07.05.1925
Efri deild: 70. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 3108 í B-deild Alþingistíðinda. (1908)

50. mál, tollalög

Frsm. meiri hl. (Jóhann Jósefsson):

Það er nú sennilegt, að umr. fari að styttast. Hv. frsm. minni hl. hefir nú þegar mjög borið hita og þunga dagsins og orðið fyrir svo þungum áföllum, að eigin dómi, að hann hefir mælst til, að jeg gengi undir okið með sjer. Hann taldi, að jeg hefði talað svo óljóst fyrir málstað meiri hl., að honum hefði fipast vörnin af því. Þetta væri skiljanlegt, ef hv. þm. (JJ) væri ekki eins vel læs og hann er, en hann hefir nál. sitt sem að líkindum er samið af honum sjálfum (?) prentað fyrir framan sig, og átti því síst að þurfa að villast. En það er nú komið í ljós, að sá verðsamanburður, sem gerður er í nál. hv. minni hl., er þannig saman settur, að það er ómögulegt annað en að telja hann villandi. Það eru engin meðmæli með einokuninni að bera saman heildsöluverð hjer og smásöluverð ytra. Þar að auki er það alveg út í bláinn gert. Í nál. er ekkert minst á, hvaða lönd sje um að ræða, þótt hv. 5. landsk. (JJ) segði að vísu, að það væri átt við Danmörk og England. Nei. þetta er mjög veikt plagg í málinu, og hv. minni hl. vegna og sakir þess, að hv. 5. landsk. (JJ) hefir mælst til, að jeg færi vægilega með sig, skal jeg ekki fara lengra út í það að sinni.

Hv. þm. (JJ) kom enn með það, að einhverjir kaupmenn væru á gægjum og biðu þess tækifæris, þegar verslunin væri gefin frjáls, til að hefja verslun með þessa vöru. Hann sagði, að þeir væru þegar farnir utan og biðu með óþreyju eftir nánari fregnum. Þetta getur vel verið; jeg þekki ekki mennina og veit ekki um ferðir þeirra. En jeg hefi líka heyrt annað í sambandi við þetta, það, að af hálfu annara en þeirra, sem ráku tóbaksverslun hjer áður en einkasalan kom á, sjeu gerðar ítarlegar tilraunir til að sitja fyrir þessari verslun, ef fyrirkomulaginu verður breytt. Það lítur því svo út, að það sjeu ekki kaupmennirnir einir, sem langar til að versla með tóbakið, ef verslunin verður gefin frjáls og þeir fá kost á því.

Hv. frsm. minni hl. (JJ) fáraðist mikið yfir þeirri skýringu, sem jeg gaf á framkvæmd tolleftirlitsins eftir frv. Jeg skal gjarnan taka einn að mjer öll þau ámæli, sem hann helti yfir hv. flm. frv. fyrir þetta, því að alt, sem jeg sagði um framkvæmdina í þessu efni, var aðeins hugmynd mín um það, hvernig mætti framkvæma þetta. Því þótt það fyrirkomulag sje ekki gallalaust, þá má og segja, að allir vita, og hv. þm. (JJ) treysti sjer ekki til að mótmæla því, að það er ekki ómögulegt að fará í kringum þær ráðstafanir, sem nú undir einkasölufyrirkomulaginu eru gerðar til þess að girða fyrir tollsvik.

Hv. 5. landsk. (JJ) hjelt því fram sem ástæðu fyrir því, að einokun væri betri en frjáls verslun, að með því fyrirkomulagi sem nú er, gæti landsverslunin komist að svo góðum kjörum við útlend verslunarhús, með því að bjóða þeim þennan tóbaksmarkað hjer á landi. Þessi röksemd er óskaplega haldlaus, sakir þess, að þegar einkasalan komst hjer á, var ekki um neinn nýjan markað að ræða, sem hún gæti boðið. Hún hefir engan markað skapað. Hún kaupir mestmegnis af gömlum verslunarhúsum erlendis, sem áður seldu þessa vöru hingað til einstakra manna og höfðu þennan markað. Þess vegna er landsverslunin ekki annað en milliliður milli þessara verslunarhúsa og þeirra manna, sem þau áður skiftu við. Og það hefir bæði verið sýnt fram á það hjer í þessari hv. þd., og eins í hv. Nd., að sá milliliður er algerlega óþarfur.

Eins og hv. 1. landsk. (SE) tók fram, hefir hv. frsm. minni hl. (JJ) margsinnis drepið á það, að ástæðan fyrir því, að nú ætti að afnema einokunina, væri eingöngu sú, að verslunarstjettin vildi ekki sleppa hendi af þessari grein verslunarinnar. Jeg get sagt næstum því það sama við þessu og hv. 1. landsk. sagði. Auðvitað væri það ekki óframbærileg ástæða af hálfu verslunarstjettarinnar, þótt hún væri andvíg ríkiseinokun á vörutegund, sem hún telur sig fullfæra til að versla með, en þess ber og vel að gæta, að það er ekki verslunarstjettin ein, sem er fylgjandi frjálsri verslun í þessu efni, heldur er það allur sá hluti þjóðarinnar, sem sjer hið óholla við einokunarfyrirkomulagið.

Jeg hygg, að það sje ekki nauðsynlegt nú við 2. umr. að fara mörgum orðum um þá mörgu ágalla, sem frá almennu sjónarmiði eru á því, að ríkið einoki ýmsar vörur; en þess getur orðið þörf seinna, og má gera það við 3. umr. Hinu vil jeg mótmæla, sem hv. þm. (JJ) sagði vera ástæðuna fyrir því, að menn vilja afnema einkasöluna, að það sje sem hann kallaði græðgi, komna frá verslunar- eða kaupmannastjettinni. Hið sanna mætti þá segja um kaupfjelögin með jafnmiklum rjetti,

Háttv. þm. (JJ) drap á, að einkasala væri á tóbaki bæði í Frakklandi og í Svíþjóð. Það má nú segja langt mál um það, hvernig hún hefir gefist í hvorum stað. og þó einkanlega í Svíþjóð, og mætti gefa háttv. 5. landsk. (JJ) margar upplýsingar um það. Háttv. þm. (JJ) lagði þá spurningu fyrir mig, hvort jeg hjeldi, að borgarar í þessum löndum væru svo heimskir að halda í einkasöluna, ef hún hefði gefist illa. Jeg vil svara honum með annari spurningu: Heldur hann að stjórnarvöldin sænsku og þingið þar hafi gert það af fáfræði, þá er lögin voru samþykt, að verja miljónum króna til þess að bæta verslunarstjett landsins þann halla, er hún varð fyrir með þeim. Jeg krefst þess ekki, að' hv. þm. (JJ) svari þessari spurningu nú; hann má svara henni við 3. umr.

Þá fór sami hv. þm. (JJ) út í ummæli mín um það uppþot, sem orðið hefði í viðskiftum, þegar stríðið byrjaði, en jeg benti á þetta sem afsökun fyrir því, að einkasölulögin komust á, að sú „panik“, sem greip alla þá, hefði ef til vill haft áhrif í þessu efni.

Þá mintist hann (JJ) á það að allar þær raddir, er komið hefðu fram um afnám laganna utan af landi, væru komnar frá kaupmönnum, en ekki kaupfjelögum. Það getur verið, að hann viti um það og hafi gert rannsóknir út af því. Jeg er því ekki vel kunnugur, en jeg veit, að raddir hafa komið bæði um það að afnema steinolíueinkasöluna og eins um það að halda henni áfram. Hitt er ekkert undarlegt, þótt samvinnufjelögin hafi ekki látið neitt frá sjer heyra í þessu máli, því að hinni pólitísku skoðun þeirra er stjórnað frá miðstöð samvinnumanna hjer í Reykjavík, og mega þau, eins og kunnugt er, enga aðra skoðun hafa í þessu nje öðru efni en þá, sem út gengur frá forkólfunum í höfuðstaðnum.

Þau ummæli, sem jeg viðhafði um það. að löggjöfin ætti ekki að bregða fæti fyrir verslunarstjettina, voru almenns eðlis, en ekki bundin við þetta mál. Það hefir þýðingu fyrir verslunarstjettina hjer, hvort sú stefna á að ryðja sjer til rúms að taka úr höndum manna atvinnugreinir, er þeir hafa stundað í mörg ár og leggja þær undir aðra — í þessu tilfelli landsverslun. Hv. þm. (JJ) veit það, að hann á í vök að verjast í þessu máli, og aðstaða hans gegn frjálsri verslun ekki sem sterkust. Þess vegna þarf hann að vitna í látna merkismenn um það, að þeir hafi verið hlyntir ríkisverslun. Jeg skal ekki fullyrða neitt um hvort það er rjett eða ekki, en vil þó ekki samþykkja ummæli hans með þögninni. En Jeg fullyrði, að viðhorfið var þá alt annað en nú. Þá var verið að losa verslunina úr höndum útlendinga og koma henni inn í landið. Jeg ímynda mjer, að hv. þm. (JJ) muni vera mjer sammála um það, að þetta hafi verið höfuðmarkmið þessara manna. Um hitt er best að spá sem minstu hvaða afstöðu þeir hefðu tekið til málanna, ef þeir væru nú uppi. Um það má deila þrotlaust. en það hefir enga þýðingu hvað þetta mál snertir.