11.05.1925
Efri deild: 74. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 3173 í B-deild Alþingistíðinda. (1928)

50. mál, tollalög

Sigurður Eggerz:

Nokkur orð út af ræðu hv. 5. landsk. (JJ). Jeg skil ekki. hvernig hann getur haft á móti því að nota orðin „frjáls verslu“. Það er ómótmælanlegt, að þau eru viðurkend í málinu.

Jeg ætla hjer ekki að fara að tala um sykurmálið. Þar var um að ræða of hátt verð á þeirri vöru, og svo kom pólitískur blástur í það mál, og kemur það ekkert þessu máli við. Þá talaði þessi hv. þm. um það, að jeg hefði sent Hermóð til Ameríku. Það er öldungis rjett. Þá var ófriðurinn skollinn á og jeg áleit nauðsynlegt að fá sem best sambönd, en einstakir menn treystust ekki til þess, og varð þá stjórnin að taka það í sínar hendur. Þetta var nauðsynleg ráðstöfun vegna styrjaldarinnar miklu.

Eins og hæstv. forsrh. (JM) sagði, er einkasala höfð á vínum einungis til að draga úr ofdrykkju í landinu, og ef svo væri ekki, myndi jeg eindregið vera á móti þeirri einkasölu. (JJ: Tóbakseinkasalan er vegna ríkissjóðs). Einmitt þvert á móti. Það er einmitt vegna ríkissjóðs, sem þarf að afnema tóbakseinkasöluna.

Hv. 5. landsk. var í sambandi við þetta mál að tala um eið í barnsfaðernismálum. Jeg get nú sem fyrverandi dómari sagt honum það, að þar sem viðurkent er, hver er faðir barnsins, þá þarf ekki að halda á eiðnum. Afstaða mín í máli þessu er mjög skýr, enda hefi jeg ekki þurft að halda klukkustundarræðu til að vefja og fela aðstöðu mína. Hv. 5. landsk. hefir hvað eftir annað sagt, að hann stæði á grundvelli hinnar frjálsu verslunar. Hann ætti því ekki að standa hjer með grátkökk í hálsinum yfir þessum einokunarkróga, og það því síður, sem hann er ekki faðir barnsins.