14.04.1925
Neðri deild: 55. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 3188 í B-deild Alþingistíðinda. (1962)

111. mál, útvarp

Atvinnumálaráðherra (MG):

Það er leitt, að þetta mál, sem lá hjer fyrir á síðasta þingi, kom ekki fyr fram í þetta sinn, því nú er hætta á, að málið dagi uppi, vegna þess hve áliðið er þingtímans. Þetta mál er nú betur undirbúið en það var i fyrra. Í þetta sinn hefir verið leitað álits landssímastjóra, og er hann því meðmæltur, að þetta sjerleyfi verði veitt. Hann hefir sagt við mig, að hann hafi ekki á móti þessu sjerleyfi, en þó er frv. í sumum atriðum breytt frá því, sem hann hafði gert tillögur um. T. d. hafði hann lagt til, að sjerleyfið stæði ekki nema 5 ár, en þessu er breytt í frv., og er þar gert ráð fyrir, að tímalengdin verði 10 ár. Er þetta fulllangur tími, einkum þegar litið er til framfara þeirra, er orðið hafa á útvarpsaðferðunum hin síðustu árin og halda enn áfram. En jeg býst við, að það mætti takast að finna einhvern meðalveg, t. d. 7 ár, sem sjerleyfið stæði. Jeg hefi talað við einn mann, sem verður í þessu fjelagi, og gerði hann sig ánægðan með 7 ára sjerleyfistíma. Þá er og annað, sem jeg vildi leiða athygli að í þessu sambandi, og það er, að sjerleyfið er bundið við nöfn, en vitanlega gæti komið til mála að fella þetta burtu. Þess get jeg þó ekki ráðið til, því að vegna þegar gerðs undirbúnings tel jeg ekki líkur á, að aðrir menn en þeir, sem frv. nefnir, yrðu fyrri til að hrinda málinu í framkvæmd. Svo vil jeg taka það fram, að þó að þetta frv. verði samþykt, hvort heldur óbreyft eins og það er nú, eða með einhverjum breytingum, mun stjórnin telja sjer heimilt að setja einhver frekari skilyrði fyrir veitingu sjerleyfisins; t. d. að það væri hjer til maður með fullum kunnugleika og þekkingu til þess að gera við þessi tæki öll, ef þau bila, og bæri hann svo ,,moralska“ ábyrgð á því, að fyrirtæki þetta færi ekki í handaskolum. Það má vera, að til sje hjer einn maður, sem væri fær um þetta og hefði næga þekkingu til að bera á þessu sviði, en mjer er þó ekki fullkunnugt um það.

Hv. flm. (JakM) stakk upp á að vísa málinu til sjútvn. Það er undarlegt, þar sem þetta snertir ekki þá nefnd fremur en t. d. allshn. Hún hefir líka haft málið til meðferðar áður. Jeg legg það til, að málinu sje vísað til hennar, en geri það annars ekki að kappsmáli.