07.05.1925
Efri deild: 70. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 3088 í B-deild Alþingistíðinda. (1905)

50. mál, tollalög

Fjármálaráðherra (JÞ):

Það er aðeins eitt atriði í ræðu hv. 5. landsk. (JJ), sem jeg vildi víkja að, og það eru tollmerkingarákvæðin.

Get jeg þá strax tekið undir það með háttv. frsm. minni hl. (JJ), að merkingin, sem frv. gerir ráð fyrir, muni verða allmiklum erfiðleikum bundin í framkvæmdinni. En flm. frv. lögðu áherslu á, að gerðar væru alvarlegar tilraunir til að komast hjá tollsvikum, sem svo mikil munnmæli ganga um og hv. frsm. minni hl. (JJ) var svo fjölorður um í ræðu sinni. Jeg hefi því fallist á, að rjett væri að gera tilraunir um eitthvert það skipulag, sem gæti fyrirbygt, að þessi margnefndu tollsvik gætu átt sjer stað; en hitt er vitanlegt, að jeg get ekki að óreyndu fullyrt nokkuð um það, að þessi tilhögun reynist fullnægjandi. Þyrfti þá ekki að koma neinum á óvart, þó einhverju yrði breytt í þessu efni, ef erfiðleikarnir á framkvæmd þessa skipulags reynast eins miklir og hv. 5. landsk. (JJ) gerir ráð fyrir. Því er auðvitað ekki að leyna, að freistingin til tollsvika verður því meiri, sem vonin um ábata af þeim vex, hvort sem það er afleiðing af háum tolli eða mikilli einkasöluálagningu, eins og nú á sjer stað. Annars má geta þess, að grunurinn um smyglun á tóbaki hefir ekki minkað síðustu árin, og verður ekki sjeð, að merking landsverslunarinnar hafi verið einhlít eða henni framfylgt svo, að hún væri nægileg til að fyrirbyggja tollsvik. Hitt nær ekki neinni átt, sem hv. frsm. (JJ) sagði, að merkingin væri svo umsvifamikið starf, að enginn lögreglustjóri gæti framkvæmt hana, og að hún í annan stað yrði svo dýr, að kostnaðurinn við hana myndi gleypa tollaukann. Af þessu tvennu hlýtur annaðhvort að vera rangt, og líklega hvort veggja.

Jeg hefi ekki í umræðum þessa máls í hv. Nd. eða hjer viljað víkja neitt að starfrækslu tóbakseinkasölunnar. Jeg hefi þannig lofað andstæðingum frv. að bera lof á hana, án þess að mæla í móti, og mun halda þeim hætti enn. En þó vil jeg geta þess, að ýmislegt hefir komið fyrir í tíð einkasölunnar, sem nálgast tollsvik. T. d. hefir tvisvar orðið uppvíst, að seldar hafa verið tóbaksvörur með merki landsverslunarinnar lægra verði en landsverslunartóbakið var selt í heildsölu. Hefir rannsókn verið hafin í þessum málum, en hún ekki borið neinn ávöxt. Jeg get mjer ekki neins til um það, hvernig á þessu stendur, en hætt er við, að um einhverjar misfellur sje að ræða í sambandi við það.