09.05.1925
Efri deild: 73. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 3152 í B-deild Alþingistíðinda. (1921)

50. mál, tollalög

Sigurður Eggerz:

Hv. 5. landsk. (JJ) er vanur að vera vel að sjer í þingsögunni, en í þetta skifti hefir háttv. þm. ekki lesið þingsöguna eins vendilega og hann hefði þurft, áður en hann kvað upp dóm sinn yfir mjer og afskiftum mínum af verslunarmálunum. Jeg skal ekki þreyta hv. deild á því að fara langt út í þá sögu, en get látið mjer nægja að rifja upp nokkur aðalatriði. 1913 man jeg fyrst eftir, að hjer í þessari deild var byrjað að lofsyngja einokuninni. Var sjerstaklega þá talað um einkasölu á korni af nokkrum þáverandi heimastjórnarmönnum. Jeg varaði þá við einokunardraugnum, sem væri að teygja höfuðið upp úr þinginu. Á þinginu 1921 komu fram 3 frv. um einkasölu, 1) um einkasölu á tóbaki, 2) um einkasölu á lyfjum og 3) um einkasölu á kornvörum. Jeg reis þá öndverður á móti öllum þessum frv. og mótmælti þeim eins fastlega og mjer var unt, og ef hv. 5. landsk. vill seinna, er hann hefir fengið betra tóm til, kíkja ofurlítið betur í þessa ,,fortíð“ mína, getur hann hvergi fundið þar eitt orð í ræðum mínum, sem stefnt hafi verið móti frjálsri verslun. Jeg stend því á mjög föstum grundvelli í þessu máli.

Þá skal jeg víkja nokkrum orðum að því ímyndaða broti mínu gegn lögmáli frjálsrar verslunar, sem hv. þm. (JJ) talaði um. Það var alveg satt, að jeg samþykti, að samverkamaður minn í stjórninni (KlJ) framkvæmdi samkv. heimild í gildandi lögum einkasölu á steinolíu. Honum, sem þá var atvrh., var falin öll framkvæmd í málinu, enda var jeg þá erlendis. En það er augljóst, að þetta var ekkert brot á móti frjálsri verslun eins og þá stóð á. Steinolíuverslunin var öll í höndum hrings eins, sem hafði gert öflugar tilraunir til að útiloka alla frjálsa samkepni; og þegar svo er ástatt, er þó að mínu áliti skárri ríkiseinokun en einokun erlends verslunarhrings. Jeg þykist því hafa sýnt fram á, að afstaða mín til steinolínverslunarinnar var ekkert brot á frjálsri verslun, heldur var það aðeins um val að ræða milli erlendrar einokunar eða ríkiseinokunar, og þá er enginn vandi að velja.

Þá kem jeg að hinu atriðinu, þar sem jeg á að hafa brotið á móti lögmáli frjálsrar verslunar með ýmsum stríðsráðstöfunum, sem jeg hafi gert, er jeg var í stjórn, er ekki sjeu í samræmi við frjálsa verslun. En þessar ráðstafanir voru nauðungarráðstafanir, sem svo að segja alstaðar varð að grípa til af því heimurinn fór úr skorðum. Þannig má t. d. benda á, að seðlar voru hjer eins og nær alstaðar annarsstaðar gerðir óinnleysanlegir. (JJ: Þetta stendur enn). Já, að vísu stendur þetta enn hjer, en sumstaðar, t. d. á Englandi, Hollandi og í Svíþjóð, eru nú seðlarnir gerðir innleysanlegir.

Þá hlýtur hv. þm. að reka minni til, að vegna samgönguteppu, er stafaði af stríðinu, þá varð ríkið bæði hjer og annarsstaðar að taka á sínar herðar kaup á ýmsum nauðsynjavörum. Erfiðleikarnir og áhættan við að ná í þessar vörur voru svo miklar stundum, að einstaklingarnir rjeðu ekki við. Hjer er því ekki um neitt brot á frjálsri verslun að ræða.

Þá er það vínverslun ríkisins. Jeg er ekki í minsta vafa, að það mundi græðast meira á vínversluninni, ef hún væri gerð frjáls. En það eru sjerstakar ástæður til þess, að ríkinu var fengin sú verslun, nefnilega sú, að tilætlunin var að koma í veg fyrir alt of mikinn vínaustur. Ríkinu var fengin verslunin með tilliti til bannmálsins.

Þá held jeg, að jeg hafi sýnt rækilega, að jeg hafi ekki brotið á móti lögmáli frjálsrar verslunar.

Steinolíuverslunin var einokuð af erlendum hring. Ríkiseinkasalan á henni, sem sett var á fót í minni stjórnartíð, var betri en hringeinokun. Stríðsráðstafanirnar í verslunarmálunum voru nauðungarráðstafanir og ríkiseinkasala á víni var gerð til þess að takmarka vínausturinn.

Jeg þakka hv. 5. landsk. (JJ) hinn fræðandi fyrirlestur hans um „free trade“, en svo stendur á fyrir mjer, að jeg hafði minni þörf fyrir þennan vísdóm en hann hefir ætlað, þar sem jeg var einmitt staddur í Englandi, er síðustu kosningar fóru þar fram, og þá var þar barist um þetta mál, og fjekk jeg því nokkra hugmynd um það þar, hvað „free trade“ var, og því hefði háttv. þm. vel getað sparað sjer þetta erfiði. Hjer í landi er töluð íslenska, og má gera ráð fyrir, að svo verði og framvegis; er því óþarfi að innleiða í íslensk stjórnmál erlend orð. Jeg hygg og, að nær hvert mannsbarn á landinu viti vel, við hvað er átt með frjálsri verslun. Einkasala eða einokun eru og orð, sem helgast af fastri málvenju, og er heldur ekki þörf að breyta þar um. Það var alls ekki af því, að jeg væri að bekkjast neitt til við Framsóknarflokkinn, þó að jeg bæði hv. 5. landsk. (JJ) um yfirlýsingu um stefnu flokks síns í verslunarmálum. Það var aðeins af veldvild einni saman, sem jeg spurði um þetta, og nú kemur það á daginn, ef jeg hefi skilið rjett orð háttv. þm., að Framsóknarflokkurinn stendur á grundvelli frjálsrar verslunar. Samkvæmt þessu verður að skoða aðstöðuna í tóbakseinkasölunni sem einkonar meinloku, og má því fremur veita syndakvittun fyrir hana að fenginni þessari almennu yfirlýsingu. Þá voru það aðeins fáein orð, sem jeg þarf enn að svara hv. 1. þm. Eyf. (EÁ). Hann talaði um það, að ef hætta gæti stafað ríkinu af einkasölufyrirkomulaginu, væri sú hætta jafnt yfirvofandi, þó að verslunin væri gefin frjáls, því hún gæti vel komist á eins eða þá fárra manna hendur. Að verslunin, ef hún er að lögum frjáls, geti komist á eins manns hendur, tel jeg lítt mögulegt, en auðvitað geta myndast hringar, en á því hefir lítið borið í voru þjóðfjelagi. Þann skratta sýnist því nú eins og stendur ekki vera sjerstök ástæða til að mála á vegginn. Annars virðast mjer yfirburðir hinnar frjálsu verslunar auðsæir. Verslunin sækir þangað, sem vörurnar eru bestar og verðið lægst, eins og vatnið rennur eftir hallanum. Ef því samvinnufjelögin hjer geta í reyndinni sýnt, að betra sje að versla við þau en kaupmennina, þá fer verslunin frá kaupmönnunum til þeirra. Þess vegna virðist mjer engin nauðsyn á pólitískum deilum milli kaupmanna og samvinnufjelaga. Á milli þeirra er aðeins eðlilegt kappið um, hver verslar betur. Og það kapp er holt fyrir þjóðina.

Jeg hefi ekki meiru að svara. Jeg vona, að jeg hafi skilið hv. þm. (JJ) rjett, að hans flokkur stæði á grundvelli frjálsrar verslunar. En auðvitað ætti hann þá að vera á móti tóbakseinkasölunni. En um vínföngin er öðru máli að gegna. Þar er ríkið látið hafa verslunina með höndum til þess að hindra of mikinn vínaustur. Það var nauðsyn að takmarka austurinn sem mest, og þess vegna studdi jeg það mál, að svo væri fyrir komið.