09.05.1925
Efri deild: 73. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 3119 í B-deild Alþingistíðinda. (1913)

50. mál, tollalög

Forsætisráðherra (JM):

Jeg er því ekki vanur að láta mikið til mín taka mál, sem ekki heyra undir mína stjórnardeild, og hefi því leitt mál þetta að mestu hjá mjer. En hv. 5. landsk. hefir nefnt mig lítillega í sambandi við tóbakseinkasöluna, og gat þá auðvitað ekki á sjer setið með að halla rjettu máli. Sannleikurinn er sá, að á þinginu 1921 lagði jeg ekki neitt til þessa máls. En hvað snertir afstöðu mína til tóbakseinkasölunnar þá, get jeg látið mjer nægja að vísa til þess, sem jeg sagði á því sama þingi í sambandi við annað mál. Og skoðun mín hefir ekki haggast síðan. Það er heldur ekki satt, að menn alment skoði það höfuðástæðu fyrir afnámi einkasölunnar, að hún sje brot á móti frjálsri verslun. Þó einhverjir kunni að álíta þetta hvað þyngst á metunum, þá eru öðrum fjölmargar aðrar ástæður fyrir afnámi verslunarinnar. Og hvað steinolíuverslunina snertir, þá er því lýst yfir af mörgum, sem vilja hafa frjálsa verslun, að þeir álíti hana ekki brot á verslunarfrelsi, vegna þess, að hún hafi verið einokuð áður. Annars getur hv. þm. (JJ) ekki talað neitt um snúning í þessu máli, og þó svo að jeg hefði komist á aðra skoðun í því, þá skilst mjer, að það hefði verið frjálst. Jeg hefi jafnan haldið því fram, að ekki beri að hindra athafnafrelsi manna nema sem minst. Og það veit hv. 5. landsk. (JJ), að þegar jeg leitaði síðast atkvæða hjá kjósendum mínum, þá lýsti jeg því yfir, að jeg vildi fá öll verslunarhöft afnumin.

Að öðru leyti get jeg, svo sem áður er sagt, vísað til Alþt. 1921 um skoðun mína þá í þessu máli.