09.05.1925
Efri deild: 73. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 3113 í B-deild Alþingistíðinda. (1911)

50. mál, tollalög

Fjármálaráðherra (JÞ):

Mjer þykir rjett að koma hjer fram með leiðrjettingu á útreikningi þeim um tekjur ríkissjóðs af tóbakseinkasölu og tolli til samans árið 1924, sem er að finna í nál. hv. minni hl. á þskj. 468, og einnig var borinn fram við 3. umr. málsins í hv. Nd. Jeg geri þetta því fremur, sem jeg hefi ekki tekið eftir því, að leiðrjetting á þessu hafi verið gerð, hvorki í hv. Nd. eða hjer. Í þessum útreikningi í nál. hv. minni hl. eru tekjur ríkissjóðs af tóbakseinkasölunni árið 1924 taldar samtals kr. 977558,85, en þessi upphæð er oftalin um kr. 103094,80, og stafar þessi oftalning sumpart af því, að upphæð, sem lögð hefir verið í varasjóð, um 35 þús. kr., er talin með tekjum ríkissjóðs, og að öðru leyti kemur þessi villa af því, að gengishagnaður verslunarinnar er tvítalinn, þar sem hann fyrst er innifalinn í þeim 350 þús. kr., sem greiðst hafa í ríkissjóð, en svo lagður við tekjurnar í annað sinn í þessum útreikningi, og sýna reikningar verslunarinnar sjálfrar þetta.

Rjett upphæð þess, sem ríkissjóður hefir fengið í tekjur af tóbaksversluninni á þessu ári, er kr. 874464,05.

Þá vil jeg þar næst gera nokkrar aths. við þann samanburð, sem hv. minni hl. gerir á þessum tekjum við þær tekjur, sem hv. flm. frv. hafa áætlað handa ríkissjóði af hækkuðum tolli og á að vera 657320 kr. Þessi samanburður er villandi að því leyti, að annars vegar eru teknar tekjurnar af þessu eina ári, 1924, út af fyrir sig, að viðbættri oftalningunni, sem nemur rúmlega 100 þús. kr., eins og jeg tók áðan fram, en hinsvegar miða flm. frv. við toll af meðalinnflutningi allra áranna, 1922, ’23 og ’24, eins og hann var í raun og veru. Til þess að fá sambærilegar tölur verður óhjákvæmilega að taka meðaltalstekjur af tolli og einkasölu þessi þrjú ár. En ef á að gera samanburð fyrir árið 1924 sjer í lagi, þá verður að reikna hækkaðan toll af innflutningi þess árs út af fyrir sig, og kemur þá út hærri tala en hv. flm. frv. áætluðu sem meðaltekjur þriggja áranna. Út af ummælum þeim, sem orðið hafa í umr. um þessar tekjur ríkissjóðs af einkasölunni, vil jeg árjetta það, sem jeg sagði í hv. Nd., að til þess að ríkissjóður fái sömu tekjur og áður, ef innflutningurinn helst óbreyttur, hefði tollhækkunin á tóbaki þurft að nema 2 kr. á hvert kg., í stað þess að frv. gerir aðeins ráð fyrir 1 kr. tollhækkun, en tollurinn á vindlum og vindlingum að vera eins og frv. áætlar hann. Tekjurýrnun ríkissjóðs af frv. nemur rúmum 60 þús. kr. á ári, ef innflutningur helst óbreyttur, en hv. flm. frv. gerðu ráð fyrir, að innflutningur á tóbaki mundi aukast við það, að verslunin yrði gefin frjáls, svo að fullkomlega mundu vinnast upp þessi vanhöld á tolltekjum ríkissjóðs. Og eftir því sem innflutningurinn var í 10 ár áður en einkasalan tók til starfa, virðist það ekki vera ógætilega áætlað, að ríkissjóður verði fullkomlega skaðlaus af breytingunni.