09.05.1925
Efri deild: 73. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 3145 í B-deild Alþingistíðinda. (1918)

50. mál, tollalög

Forsætisráðherra (JM):

Eins og vanalega neyðist maður til þess að tala dálítið utan við málið við hv. 5. landsk. (JJ). Auðvitað kemur það ekkert málinu við, hvort jeg muni hafa skift um skoðun í því; og hefði jeg gert það, væri jeg að sjálfsögðu skyldugur til að fylgja þeirri, er jeg hefði nú. En jeg hefi bara ekki gert það. Það var ekki jeg, sem skifti um skoðun eða var orsök til þess, að hv. Framsóknarflokksmenn vildu ekki styðja mig 1922, er þeir komu til mín og tjáðu mjer, að þeir vildu taka upp nýja stefnu í verslunarmálum, sem þeir byggjust ekki við, eins og rjett var, að jeg myndi fylgja. En stefnan var sú, að innfæra smátt og smátt þvingunarstefnu í versluninni. Þessu þýðir hv. þm. (JJ) ekki að neita; jeg sýndi það óhrekjandi á þinginu 1922. Og þá sagði jeg líka flokksbræðrum hans, að jeg vildi alls ekki taka upp þessa nýju stefnu, sem þeir gáfu í skyn, að þeir bæru svo mjög fyrir brjósti. Og því álitu þeir, að leiðir okkar yrðu að skilja.

Það sýnir glögt, hvað hv. þm. (JJ) hættir freklega til að blanda tvennu ólíku saman, er hann er hjer að tala um það, að jeg hafi viljað hafa skömtun á stríðsárunum. Það er að vísu rjett, að vegna erfiðleikanna á allan hátt vildi jeg þetta þá, — en hvað kemur það því við, hvort kaupmenn og kaupfjelög eigi að hafa tóbaksverslunina eða ekki? Eins og liggur í augum uppi, þá þýðir ekkert að tala um snúning af minni hálfu í þessu máli út af skömtunarráðstöfunum. Hv. þm. (JJ) gerir það aðeins til þess að reyna að teygja umr., og af því hann langar svo ákaflega til að leggja til mín, en finnur ekkert til að höggva með.

Jeg hefi ekkert um það sagt í þessu máli, hvort jeg teldi einkasölu á tóbaki heppilega eða ekki; heldur það eitt, hvernig jeg liti á málið „principielt“.

Að öðru leyti en þessu vil jeg ekki taka þátt í umræðunum. Finn ekki ástæðu til þess.