09.05.1925
Efri deild: 73. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 3158 í B-deild Alþingistíðinda. (1923)

50. mál, tollalög

Frsm. meiri hl. (Jóhann Jósefsson):

Hv. þm. A.-Húnv. (GÓ) mintist á mál, sem Íhaldsmenn hefðu hindrað í fyrra. Hann er minnugur þess máls, en jeg vildi þá minna hann á, hverjir fleyguðu málið, svo að það gat ekki náð samþykki deildarinnar. Það voru ekki Íhaldsmenn.

Hv. frsm. minni hl. (JJ) fór mörgum orðum um, að jeg hefði leitt hjá mjer að minnast á tóbaksbirgðirnar, sem til voru, þegar einkasalan tók við. Það var vitanlegt, að nokkrar birgðir voru til, en verslunin tók þær og seldi með ágóða.

Þegar litið er á skýrslu um innflutning árin, sem landsverslunin hefir einokun, þá sjest, að 1923 er nákvæmlega sami innflutningur- og síðara árið hafði verið. Tegundirnar eru dálítið frábrugðnar, en meðaltalið hið sama. Nú er það vitanlegt, að 1923 var ágóðinn 200 þús. kr. En síðara árið er hann 350 þús. kr. Eru það venjulegar ástæður, sem þá ráða? Nei, það er gengishagnaður. Hann verður ekki hvert ár.

Hv. 1. þm. Eyf. (EÁ) talaði um einokun ríkis og taldi þær kvaðir á versluninni samskonar og toll. Tollur er alt annars eðlis. Einokun er ekki kvöð; hún er bann á frjálsri verslun. En tollur er það ekki; hann kemur ekki í bága við samkepnina.

Þá kom hv. 5. landsk. (JJ) með loðna yfirlýsingu um það, að flokkur hans stæði á grundvelli frjálsrar verslunar, en jafnaðarmenn vildu ríkisverslun. Mjer finst nú stundum örðugt að segja, hvor meiru ræður í hv. þm., sósíalistinn eða framsóknarmaðurinn. Mjer er nær að halda jafnaðarmaðurinn.

Í nál. meiri hl. er tekið fram, að það sje sitthvað að einoka vörur, sem mikil vandkvæði eru á að versla með, t. d. steinolíu, heldur en vörur, sem ekkert sjerstaklega stendur á með, t. d. tóbak. Hv. þm. (JJ) talaði enn um „free trade“. Jeg er hissa, að hann skuli vera að blanda þessu sjerstaka enska hugtaki inn í þetta mál. Hann veit, að þetta á við sjerstakt ástand. Þeir, sem berjast móti verndartollum, eru kallaðir að fylgja „free trade“. Á Englandi er ekkert ástand til sambærilegt við tóbakseinkasöluna. Verndartollastefnan er komin upp til þess að vernda iðnaðinn og gera útlendum vörum erfitt fyrir á breskum markaði. Hv. þm. veit, að frjáls verslun er alt annað en „free trade“. Tollar fara ekkert í bága við hana. Þeir, sem börðust fyrir frjálsri verslun hjer á landi, börðust ekki móti tollum, heldur einokun. Verslunin varð frjáls. Nú er ný einokunarstefna hafin, sú, að ríkið hafi verslunina, en hún brýtur eins í bága við frjálsa verslun og hver önnur einokun. Verslunin getur ekki lengur talist frjáls, þegar farið er að koma í veg fyrir frjálsa samkepni. Það er heldur ekki rjett, sem hv. þm. (JJ) vildi halda fram, að enska hugtakið „free trade“ hafi verið misnotað. Annars má segja, að svo margar og ólíkar skoðanir á verslunareinokun hafi komið fram í umræðunum hjá hv. þm. Framsóknarflokksins, að vonlegt er, að þeir sjeu farnir æðimikið að ruglast í hugtökunum og málinu öllu, eins og líka hv. þm. A.-Húnv. (GÓ) kvartaði yfir.