14.04.1925
Neðri deild: 55. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 3194 í B-deild Alþingistíðinda. (1970)

111. mál, útvarp

Atvinnumálaráðherra (MG):

Ákvæðið, sem hjer er tekið upp í 3. lið, er tekið í þeim tilgangi að fyrirbyggja, að fjelagið græði of mikið. Milli mín og landssímastjóra var talað um, að hæfilegur gróði mundi vera 10% af hlutafjenu. Ef það þykir of hátt, þá má bæta úr því í nefnd. Annars finst mjer best að láta þetta vera á valdi stjórnarinnar. En mjer finst ekki of mikið, þó að hluthafar fengju svo sem 8—10% þennan stutta tíma, sem sjerleyfið stendur. Og þó stjórnarskifti verði, sem altaf getur komið fyrir, þá hefir þó landssímastjórinn hönd í bagga með þessu.