09.05.1925
Efri deild: 73. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 3160 í B-deild Alþingistíðinda. (1924)

50. mál, tollalög

Guðmundur Ólafsson:

Hv. frsm. meiri hl. (JJós) svaraði því, sem jeg hafði sagt um annað frv., sem raunar kom ekki þessu máli beint við, að það hefði verið búið að gera það svo úr garði, að ekki hefði verið hægt að samþykkja það. En mjer finst hann hafi verið orðinn harla vitur, hv. þm., strax á fyrsta þinginu, sem hann sat, þegar hann treysti sjer ekki til að samþykkja umrætt frv., þó bæði forseti hv. deildar og forsætisráðherra væru því fylgjandi. En það átti nú ekki að liggja fyrir frv. að verða að lögum. Mun Íhaldsflokkurinn hafa haft illan geig af nýjum kosningum, og því ekki þorað að sleppa frv. til háttv. neðri deildar.

Hv. frsm. (JJós) talaði um grundvöll Framsóknarflokksins og taldi hann harla ólíkan grundvelli þeim, sem Íhaldsflokkurinn bygði á. En ætli munurinn sje eins mikill og hann vildi vera láta? Allir þekkja aðstöðu hæstv. atvrh. (MG) í þessu tóbaksmáli. Mjer þykir ekki ólíklegt, að einhverjir háttv. flokksbræður hans sjeu sömu skoðunar, þegar alt kemur til alls. Þeir hafa bara látið kúgast nú — eins og hæstv. atvrh. (MG) — að líkindum vegna loforða sinna við síðustu kosningar.