09.05.1925
Efri deild: 73. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 3123 í B-deild Alþingistíðinda. (1915)

50. mál, tollalög

Einar Árnason:

Það lítur út fyrir, að ýmsir hv. þdm. eigi örðugt með að vera viðstaddir umræðurnar. Á það sjerstaklega við um stuðningsmenn þessa frv., og skilst mjer það svo, að þeim sje óljúft að tala um málið, og lái jeg þeim það ekki. Jeg vil nú samt sem áður leyfa mjer að gera nokkrar athugasemdir í sambandi við þetta mál.

Jeg tók það strax fram við 1. umr., að fyrir mjer væri mál þetta fjárhagsmál, en ekki stefnumál. Og jeg get sagt það enn, að ef hv. flm. frv. eða aðrir hefðu sannfært mig um, að ríkissjóður biði ekki halla af að samþykkja þetta frv. þá gæti jeg greitt atkv. mitt með því. En engin af þeirra mörgu og löngu ræðum hefir sannfært mig um þetta, jafnvel þó þeir hafi tekið það ráð að neita öllum rökum, sem fylgjendur einkasölunnar hafa komið með.

Jeg verð í raun og veru að segja það sama um þær tölur, sem hæstv. fjrh. hefir tilfært bæði í Nd. og Ed. Fyrir mjer er málið miklu einfaldara en svo, því það þarf ekkert annað en heilbrigða skynsemi til þess að sjá, hvað er rjett og ekki rjett í þessu máli. Hv. frsm. meiri hl. (JJós) talaði mikið um einokun, og hann lagði svo mikla rækt við það orð, að jeg tók eftir því við 2. umr., að honum varð á að nefna landsverslun, en tók sig óðar aftur og nefndi einokun. Jeg get gert honum það til geðs að nefna einokun, ef honum finst það einhver röksemd í málinu frá hans hlið, en þá vil jeg líka færa þetta orð víðara út. Eins og allir vita, er til einkasala fyrir ýmsar vörutegundir og firmu; þannig eru til margir einkasalar hjer á landi, og ættu þeir þá að heita einokarar, fyrst það þykir þægilegra orð. Annars dettur mjer í hug í sambandi við þetta einokunarorð, þegar konur voru að draga pils á höfuð sjer til þess að hræða börn og látast vera Grýla. Jeg held, að þetta einokunarnafn geti ekki haft meiri áhrif en það, þó fullorðinn maður sjái einhvern með pils á höfðinu.

Hv. frsm. meiri hl. (JJós) talaði um gróðaárið 1924 og að þá hefði verslunin verið að fjörgast. Af því leiddi hann það, að það væri fjarstæða af okkur andstæðingum frv. að miða við það ár útkomu landsverslunarinnar; við værum skyldugir til að taka meðaltalið af 3 árum. Þetta er nú að minsta kosti ekki nema að hálfu leyti rjett. Hv. frsm. segir, að ekki megi miða við það besta, og það út af fyrir sig er rjett. En getur hann nokkuð sagt um það, hvort árið 1924 yrði það besta ár, sem landsverslunin starfaði, ef hún hjeldi áfram? Hann getur ekkert um það sagt. En jeg vil benda á það, að við höfum skýrslur, sem sýna, að á fyrsta ársfjórðungi 1925 hefir einkasalan selt tóbak fyrir alt að 100 þús. kr. meira en á sama tíma 1924. Af því má ráða það, að 1925 verði betra ár en 1924, fyrir utan það, að það er alls ekki rjett þegar um einhver fyrirtæki er að ræða, sem eiga erfitt uppdráttar af eðlilegum orsökum fyrsta og annað árið, að taka þau ár til samanburðar við það, þegar fyrirtækið er komið á fastan grundvöll. Jeg gæti nefnt mörg dæmi af fjelögum hjer á landi, sem hafa átt mjög erfitt uppdráttar í byrjun, en urðu þjóðþrifafyrirtæki, þegar þau voru komin yfir barnasjúkdómana, og mjög gróðavænleg og gagnleg fyrir þjóðina. Jeg skal aðeins nefna eitt nafn, verksmiðjuna „Gefjun“ á Akureyri, sem áreiðanlega er þjóðþrifastofnun. Svo örðugt átti hún fyrstu árin, að hún varð að leita allra bragða til þess að bjargast frá gjaldþroti. En nú er hún með álitlegustu gróðastofnunum hjer á landi og gerir mjög mikið gagn.

Hv. frsm. meiri hl. (JJós) sagði, að innflutningur tóbaks mundi aukast, ef verslunin verður gefin frjáls. Getur verið, að fyrsta árið sýndi það, en það er alls ekki hægt að byggja á því ári, því seinna getur komið afturkippur. Yfirleitt er mjög örðugt að búa til nokkra áætlun um það, hvenær tóbaksinnflutningur verði mikill og hvenær lítill. Það fer vafalaust eftir því, hvað vel lætur í ári að meira eða minna leyti. Eftir skýrslum fyrsta ársfjórðungs 1925 virðist það vera á því sporinu, að innflutningurinn aukist. En það, að innflutningur aukist, getur verið álitamál, hvort er æskilegt; en ef eingöngu ætti að miða við það, að ríkið fengi tekjur, þá ætti líka að afnema víneinkasöluna. Þá talaði háttv. frsm. meiri hl. um það, að það hefði færst doði í tóbaksverslunina við það, að einkasalan komst á. Þetta er atriði, sem er þess vert að athuga. Jeg get búist við, að hv. frsm. hafi rjett fyrir sjer að nokkru leyti; jeg býst við, að það hafi færst nokkurskonar doði í tóbaksverslunina úti um landið fyrst eftir að landsverslunin var sett á stofn. En af hverju? Í því sambandi vil jeg drepa á atriði, sem mjer er kunnugt um. Eins og allir vita, þá var kaupmannastjettinni það ákaflega óljúft, að tóbakseinkasalan kæmist á, og mjer finst það alls ekki óeðlilegt og lái henni það ekki, því áreiðanlega var það fjárhagslegt tap fyrir kaupmenn marga hverja. En það, sem þeir sáu, að nauðsynlegt var að gera til þess að ósköpin stæðu ekki lengi, það var að gera einkasöluna óvinsæla. Hvernig fóru þeir að því? Þannig, að víða úti um landið tóku þeir sig saman um að kaupa ekki tóbak af landsverslun, eða að minsta kosti ekki nema slæmar tegundir, bæði af vindlum og reyktóbaki. Þegar viðskiftamenn kvörtuðu, þá sögðu kaupmenn: Þetta er landsversluninni að kenna, svona eru hennar vörur, og svo er þetta svo dýrt, að það er ókaupandi. Þetta er mjer kunnugt um. Með þessari aðferð hafa kaupmenn víða úti um landið neytt tóbaksneytendur til að leita óleyfilegra ráða til að útvega sjer tóbak. Sú ástæða, að landsverslun hafi ekki góðar tóbakstegundir, er á engum rökum bygð, enda hefir henni ekki verið haldið mikið uppi nú upp á síðkastið; en þegar tóbakseinkasalan komst á, þá var óspart flaggað með því, að ekki fengist almennilegur vindill eða reyktóbak eftir umskiftin. En reynslan er búin að sýna hið gagnstæða. Þessi aðferð kaupmanna til þess að gera tóbakseinkasöluna óvinsæla, hún minnir mig á nokkuð annað; hún minnir mig á þau ár, þegar Skúli fógeti setti hjer upp stofnun, sem allir kannast við. Almenna verslunarfjelagið með Ara Jónsson í broddi fylkingar átti að stjórna þessum svokölluðu „Innrjettingum“, sem Almenna verslunarfjelaginu var mjög i nöp við, af því að Innrjettingarnar tóku að nokkru leyti frá því atvinnu af sölu ýmsra vörutegunda. Jeg hefi nýlega lesið bók, þar sem sagt er frá þessum stofnunum, og jeg get ekki stilt mig um að lesa upp dálitla grein úr henni, af því hún minnir svo átakanlega á það, að sagan er að endurtaka sig. Hún hljóðar svo (með leyfi hæstv. forseta) :

„Eitt var það, að Ari hyltist til að hafa þau klæði og vaðmál, sem send voru út um land til sölu, illa unnin, hálfþæfð, gisin og mikils til of mjó. Bændur kvörtuðu sáran undan þessu við kaupmenn, en þeir svöruðu allir á eina lund: „Þetta er íslenskur iðnaður; þarna getið þjer sjeð.“ — Með þessum og þvílíkum brögðum tókst fjelaginu að gera iðnaðarstofnanirnar óvinsælar hjá almenningi, til þess að það gæti lagt þær niður að fullu, svo að alþýða manna risi ekki á móti því.“

Þá hafði mig langað til að víkja örfáum orðum að hv. 1. landsk. (SE); get jeg ekki alveg slept að minnast á tvö eða þrjú atriði, sem hann tók fram við 2. umr. Hann kvað sjer vera það óskiljanlegt, ef ekki væri hægt að ná inn eins miklum tekjum með tollun eins og einkasölu, og lagði á þetta mikla áherslu. Það dettur engum í hug að mótmæla þessu. Hann sagði þetta vera einfalt reikningsdæmi, en það þarf ekkert reikningsdæmi, ekki nema heilbrigða skynsemi, til þess að sjá, að þetta er hægt. En hv. þm. ætti að athuga það, að það þarf að gæta hagsmuna þeirra, sem kaupa tóbakið. Og það, sem hjer liggur fyrir, að hv. þm. sanni, er það, að þær tekjur, sem þetta frv. ætlar ríkissjóði án þess að bitni á kaupendum, sjeu eins miklar eins og þær tekjur, sem hann hefir af einkasölunni í framtíðinni. Það hefir hv. þm. (SE) láðst að sanna, — af því hann getur ekki sannað það. Það þarf ekki nema heilbrigða skynsemi til að sjá það, að þegar kaupmenn eru búnir að taka sína kaupmannsálagningu af tóbakinu, þá skiftir það töluverðu máli, hvort kaupmannsgróðinn lendir hjá landinu eða kaupmönnum, að minsta kosti ef maður vill taka nokkurt tillit til kaupendanna.

Þá talaði hv. 1. landsk. (SE) um það, að það væri svo hættulegt þegar stórar verslanir gerðu slæm innkaup. Eftir þessari röksemdafærslu ætti ekki að vera til stórt verslunarfirma, heldur aðeins tómir smákaupmenn, því þá gerði minna til, þótt einhverjir gerðu slæm innkaup. Þó maður gengi inn á þessa skoðun hv. 1. landsk. (SE), þá finst mjer mega taka tillit til þess, ef stórt verslunarfjelag gerir góð innkaup, og jeg get ekki skilið annað en að þetta tvent geti vegið salt að minsta kosti, að gera góð innkaup og slæm innkaup. Slíkt er því engin röksemdafærsla. Þá komst háttv. 1. landsk. (SE) nokkuð hátt, er hann var að tala um frjálsa samkepni. Sannast að segja finst mjer þessi tóbaksverslun vera svo jarðbundin, að það sje best að halda sig við jörðina og staðreyndir í umræðum um hana. Hann talaði um það, að sú frjálsa samkepni „kontroleri“ sig sjálf. Mig minnir það væri Benedikt Gröndal, sem talaði um himinljósa-leiftur-síur, og þetta er held jeg eitt af því. Minnist hv. 1. landsk. (SE) nokkuð þess, að hjer hefir starfað verslunarfyrirtæki, sem hjet „Standard Oil“ eða „Hið íslenska steinolíuhlutafjelag“ ? Og man hv. 1. landsk. nokkuð eftir því, að reynt hafi verið að brjótast gegnum þá „frjálsu“(!) verslun? Man hann nokkuð eftir tilraunum, sem gerðar voru í Reykjavík á því sviði, og hvernig það gekk? Hvað segir hv. þm. um það, þegar þessir einokarar hjer í Reykjavík — svo jeg tali á máli hv. frsm. meiri hl. — selja hluti fyrir 120 kr., sem hægt er að fá hingað fyrir 30 kr., ef hægt er að brjóta þessa einokun, þessa frjálsu samkepni hv. 1. landsk. ? Þá talaði hv. 1. landsk. með miklum fjálgleik um það, að rjett mál sigraði að lokum. Já, háttv. 1. landsk. verður að gæta að því, að líf þjóðanna er meira en eitt mannslíf. Ef maður ætlar að gera sjer grein fyrir því, hvernig verslunarmálin hafa verið í fortíð og hvernig þau eru að breytast og hvert þau stefna. Þá er vafasamt að hægt sje að segja, að gott mál sigri að lokum: Það er alt eftir því, hvaða skoðun maður hefir á því, hvað muni fram koma að lokum. Sú frjálsa samkeppi getur verið góð, ef bara er hægt að framkvæma hana svo, að hún eigi það nafn með rjettu, að vera frjáls. En hv. 1. landsk. veit sjálfsagt ofurvel, að það er naumast hægt að segja, að verslunin sje nokkursstaðar frjáls. Það hafa verið myndaðir svo margskonar verslunarhringar, að það er óskemtilegt að hlusta á, að menn skuli yfir höfuð vera að tala um frjálsa verslun þar, sem menn hafa átt að búa við ófrjálsa verslun og munu eiga í framtíðinni að meira eða minna leyti.

Það voru aðeins þessi fáu atriði, sem jeg vildi minnast á; það er ekki af því, að við, sem erum andvígir frv. þessu, sjeum að ætla okkur að telja neinum hughvarf til þess að greiða atkv. móti þessu frv., en við höfum aðeins viljað láta í ljós okkar skoðun. Og sannast að segja furðar mig það mjög, að hæstv. stjórn skyldi hafa getað lagt svo mikla rækt við þetta mál sem hún hefir gert. Jeg efast ekki um, að flm. þessa frv. hafa sótt fast að fá þetta mál fram í þinginu og að hæstv. stjórn hafi óttast eitthvað örðugt, ef þetta mál fengi ekki þann stuðning, að það gæti gengið gegnum þingið. En jeg verð að segja það, að mjer hefði þótt vegur stjórnarinnar vaxa, ef hún hefði að minsta kosti gefið þjóðinni tækifæri til þess að segja sitt álit um þetta mál áður en því væri ráðið til lykta.