er þau sund voru lokuð, er við hefðum ætlað að fara. En þetta er hinn mesti misskilningur. Samningurinn er gerður með yfirlögðu ráði og af fúsum vilja og skynsamlegu viti okkar; við viljum afhenda fjeð sem fyrst, til þess að byggingin verði hafin og að hið háa Alþingi sjái, hver alvara okkur sje í þessu máli. Það verður heldur ekki talin nein áhætta að afhenda fjeð nú þegar, enda álít jeg, að þessu samskotafje sje heppilegast varið á þann hátt að flýta framkvæmdunum. Við tókum það líka fram í öndverðu, í ávarpi því, er við birtum, er við hófum samskotin, að við vildum stuðla að því í orði og verki, að landsspítalinn mætti sem fyrst rísa af grunni, og það er í fullu samræmi við ávarpið, að samningurinn er nú gerður. Við vissum jafnan, að okkur mundi ofvaxið að safna svo miklu fje með samskotum eða á annan hátt, að við gætum einar staðið að byggingu spítalans.

Annars sje jeg ekki ástæðu til að orðlengja neitt frekar um þetta, en undirstrika það, sem jeg sagði áðan, að við sjóðsnefndarkonurnar vorum ekki knúðar til neins í þessu máli, og að jeg lít svo á, að þingið geti ekki og hafi ekki vald til að ákveða, að ríkissjóðsstyrkurinn skuli bundinn því skilyrði, að jafnmikið fáist úr spítalasjóði. Við einar, sem sjóðnum stjórnum, getum ákveðið, hvað mikið við greiðum, og það höfum við nú gert með samningnum. Mjer mundi aldrei hafa komið til hugar að fara í vasa eða vörslur neins manns, án samþykkis hans, en það ætlast hv. Nd. til, að ríkissjóður geri, með aths. þeirri, sem fylgir styrknum til landsspítalans. En nú hefir fjvn. þessarar hv. deildar lagt til að breyta aths., og vona jeg, að sú brtt. verði samþykt.

Að lokum vil jeg taka það fram, að jeg lít svo á, að málið sje komið á þann rekspöl, að það sje ekki nema tímaspursmál þangað til landsspítalinn rís af grunni. Og jeg fyrir mitt leyti er ánægð; það er stuttur tími, þessi fáu ár, sem við getum talið á fingrum okkar, þangað til við fáum þann nýtískuspítala, sem þörfin kallar á.

Háttv. frsm. (JóhJóh) tók það fram í dag, að samkvæmt samningnum verður minningagjafasjóði landsspítalans haldið sjerskildum, eins og hingað til, og kemur ekki til greina við byggingu spítalans. Sjóði þessum á að verja til þess að styrkja fátæka sjúklinga víðsvegar að af landinu, er sjúkravistar leita í landsspítalanum, og mun þess full þörf, að hann geti á meðan byggingin stendur yfir aukist og ávaxtast. Hann er nú um 80 þús. kr. og óx síðastliðið ár um 12 þús. kr.

Þá læt jeg máli mínu lokið um landsspítalann, en áður en jeg sest niður langar mig að minnast fáum orðum á tvær breytingartillögur.

Sú fyrri er 28. brtt. í röðinni á þskj. 392, frá fjvn., um aðstoð við þjóðminjasafnið.

Jeg hygg, að báðum fjvn. þingsins hafi borist erindi frá konum þeim, sem aðstoða við þjóðminjasafnið, þar sem þær skýra frá, að þetta ár sje veitt til starfans 1600 kr. í fjárlögum. Brtt. nefndarinnar fer fram á að hækka upphæðina um 800 kr., eða upp í 2400 kr., svo með henni koma þá 600 kr. í hlut þessara fjögra kvenna, og verður ekki sagt, að það geti minna verið, þegar þess er gætt, að þeim er gert að skyldu að vinna 6 stundir á viku og þar af 2 stundir sunnudagavinna alt árið. Áður var greitt dálítið meira fyrir þessa aðstoð en nú, og safnið þá opið 6 stundir á viku, en þegar styrkurinn var færður niður í 1000 kr., þá var starfstíminn líka færður niður í 4 stundir á viku. En það hefir valdið mikilli óánægju og margir óskað eftir, að safninn yrði haldið opnu að minsta kosti 6 stundir á viku eins og áður.

Jeg er líka sannfærð um, að það mun alstaðar mælast vel fyrir að hækka við þessar heiðurskonur, sem allar eru ekkjur og komnar til ára, og þó að upphæðin sje ekki stór, sem hver þeirra fær, þá munar þær þó dálítið um það, en ríkissjóður veit ekki af því, hvort hann greiðir 1000 kr. eða 2400 kr. á ári.

Í erindi því, er konur þessar sendu fjvn. deildanna, taka þær til samanburðar, hvað greitt er fyrir aðstoð við listasafn Einars Jónssonar, og þó að jeg ætli ekki að lasta það, þá er ólíku saman að jafna, hvað betur er greitt fyrir að halda listasafninu opnu en þjóðminjasafninu. Enginn má þó skilja orð mín svo, að jeg álíti, að of vel sje gert við listamanninn Einar Jónsson í þessu efni; heldur vildi jeg drepa á þetta til samanburðar, og af því að þær sjálfar — aðstoðarkonurnar við þjóðminjasafnið — vöktu athygli mína á því. Eins og hv. frsm. (JóhJóh) benti á, þá eru það frúrnar Theodóra Thoroddsen, Sigríður Jensson, Kristín Sveinbjarnardóttir og Bríet Bjarnhjeðinsdóttir, sem aðstoð veita við þjóðminjasafnið, og nöfnin ein ættu að nægja til þess, að þeim yrði veitt þessi sanngjarna uppbót, því ekki er hægt að segja, að það sje mikið, þó að jafnþjóðkunnar konur og merkar fái 2 kr. um tímann fyrir starf sitt. Vona jeg, að enginn hv. þdm. greiði atkv. móti jafnsjálfsagðri brtt. og þessi er.

Hin brtt., sem jeg vildi aðeins minnast á, er á þskj. 400 og sú VI. í röðinni, um lítilsháttar styrk til Listvinafjelagsins til þess að kaupa listaverk eftir unga og fátæka listakonu, ungfrú Nínu Sæmundsson, er nú dvelur í París. Það er nú búið að tala svo vel fyrir þessari brtt., að eiginlega þarf jeg engu við að bæta. Og þó að jeg þekki ef til vill betur sögu þessarar ungu listakonu heldur en flestir aðrir, sem sæti eiga hjer í hv. deild, þá ætla jeg þó ekki að rekja hana að þessu sinni; aðeins get jeg bætt því við, að ungfrú Nína Sæmundsson hefir hvarvetna hlotið hið mesta lof og hefir nú náð þeirri viðurkenningu á listamannsbrautinni, að fáum eða engum Íslendingum hefir hlotnast jafnmikill heiður. Þess vegna ætti það að vera metnaður hins háa Alþingis að leggja lítið eitt af mörkum til þess að landið geti eignast þetta listaverk, sem aukið hefir svo mjög hróður hinnar ungu og fátæku listakonu. Jeg reyndi að fá fjvn. til þess að taka upp í brtt. sínar fjárhæð í þessu skyni, en fjekk því ekki framgengt. Þess vegna er mjer það óblandið gleðiefni, að þessi brtt. skuli vera fram komin, og treysti hv. þdm. til þess að samþykkja hana.

Jeg geri ekki ráð fyrir, að jeg þurfi að tala meira fyrir þessari fjárveitingu; það hafa aðrir gert það svo prýðilega.

Umr. frestað.

Á 64. fundi í Ed., fimtudaginn 30. apríl, var framhaldið 2. umr. um frv. (A. 323, n. 374 og 395, 392, 400, 408).