14.04.1925
Neðri deild: 55. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 3189 í B-deild Alþingistíðinda. (1964)

111. mál, útvarp

Flm. (Jakob Möller):

Jeg skal taka það fram, að þó sett sje 10 ára tímabil í frv., þá er það ekkert „absolut“ skilyrði, að svo sje samþykt. En framkvæmdin verður erfiðari, ef tíminn er styttri en t. d. 5 ár. Og mjer finst það ekki skifta miklu máli fyrir ríkið, hvort það er 5 eða 10 ár, því hvorttveggja er stutt.

Hæstv. atvrh. (MG) sagðist heldur vilja ákveða stjórninni heimild til þess að veita öðrum leyfi, ef betra byðist. Mjer finst, að í nöfnum þeim, sem í frv. eru, sje nokkur trygging og að ekki sje ástæða til að skifta að óreyndu. Þetta atriði kemur til athugunar í nefnd, eins og margt annað.

Viðvíkjandi því, er hæstv. fjrh. (JÞ) sagði um varpvídd, þá skal jeg geta þessa: Hún er ekki sett hærri vegna þess, að það er órannsakað, hvort betra er að hafa hjer eina stöð stóra eða fleiri smærri, vegna erfiðleika á útvarpi yfir þetta land. Jeg dæmi ekki um þá hlið málsins. Það kemur til nefndar og þeirrar stjórnar, er um málið semur.

Jeg geri það ekki að kappsmáli, hvert þessu skuli vísa. Málið hefir verið í allshn. og hún hefir aflað þeirra upplýsinga, sem sjálfsagt var. En ástæðan til þess, að jeg stakk upp á sjútvn., er sú, að á henni skellur ábyrgðin, ef þetta nær ekki að ganga fram á þessu þingi. Jeg veit, að málið kemur seint. En jeg beið þess, að nefnd tæki það til flutnings. Annars hefir þessi tími ekki farið til ónýtis, því að málið hefir verið rannsakað nokkuð.