09.05.1925
Efri deild: 73. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 3148 í B-deild Alþingistíðinda. (1920)

50. mál, tollalög

Eggert Pálsson:

Þess er í rauninni ekki þörf að halda langar ræður í þessu máli, því afdrif þess eru þegar fyrirsjáanleg, og menn munu hvorki breyta skoðunum sínum við umr. nje láta þær hafa áhrif á atkvæði sitt. En hv. 5. landsk. þm. (JJ) hefir gert ítrekaðar tilraunir til þess að knýja mig til þess að standa upp, og skal jeg þess vegna gera honum þetta til geðs, að taka til máls. Hv. 5. landsk. hefir grafið upp 12—13 ára gamlar þingræður eftir mig, og heldur hann því fram, að þær skoðanir, sem jeg þá ljet í ljós, sjeu bindandi fyrir mig nú í þessu máli. Hv. þm. hlýtur vel að vita það, að á þeim tímum sem ræða mín, er hann vitnar til, var haldin, bjuggu menn við algerlega sjerstakar kringumstæður og ólíkar þeim, er nú eiga sjer stað, enda hefir og hv. þm. þegar viðurkent það að nokkru leyti. Þá var almenn fjárþröng, bæði á þjóðarbúinu og hjá einstökum mönnum og stofnunum, og svo bættist þar við, að í því máli, sem vitnað er til, var að eiga við öflugan verslunarhring, sem þjóðarnauðsyn var að reka af höndum sjer. Nú er þessu hvorugu til að dreifa. Hjer er hvorki um neina knýjandi fjárþröng ríkisins að ræða nje neitt annað, sem rjettlætt gæti áframhaldandi ríkiseinkasölu. Jeg tek útreikning hv. flm. þessa frv. eins vel trúanlegan eins og útreikning hverra annara, og hann sýnir, að ríkissjóður tapar engu við það, þó að frv. þetta verði að lögum, og er þar með fallin sú ástæða gegn frv., að það geti haft fjárhagslega þýðingu fyrir ríkið, hvort það gengur fram eða ekki. Þá er hjer heldur ekki að ræða um neina baráttu gegn nokkrum verslunarhring, eins og hjer var þegar Standard Oil hafði náð undir sig allri steinolíuverslun landsins, eða D. D. P. A. fyrir þess hönd. Auk þess verður á það að líta, að á þessum síðustu 12—13 árum hafa allar kringumstæður í þjóðfjelaginu stórum breyst. Fyrir 12—13 árum síðan þektu menn ekkert til þeirrar viðleitni hjer á landi, sem nú er svo mjög farin að gera vart við sig, að koma öllum hlutum að heita má undir yfirráð og afskifti ríkisstjórnarinnar. Þjóðnýting var hjer alóþekt hugtak á þeim árum. Nú á síðustu árum hafa risið hjer miklar öldur og brattar út af því, að reynt hefir verið að koma á þjóðnýtingu á sem allra flestum sviðum. Sú er nú og hefir verið um nokkurra ára skeið hugsjón margra, að koma t. d. allri verslun landsmanna á hendur ríkisins, og ætlast þeir þá til, að sú landsverslun, sem ennþá stendur, verði undirstaða undir miklu víðtækari atvinnurekstri af ríkisins hálfu á þessu sviði. Þetta, sem jeg hefi nú sagt, er alls ekki út í hött talað og má finna ótal dæmi því til stuðnings. Fyrir nokkrum árum síðan kom hjer í þinginu fram frv. um einkasölu á kornmat. Það frv. varð til þess að opna augu fjölda manna fyrir því, hversu viðsjárverð stefna hjer var á ferðinni, og þótti það því ekki í mál takandi, nema alveg sjerstakar kringumstæður gerðu það nauðsynlegt, eins og átti sjer stað í ófriðnum mikla. Nú sjá allir, að á þessum tímum er ekki hægt að rjettlæta ríkiseinkasölu á sama hátt og fyrir 12—13 árum síðan, og verða menn að gera sjer sjálfum ljóst, hvorri stefnunni þeir vilji ljá fylgi sitt, þjóðnýtingu eða athafnafrelsi í viðskiftum og ýmsum atvinnurekstri. Það eru alt aðrar ástæður ríkjandi í þjóðfjelaginu nú en fyrir 12—13 árum, og þess vegna ættu allir að sjá, af hverju það var, að jeg var meðmæltur einkasölunni á þeim árum, en andvígur henni nú; enda veit hv. 5. landsk. þm. það líka mjög vel, hvar jeg stend nú í þessu máli.

Við síðustu kosningar gerði hann og fylgifiskar hans sem sje ekki svo lítið veður út af brjefum, sem jeg þá reit nokkrum kjósenda minna og lýsti þar skoðunum mínum á þessum málum, verslunarmálunum. Annars finst mjer, að hvorki hv. 5. landsk. þm. eða neinn annar þurfi að fárast mjög út af því, þó að menn skifti skoðunum á 12—13 ára tímabili, eftir því sem aðstaða breytist. Það hefir marga hent á skemri tíma. Hitt væri og ekki ólíklegt, að jeg hefði alls ekki skift um skoðun á þessu máli, ef reynslan hefði sannfært mig um, að stefnan væri rjett, en það hefir hún einmitt ekki gert. Reynslan hefir fært mjer og öðrum sannanir fyrir því gagnstæða, — það er, að ríkiseinkasala er ekki hagkvæm neinum, hvorki ríkinu eða neytendum varanna.

Tóbakseinkasalan hefir fært mönnum sannanir fyrir því, að ríkið hefir ekki grætt eins mikið á henni og það hefði grætt á tollinum með frjálsri verslun og að neytendum hefir tóbakið orðið bæði að mun dýrara og verra en áður. Þetta síðasta atriði get jeg sjálfur borið vitni um af eigin reynd.

Hv. 5. landsk. þm. ferst það alls ekki að lá mönnum, þó að þeir skifti um skoðun. Jeg veit ekki betur t. d. en að hann sjálfur hafi byrjað sína fyrstu göngu á stjórnmálabrautinni sem hreinn og opinber jafnaðarmaður, en þrátt fyrir þetta vill hann nú á engan hátt kannast við jafnaðarmenskuna. Hann neitar því að hafa skift um skoðanir, en þó vill hann ekki kannast við, að hann sje ennþá jafnaðarmaður. Jeg skal nú engan veginn neita því, að hv. þm. sje enn í hjarta sínu sami jafnaðarmaðurinn og hann áður var. En nú er þó sá munur á, að áður kannaðist hann við það, hvar sem stóð, en nú vill hann enga yfirlýsingu gefa um það opinberlega. Hjer kennir því bersýnilegrar breytingar hjá hinum hv. þm. Áður var sem hann teldi sjer sóma að því að vera jafnaðarmaður, en nú er sem hann skammist sín fyrir það. Og ef þetta eru ekki skoðanaskifti, þá er vont að vita, hvað nefna skal því nafni. En auk þessa skal jeg nú leyfa mjer að tilfæra bein og bersýnileg dæmi um það, að þessi háttv. þm. (JJ) hefir haft skoðanaskifti, og hefir hann þá eins og aðrir leyft sjer að leiðast af kringumstæðunum. Jeg veit sem sje ekki betur en á þinginu 1923 greiddi hann atkvæði með frv., sem þá var samþykt hjer í deildinni með 13 shlj. atkv., frv. um atkvæðagreiðslu manna utan kjörstaða (einn þm., 2. þm. Rang., var þá fjarverandi, svo að atkv. 5. landsk. hlýtur að felast í tölunni 13). En aftur á síðastliðnu ári (1924) gerist hann flm. að því að neina þessi lög aftur úr gildi vegna þess, að forsendur þær, sem lögin hafi verið bygð á, sjeu skemdar og rotnar. Þetta sýnir, að þessi hv. þm. hefir það líka til að skifta um skoðun, og þegar svo er ástatt um hann, má benda honum á, að þeim sem býr í glerhúsi, getur orðið sjálfum skeinuhætt, ef hann tekur upp þann sið að kasta grjóti að öðrum.