07.05.1925
Efri deild: 70. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 3080 í B-deild Alþingistíðinda. (1904)

50. mál, tollalög

Frsm. meiri hl. (Jóhann Jósefsson):

Hv. frsm. minni hl. (JJ) hefir nú haldið langa ræðu til að verja einokun ríkisins á tóbaksversluninni. Hann heldur því fram, að það sje uppnefni að viðhafa orðið einokun um þennan verslunarrekstur ríkisins. Hann veit þó vel, að víða er erlendis er orðið „statsmonopol“ notað um þetta sama og er ríkiseinokun rjett íslensk þýðing á því orði; það er því rjettnefni. Hitt er annað mál, að bæði hann og aðrir sem vilja síður gera þetta fyrirkomulag óvinsælt. Þeir vilja ekki láta nefna þetta ástand einokun, heldur einkasölu. Hv. þm. notaði sjálfur ýms nöfn í ræðu sinni, sem vel mættu teljast uppnefni. Hann talaði t. d. um mig sem undirmann ákveðins ráðherra. Jeg kannast alls ekki við. að neinn ráðherra sje yfirboðari minn í þeim skilningi, sem hv. 5. landsk. (JJ) lagði í það. Hv. þm. álítur auðsjáanlega. að allir menn þurfi að vera undirgefnir einhverja stjórn eða aga: t. d kaupfjelagastjórn eða eitthvað þessháttar Hv. 5. landsk. þóttu rök mín ill og erfið viðfangs, og því hjet hann á hv. 1. þm. Rang. (EP) sjer til liðveislu, en það er ófrjett enn, hvernig í þá liðsbón verður tekið. Þá talaði hv. þm. um það, að margir núverandi flokksmenn mínir hefðu á þinginu 1921 verið með í því að lögleiða einokunarverslun og spurði mig um, hvers vegna þeir hefðu nú skift um skoðun. Meiri hl. allshn. kom í nál. sínu með þá allsennilegu ágiskun, að þingið 1921 hefði líklega ætlað að afla ríkinu tekna með því að lögleiða einokun á tóbaki. Meðan ófriðurinn mikli stóð yfir, þóttu margar óvenjulegar ráðstafanir eðlilegar; t. d. er ríkið tók alla matvöruverslunina í sínar hendur o. fl. Þetta þótti öllum sjálfsagt þá og að svona ætti það að vera eins og þá stóð á. Árið 1921 var svo stutt liðið frá ófriðnum og afleiðingar hans voru miklu sýnilegri þá en nú. Þess vegna ætla jeg, að á þinginu 1921 hafi skoðanir allflestra þm. enn markast af því ástandi, sem var ríkjandi á ófriðarárunum. Þá voru menn orðnir svo vanir því, að ríkið gengi inn á ýms þau svið viðskifta-og atvinnulífsins, sem annars er ekki venja, að ríkið láti til sín taka. Jeg veit ekki, hvort hv. 5. landsk. (JJ) felst á þetta; en þetta er, mín skoðun um afstöðu margra hv. þm. 1921. Þrátt fyrir að þetta yrði samþykt á þinginu 1921, var þó mikill hluti þingsins þá alveg andvígur því, að farið væri inn á þessa braut. En að það varð, var mjög mikið að kenna afleiðingum ófriðarins mikla og þess ástands, sem þá ríkti hjer eins og víðast annarsstaðar.

Hv. 5. landsk. (JJ) greip til uppáhalds röksemdar sinnar, sem er orðin landsfræg, — þ. e. að andstæðingar hans viðurkenni alt með þögninni, sem þeir nenna ekki að eltast við eða reka aftur ofan í hann. Háttv. 5. landsk. taldi mig hafa viðurkent með þögninni skoðanir hans, er jeg talaði ekki um rekstrarkostnað landsverslunarinnar. Jeg drap nú að vísu nokkuð á, hvað leitt hefði verið í ljós með kostnaðinn við að afla ríkinu þeirra tekna, er einokunin, sem hv. 5. landsk. vill ómögulega nefna svo ljótu nafni, gefur af sjer. Annars fór jeg ekki neitt ítarlega út í þetta atriði, af því meðal annars, að jeg skoða það ekki neitt höfuðatriði í þessu máli, hvort rekstrarkostnaðurinn er meiri eða minni en upphaflega var við búist.

En úr því að háttv. þm. gerði þetta sjálfur, get jeg ekki gert við því, þó jeg baki honum vonbrigði, að lýsa því yfir, að rekstur landsverslunarinnar hefir að mínu áliti ekki verið ódýr. Rekstrarkostnaður landsverslunarinnar er talinn hafa verið árið 1924 um 92 þús. kr. Það getur verið, að á þeim slóðum þyki þetta óhjákvæmilegur kostnaður, enda þótt það liggi ekki í augum uppi, að svo mikill kostnaður þurfi að vera á verslunarrekstri með svo hreinlegar vörur. Mjer sýnist þetta ekki þurfa að kosta svo ákaflega mikið, sem raun ber vitni um að orðið hefir. Það, sem um er deilt, er það, hvort það eigi að vera einokun á þessum vörum framvegis eða ekki, en ekki um það, hvort rekstur einokunarverslunarinnar hefir orðið dýr eða ódýr þessi 3 ár, sem hún hefir staðið. Jeg sagði aldrei, að jeg væri óánægður með það, sem einokunin hefði gefið af sjer í ríkissjóð; jeg sagði ekkert um það. En jeg sagði hitt, að árin 1922 og 1923 hefðu verið lítilfjörleg að því leyti, og það er rjett. Og jeg held líka því fram, að ríkið geti alveg eins fengið þessar tekjur af tolli í stað þess að leggja sig eftir arði af verslun. Mjer þykir leitt, ef jeg hefi meitt tilfinningar háttv. 5. landsk. (JJ), er jeg mintist á góðærið 1924. Mjer fanst það liggja í ræðu hans, að jeg hefði gert lítið úr þeim þrautum og farsóttum, sem gengið hefðu yfir sum hjeruð landsins það ár; en mjer datt það alls ekki í hug. Jeg átti við þá miklu framleiðslu þessa árs, og að fólkið hefði, víðast hvar að minsta kosti, haft meiri peninga handa á milli en nokkru sinni áður, og í þeim skilningi var árið veltiár. En jeg skil það vel, að í átthögum hv. þm. áraði þá illa og gengu allskonar sóttir og veikindi þar um sveitir, og jeg get því vel skilið, að honum hafi sárnað, ef hann hefir haldið, að lítið væri úr þessu gert. En mjer hefir aldrei komið til hugar að gera lítið úr óáran þeirri, sem þessi veiki orsakaði í þeim hjeruðum eða annarsstaðar. En þegar talað er um sölu á tóbaki, vindlum og vindlingum, er óhætt að taka talsvert tillit til veltiáranar við sjávarsíðuna. En þó jeg sje ekki kunnugur Þingeyingum, ætla jeg þó, að lítið sje gert að kaupum á þessum vörum þar, og tel víst, að mest sje um þessa verslun í kaupstöðunum og í sjávarþorpum, en miklu minna keypt til sveita. Jeg varð dálítið hissa, þegar háttv. þm. (JJ) bar saman ríkiseinokun og áhættufyrirtæki eins og t. d. fiskverslun, sem ávalt hlýtur að vera áhættusamt fyrirtæki, og háttv. þm. hlýtur að vita, að þetta er alveg ósambærilegt; því að ef nokkur verslun ætti að vera áhættulaus, þá er það ríkiseinokun á tóbaki. Í sambandi við þetta komst háttv. þm. inn á útsvarsskyldu þessara fyrirtækja, og sagði hann það sitt álit og margra annara mætra manna, að slíkar stofnanir ættu ekki að greiða útsvar. Það er svo með hvert mál sem það er virt, en þó mælir ekki svo fátt með því gagnstæða. Setjum t. d. svo, að háttv. 5. landsk. (JJ) ræki verslun í Reykjavík með einhverja vöru, segjum tóbak. Reykjavíkurbær mundi eðlilega leggja útsvar á þessa verslun. Síðan væri lögleidd ríkiseinokun þessarar vörutegundar og hún lögð undir landsverslun, og hv. þm. yrði að leggja sína verslun niður. Reykjavíkurbær hefði þá mist þarna einn gjaldanda í bæjarsjóð, og það er alls ekki sanngjarnt, að bærinn eigi ekkert tilkall til þess að fá þessar tekjur, þó að ríkið reki verslunina, en ekki einstaklingar. Háttv. þm. (JJ) talaði eitthvað um tóbakskaupmenn, sem nú biðu eftir því, að verslunin yrði gefin frjáls, albúnir þess að steypa sjer sem gammar yfir markaðinn. Jeg hefi ekkert við það að athuga, þó að þeir reki framvegis tóbaksverslun, sem höfðu þá atvinnu áður en einokunin komst á, því ætla má, að þeir hafi góða þekking til að bera á þeim vörum, og ættu þeir því ekki að vera ófærari en aðrir til að fást við þessa atvinnu. En mjer fanst á ræðu háttv. 5. landsk., að honum þykja þetta heldur verra. Jeg tel það kost á versluninni, að vanir menn fáist við hana, og hefi því ekkert á móti því, að þeir, sem áður versluðu með tóbak, taki aftur við þeirri verslunargrein, er hún verður gefin frjáls. Hitt gæti að vísu verið, en um það veit jeg ekkert, að háttv. þm. (JJ) vissi um einhverja aðra menn, sem honum stæðu nær, er hefðu augastað á því að ná í þessa verslun, og að þess vegna sje honum illa við, að þeir fái keppinauta úr gömlu herbúðunum. En jeg álít best, að þeir fái sína gömlu atvinnu aftur.

Þegar meðmælendum einokunarinnar er bent á, að salan dofni og verði stirð með þessu fyrirkomulagi, þá snúa þeir við blaðinu og segja: Er það ekki gott? Getur vel verið, en nú er verið að tala um tóbakið sem vöru, er gefi arð í ríkissjóð og sem á að vera vönduð og útgengileg. Hitt er annað, hvað heppilegt það sje frá heilsufræðilegu sjónarmiði, Um það geta eðlilega verið deildar meiningar. Nú er talað um þessa verslun sem tekjugrein, og meðan málið er rætt á þeim grundvelli aðallega, mega það teljast útúrdúrar, sem meðmælendur landsverslunar grípa til, að hrósa happi yfir því, að verslunin gangi saman, af því tóbaksnautn sje ekki holl fyrir heilbrigði manna. En ef út í það fer, þá er best að sjá, hvaða tegund nautnarinnar það er, sem aukist hefir við þetta fyrirkomulag, sem hv. frsm. minni hl. (JJ) vill hafa. Einmitt síðan landsverslunin tók við hefir innflutningur þeirra tegunda aukist mest, sem jeg þykist vita, að hv. 5. landsk. álíti mestu tjóni valda, nefnilega vindlinga. Hann talaði um, hver háski unglingum stafaði af nautn þeirra. Jeg tek undir það. En eftir skýrslum frá landsversluninni hefir sá innflutningnr blómgast. Hann kvað jafnvel útlendinga undrast, hve fjölbreytt vindlingaúrval hjer væri. Eftir því, sem jeg veit best, þá er munntóbak og neftóbak svipað að gæðum hjá landsverslun og var áður, vindlar yfir höfuð lakari, en cigarettur í fjölreyttara úrvali. Þetta kemur einnig heim við skýrsluna.

Í nál. minni hl. er samanburðartafla á verði tóbaks hjer og ytra. Þessi samanburður er nógu fræðandi það sem hann nær. En á töflunni, þar sem samanburðurinn er gerður, er talað um einkasöluverð hjer og smásöluverð erlendis. Hjer stendur einkasöluverð! Er það þá ekki heildsöluverðið? Háttv. 5. landsk. gefur þá skýringu, að átt sje við smásöluverð. En þá sje jeg ekki betur en ósamræmi sje milli þessarar töflu og hinnar, þar sem skýrt er frá smásöluverði í Reykjavík. Jeg skal nefna eitt dæmi. Af vindlategund þeirri, sem „Romanos“ nefnist, er kassinn í smásölutöflunni sagður kosta 48,40 kr. En í hinni 43,00 kr. Þetta er miðað við sama tíma, en er þó 5 kr. munur. Hvað er rjett? Hverju er þorandi að trúa? Hv. þm. (JJ) segir einkasöluverð sama og smásöluverð. En í skýrslu hans sjálfs er þessi missögn. Og hún virðist, eftir skýringum hans, benda í þá átt, að einkasöluverðið sje smásöluverð hjer. Er þetta ekki villandi og eitthvað bogið við það alt?

Hvað er smásöluverð erlendis? Sami vindillinn kostar 25—30 aurum meira í sumum heldri götunum heldur en í úthverfum borganna. Á þessu er því heldur lítið að byggja. Mjer er nær að halda, að ¾ hlutar af ræðu hv. 5. landsk. hafi gengið í það að mikla þroskaleysi flm. frv., hve skamt og skakt þeir hafi hugsað, er þeir sömdu frv. Frv. sjálft rjettlætir ekki þessi ummæli hans; því fer fjarri. Það er satt, að tolleftirlit okkar stendur annara þjóða að baki. Það gerði það líka áður en einkasalan kom. Þetta ræður ekki úrslitum í þessu máli.

Þá talaði hann mikið um freistingu manna til þess að flytja tóbak inn í blóra við lögin. En jeg segi: Freistingin til þess að fara í kringum lög með innflutningi einhverrar vöru eykst, ef hún er gerð afardýr með óhæfilegri álagningu, hvort sem sú álagning heitir tollur eingöngu eða álagning og tollur. Það hefir sömu verkanir. Sje vindlakassi, sem kostar 10 kr., gerður 20—30 kr. virði með tolli og einokunarálagi, þá hefir það alveg sömu áhrif til freistinga sem tollur einn væri.

Hann mintist á tollsvikahneyksli fyrir nokkrum árum. Það er víst rjett, að tilraun var gerð, en komst upp. Mjer er ekki kunnugt um fleiri tilfelli. Hitt er annað, að nú heyrist mikið talað um smyglun. Jeg hefi ekki mikið lagt upp úr því; slíku er varlegt að byggja á. En það er engin furða, þó þessháttar sögur komi, þegar tollur eða álag er orðið of hátt.

Mjer fanst hv. þm. (JJ) gera of lítið úr ákvæðum frv. um merkingu tóbaksins. Eins og nú er, er hver askja vindla og vindlinga merkt með sjerstöku merki. Jeg held munntóbak og neftóbak sje ekki merkt. Hann taldi þetta ómögulegt og hæddist að því, að tollþjónar mundu eiga að merkja alt tóbakið. En hann hefði getað sparað þennan kafla. Mjer hefir skilist, að þetta væri ekki ómögulegt; að kaupmennirnir gætu beinlínis gert þetta sjálfir, og það með svo tryggilegum hætti, að ekki stæði landsverslun að baki. Þegar kaupmaður sýnir lögreglustjóra „faktúrur“ sínar, þá fær hann merkin og setur þau síðan sjálfur á. Hann á mest í hættu sjálfur, ef hann vanrækir það. Þar að auki er því ekkert til fyrirstöðu, að menn geti notað umbúðir landsverslunarinnar aftur á tollsvikna vöru, svo þær eru alls ekki sú trygging, sem þm. vill vera láta. Og þó segja mætti, að hægt væri að fara í kringum hitt, þá eru það svik. Þeim má líka beita nú. Þau lög verða seint sett, að ekki sje unt að fara í kringum þau á sviksamlegan hátt.

Hv. 5. landsk. hefir lýst yfir því, eftir góðum heimildum, að landsverslunin hafi fengið betri kaup í útlöndum en aðrir. Ef þær heimildir eru eins ábyggilegar og verðtöflur hans, þá verð jeg að taka við þeim með fyrirvara. Þetta getur verið. En jeg hefi aldrei getað skilið, að bestu kjörin fáist með því að taka 6 mánaða lán á vörunni. Hann endaði loks ræðu sína með fallegri sögu af forstjóra landsverslunarinnar, sem jeg rengi ekki. Hann virðist álíta þessa framkomu einsdæmi. Það er held jeg ekki. Margir kaupmenn notuðu sjer ekki tækifærið 1914 til þess að hækka vörubirgðir, sem þeir lágu með. Þó mikið væri um það talað, að vörur væru hækkaðar óhóflega, þá var það af því, að það vakti mesta eftirtekt hjá almenningi og þau dæmin skáru mest í augun. Þegar litið er á ástandið 1914, þá áttu kaupmenn einatt ekki alla sök á því; fólkið tryltist og vildi hafa vörur með hvaða móti, sem hægt var. Ekki er ólíklegt að þetta hafi ýtt undir þá, er annars fengust nokkuð við það að hækka fyrirliggjandi birgðir. Hann kvað kaupmenn vilja hafa þessa verslun með höndum. Það er alveg rjett, og jeg held því fram, að þeir eigi að gera það og sjeu færastir til þess.

Það þykir nú orðið notaleg aðstaða að níða þessa stjett. En jeg kannast yfirleitt ekki við, að hún eigi það skilið, kannast ekki við, að hún standi verslunarstjett annara þjóða að baki, þegar litið er á allar ástæður. Jeg er alveg viss um, að þeir mætu menn, sem börðust fyrir verslunarfrelsi í þessu landi, gerðu það ekki í þeim tilgangi, að ríkið einokaði hverja vörutegund eftir aðra, og þrengdi með því kosti frjálsrar, sjálfstæðrar, innlendrar verslunarstjettar.

Þessi hv. þm. (JJ) hefir oft talað af miklum kala til þessarar stjettar. Hann gætir þess ekki, að hún er aðeins hálfrar aldar gömul, og því ekki búin að ná fullum þroska. En til þess á ríkið að hjálpa henni með viturlegri löggjöf, í stað þess að setja fótinn fyrir hana og hrifsa undir ríkiseinokun þær greinar verslunarinnar, sem þessari stjett er vel fært að fara með.