11.05.1925
Efri deild: 74. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 3174 í B-deild Alþingistíðinda. (1930)

50. mál, tollalög

Frsm. minni hl. (Jónas Jónsson):

Hæstv. forsrh, hefir svift svo rækilega af sjer hulunni, að málið liggur mjög ljóst fyrir. Hann hefir játað, að er hann ljet af völdum eftir langa stjórn 1922, hafi flokksmenn sínir látið í jós, að hann hafi tapað trausti vegna stefnu sinnar í verslunarmálum. Hann hafði þá verið fylgjandi höftum og landsverslun í margskonar myndum og með margskonar vörur, en skildi meðráðherra sína eftir í vandræðum, er á móti bljes. Hann dumpaði í bili, en vissi, að „altaf má fá annað skip og annað föruneyti“ — og fjekk það líka hjá útlendum og innlendum milliliðum.

Hæstv. ráðh. (JM) sagði, að það væri ósamræmi að vilja hækka dýrtíðaruppbót sveitapresta, en þó ekki fylgja stofnun nýrra brauða. Það er alveg rjett, að jeg er því andstæður. Hann dró og fylgi mitt við skiftingu Ísafjarðarprestakalls inn í umræðurnar. Ef hann vill lesa nál., mun hann sjá, að enda þótt hv. þm. Seyðf. (JóhJóh) væri einnig „principielt“ á móti fjölgun prestakalla, þá vildum við þó hvorugur vera svo strangir í því stefnumáli, að presturinn á Ísafirði yrði drepinn fyrir þá sök. Það mál var alt annað en að stofna alóþarft prestsembætti uppi í Mosfellssveit, eins og hæstv. ráðh. vildi gera í hitteðfyrra.

Alt það, sem hæstv. ráðh. (JM) sagði um stefnu Adams Smith’s í tollmálum, var hið fáránlegasta rugl. Eins og kunnugt er, hafa allir eftirmenn hans barist á móti tollum. En þetta kemur að vísu ekki við máli því, er hjer liggur fyrir. En staðhæfingar hæstv. forsrh. (JM) um þetta atriði voru slíkar, að fábjánar einir geta haldið slíku fram. Vægasta skýringin á framkomu hæstv. ráðh. (JM) er sú, að hann sje að ganga í barndómi aftur.

Jeg hefi áður svarað rökum eða rakaleysum hv. frsm. meiri hl. (JJós), svo að hann hefir ekki yfir neinu að kvarta. En viðvíkjandi ræðu hv. 1. landsk. get jeg sagt honum það, að í þessu máli hefi jeg fylgt fyrirkomulagi, sem ráðherra úr öðrum flokki hefir komið á. En sjálfur hefir hv. 1. landsk. verið á tveimur fyrri stigum verslunarmálsins, móti landsverslun og með landsverslun að nokkru leyti. En það mundi vera vandalaust að fá hann til að hoppa upp á þriðja þrepið, allsherjar landsverslun. Til að svo yrði þyrfti hann aðeins að frjetta alstaðar úti í bæ, að kjósendur vildu hafa það verslunarform.