09.05.1925
Efri deild: 73. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 3130 í B-deild Alþingistíðinda. (1916)

50. mál, tollalög

Sigurður Eggerz:

Jeg verð að segja það við hv. 1. þm. Eyf. (EÁ), að orsökin til þess, að jeg hefi stundum verið úti undir umr. þessa máls, er sannarlega ekki sú, að jeg telji mig ekki hafa nóg rök að tefla fram, heldur virðist mjer rökin vera orðin svo yfirdrifin með þessu frv., að það þurfi ekki altaf að vera að endurtaka þau.

Þá vík jeg örfáum orðum að athugasemdum hv. 5. landsk. (JJ) út af minni seinustu ræðu viðvíkjandi fjárhagshlið málsins, hvor myndi gera betri kaup, einkasalan, eða einokunin, sem mun vera rjettara orð, eða hin frjálsa samkepni. Það er að vísu rjett, að sá maður, sem á að gera stórfeld innkaup, hann hefir í sjálfu sjer skilyrði fyrir því að geta náð betra verði heldur en sá, sem smærra kaupir inn. En gallinn er bara sá, að ef misbrestir verða á kaupunum, geta þeir orðið svo afarstórfeldir. Þó forstöðumaður einokunarverslunarinnar sje ágætur og ráðvandur maður í alla staði, þá getur honum missýnst, því betur sjá augu en auga. En út yfir alt tekur þó, ef valið á manninum tekst illa, því freistingarnar verða auðvitað miklar. Erlend fjelög, sem sjá sjer stórhag í svo mikilli verslun, ef þau geta komið ár sinni vel fyrir borð, mundu sjálfsagt sum hver reyna að koma sjer vel við forstöðumann verslunarinnar með því að láta hann fá sjergróða, en þetta gæti leitt til, að landið fengi verri og dýrari vörur. Og sem sagt, ef valið tekst illa á manninum, þá stendur spillingin fyrir dyrum. Þar er ein af stórhættunum við alla einokun. Aftur á móti er það svo um hina frjálsu samkepni, að þar stjórnar eigingirninnar sterka hvöt. Sjálfra sín vegna verða þeir að leitast við að fá sem besta og ódýrasta vöru til þess að geta staðist samkepnina. Vond innkaup og vond vara er þeirra eigið tap; vond innkaup og vond vara hjá einokuninni kemur niður á öðrum stað.

Hv. þm. (EÁ) hjelt, að hann væri að tala á móti hinni frjálsu samkenni með því að nefna „Standard Oil“. Hann var að tala um, að jeg vissi, hvernig þetta fjelag hefði unnið hjer. Já, hvaðan stafaði andúðin gegn þessu fjelagi? Hún stafaði af því, að fjelagsmenn voru að einoka olíuna, af því að þeir voru að mynda hring, svo að hin frjálsa verslun komst ekki að. (EÁ: Voru það ekki útlendir menn?) Víst voru það útlendir menn, en andúðin skapaðist ekki við það, heldur við hitt, að þeir einokuðu vöruna og gerðu landsmönnum með því þungar búsifjar. (EÁ: Hvar er þessi frjálsa verslun?). Ef sterkir „hringar“ myndast, á hin frjálsa verslun erfiðara uppdráttar. Verslunarfrelsi birtist ekki í ,,hringum“ nútímans. Þeir eru ekkert annað en það, að fjármagnið sameinast til þess að útiloka alla frjálsa samkepni, eða m. ö. o. árás á frjálsa verslun.

Frjálsa verslun má útiloka bæði með því að ríkiseinokun sje upp tekin, eða að ríkið veiti einhverjum einstaklingum verslunareinkaleyfi, og svo með hinu, að ,,kapitalið“ slær sjer saman og myndar „hringa“, sem eru síst betri fyrir verslunarfrelsið. Hinar illu afleiðingar „hringanna“ má best sjá í Ameríku. Við vitum hvernig „trustar“ Ameríkumanna hafa gripið öfluglega inn í alt þjóðlíf vorra tíma og hversu ilt hefir verið að fá reistar skorður við þeim.

Hv. 1. þm. Eyf. (EÁ) fanst jeg vera nokkuð mikið uppi í skýjunum, af því að jeg nefndi frjálsa verslun í sambandi við þetta mál. Jeg fæ nú ekki sjeð, að hægt sje að tala um þetta mál án þess að koma inn á frjálsa verslun í sambandi við það. Og mjer er spurn: Á hvaða grundvelli stendur hv. þm. (EÁ) í máli þessu? Mjer skildist á honum í upphafi ræðu hans, að hann vildi ekki blanda neinum „principum“ í verslunarmálum inn í þessar umr. Þetta mál yrði að skoða sem tollmál eingöngu. Þetta er misskilningur. Hjá því verður ómögulega komist að tala um stefnur í verslunarmálum yfirleitt í sambandi við tóbakseinkasölu ríkisins. Úrslit þessa máls hljóta að fara eftir því, hvort menn álíta frjálsa verslun heillavænlegri landsmönnum en einokun.

Hv. þm. (EÁ) játaði, að hægt væri að ná jafnmiklum tekjum í ríkissjóð með tollhækkun einni saman eins og með lægri tolli og verslunarálagningu samtals. Þá er spurningin eingöngu sú, hvort fyrirkomulagið verður neytendum vörunnar, landsmönnum, hagkvæmara. Ef tóbakið fæst ódýrara til landsins undir fyrirkomulagi frjálsrar verslunar, þá græðir þjóðin í heild, en ríkissjóður stendur jafnt að vígi í báðum tilfellum. Það er þess vegna ekki til neins fyrir menn að reyna að læðast framhjá einokunarfyrirkomulaginu jafnframt því að halda lofræður um tóbakseinkasöluna. Menn verða að taka afstöðu til stefnunnar. Vilja menn einokun eða ekki?

Jeg vil nú skora á hv. 1. þm. Eyf. (EA), hv. 5. landsk. (JJ) og þá aðra hv. þm., sem standa þeirra megin í þessu máli, að láta ótvírætt uppi, hvort þeir standa á grundvelli frjálsrar verslunar eða ekki. Jeg vil skora á þá að koma til dyranna eins og þeir eru klæddir, en það hafa þeir ekki gert enn. Að vísu byrjaði hv. 1. þm. Eyf. (EÁ) ræðu sína á því að segja, að þetta væri ekki „princip“-mál, en síðar í ræðu hans skaut fyrir ýmiskonar himnaleiftrum, eins og hann vill víst orða það, eins og t. d. þegar hann fór að tala um, að líf þjóðanna væri lengra en mannslífin o. s. frv. Þá fanst mjer hann vera aftur kominn að því, að málið væri í rauninni „princip“-mál fyrir honum.

Hv. þm. (EÁ) hneykslaðist á því, að jeg hafði sagt í sambandi við þetta mál, að hinn góði málstaður sigraði að lokum. Það er nú svo, að hver maður dæmir málstaðinn út frá sínum eigin skoðunum. Í verslunarmálum hefi jeg altaf talið frjálsa verslun góða málstaðinn, og þegar jeg sje, að henni vex fylgi hjer á Alþingi, þá er eðlilegt, að jeg telji hinn góða málstað vera að sigra.

Hitt er annað mál, hvernig aldir og óbornir kunna að líta á þetta atriði í framtíðinni. En ef sálarlíf einstaklinganna tekur ekki því meiri stakkaskiftum, þá hafa menn ástæðu til að ætla, að verslunarfrelsi verði jafnan talið hinn góði málstaðurinn.

Þar sem hv. 1. þm. Eyf. (EÁ) hefir rjettilega fallist á, að afla megi ríkissjóði jafnmikilla tekna með tollhækkun eins og með einkasölu á tóbaki, þá snýst málið eingöngu um stefnuna í verslunarmálum, og getur hv. þm. (EÁ) því ekki skotið sjer undan að taka afstöðu til hennar.

Vona jeg, að yfirlýsing hans í þessu efni verði á þá leið, að hann og flokkur hans standi á grundvelli frjálsrar verslunar, þar sem það skiftir framtíð flokksins áreiðanlega miklu. Og jeg skil ekki, að Framsóknarflokkurinn þurfi að vera hræddur við að halda sjer á grundvelli frjálsrar samkepnisverslunar, því hvað bölvaðir sem honum kunna að þykja kaupmennirnir, þá er þess að minnast, að til eru stofnanir, sem heita samvinnufjelög.

Ef kaupmenn leggja óhæfilega mikið á varning sinn, þá ættu kaupfjelögin að geta blómgast, og sýnt þannig hin blessunarríku áhrif frjálsu samkepninnar, en þegar kaupfjelögin eru farin að selja vörur sínar með sanngjörnu verði, þá neyðast kaupmenn sama staðar til að koma á eftir, ef þeirra verð hefir verið of hátt. Að öðrum kosti verða þeir að hætta verslun, eða þá selja lakari vörur en kaupfjelögin, en það kemur þeim einnig í koll. Þarna koma hin heilladrjúgu áhrif frjálsu samkepnisverslunarinnar í ljós: að sá góði þvingar hina, sem lakari eru, til að haga sjer eftir sínu góða fordæmi.

Jeg er spentur fyrir að heyra, hvernig afstaða Framsóknarflokksins er yfirleitt gagnvart verslunarfrelsi, og þess vegna bið jeg um yfirlýsingu þess efnis.