14.04.1925
Neðri deild: 55. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 3185 í B-deild Alþingistíðinda. (1961)

111. mál, útvarp

Flm. (Jakob Möller):

Þetta mál er ekki ókunnugt þessari hv. deild, því jeg bar fram á síðasta þingi frv. um sama efni, enda þótt þetta frv. sje nú breytt frá því í fyrra í einstöku atriðum. Aðalmismunurinn er nú sá, að í fyrra var umsækjandinn aðeins einn maður, en nú eru það fleiri í fjelagi, og alt þektir menn. Annars veit jeg, að það mun óþarft að lýsa þessu máli með mörgum orðum, því öllum hlýtur að skiljast, hvílíkt menningarmál hjer er um að ræða. Aðeins skal jeg geta þess, að nú er útvarp starfrækt í allflestum menningarlöndum álfunnar og úti um allan heim, er siðaðir menn byggja, og er þetta alstaðar talið vera mikið menningaratriði. En hjer getur þetta haft sjerstaka þýðingu fyrir okkar þjóð, þar sem útvarp gæti vel komið í veg fyrir slys á sjó. Það, sem helst væri nú ástæða til að taka til athugunar, er það, hvort sú leið, sem hjer er lagt til að verði farin, sje sú heppilegasta, eða hvaða leið skuli farin. Í flestum löndum, þar sem útvarp er starfrækt, er það rekið á þennan hátt, sem frv. leggur til, fjelögum einstakra manna gefið einkaleyfi til útvarpsrekstrar. Það eru líklega 1—2 lönd, þar sem öllum er frjálst að afla sjer tækja til þess að njóta útvarps, en það fyrirkomulag getur ekki átt við hjer. Það er aðallega í Bandaríkjunum í Norður-Ameríku, sem þetta er öllum frjálst og litlum reglum bundið, enda er það þar og á Englandi, sem þessi tæki eru búin til, og hafa því framleiðendur þeirra næstum því sömu tekjur af þessu, þó ekki hafi þeir einkarjett á útvarpi, og þó er þetta fyrirkomulag ekki talið geta haldist þar lengi til frambúðar. Að ríkið hjer hafi sjálft þennan einkarjett, er í svipinn ekki árennilegt, af fjárhagsástæðum, því að það mun kosta mikið fje að koma þessu á fót, líklega ekki minna en 100—200 þús. kr. Hinsvegar er auðvelt að búa svo um hnútana, að ríkið taki við þessu fyrir sannvirði er um semur. Frv. gerir ráð fyrir, að þetta sjerleyfi standi í 10 ár, og geri jeg vart ráð fyrir, að ríkið taki við því þá þegar, að þeim tíma liðnum; því þetta er mjög ung uppfundning, aðeins ca. 5 ára gömul, og má því gera ráð fyrir, að ófært þyki að gera það bráðlega að ríkiseinokun, meðan þetta er ekki eldra og reynsla vart næg fengin á þessari aðferð, sem nú er notuð; en þar má vænta ýmsra endurbóta, er tímar líða fram. Jeg hika ekki við að mæla með því, að sjerleyfi verði veitt fjelagi því, sem hjer ræðir um. Það er að vísu svo, að andróðurs hefir orðið vart móti útvarpssjerleyfinu, en það er mestmegnis frá þeim einum, sem þegar hafa eignast tæki til að hlusta á útvarp. En þó að gera megi ráð fyrir, að einhver skattur verði lagður á þessa menn eða tæki þeirra, má alls ekki hika við þetta vegna hagsmuna einstakra og örfárra manna, þegar hagsmunir allrar ríkisheildarinnar eru annarsvegar. Enda færi það svo, að þó að nokkrir einstakir mann fengju sjer tæki til að hlusta á útvarp, yrði það aldrei nema í fárra höndum og gæti því ekki haft neina menningarlega þýðingu fyrir þjóðfjelag okkar. En yrði útvarpsstöð komið á fót hjer á landi, þá mundi það frekar koma að gagni öllum almenningi og hafa þýðingu sem menningarmeðal, því þetta má nota við allskonar fræðslu innanlands. Þetta verður ekki aðeins til skemtunar, heldur einnig til nytsemdar. Jeg sje ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta, en vænti þess, að hv. deild samþykki frv. til 2. umr. og vísi því til nefndar. Eins og jeg gat um áðan, er þetta mál nú öllu betur athugað og undirbúið en það var í fyrra, er það kom hjer inn á þing. Það hefir t. d. verið leitað álits landssímastjóra um það, og mælir hann nú með því, að þessu verði komið í framkvæmd. Í fyrra treystist hann ekki til að mæla með þessu máli, því að þá kvaðst hann ekki hafa haft tækifæri til að athuga það nánar; en nú hefir hann kynt sjer það til hlítar og mælir með því.

Þá er að athuga, til hvaða nefndar þetta mál skuli fara. Það var í fyrra hjá allshn. og hefir sú hin sama nefnd einnig athugað þetta mál nú að nokkru, en treystist þó ekki til að flytja þetta frv. Hinsvegar væri ekki úr vegi, þó að einhverjar fleiri nefndir fengju þetta mál til athugunar. Það gæti t. d. vel komið til mála, að frv. færi til sjútvn., því það ætti að verða nefndinni hin sterkasta hvöt til þess að draga ekki að greiða fyrir því, að útvarpsstöð komist hjer upp sem allra fyrst, vegna viðhorfs þessa máls gegn sjávarútveginum. Jeg lít svo á, að þeir menn, sem bera hag sjávarútvegsins fyrir brjósti, eigi að taka ábyrgð á því, að þetta mál verði ekki stöðvað, og ættu þeir að láta flýta sem mest öllum undirbúningi þessa máls. Jeg geri því að till. minni, að frv. verði vísað til sjútvn.