29.04.1925
Efri deild: 63. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 930 í B-deild Alþingistíðinda. (198)

1. mál, fjárlög 1926

Einar Árnason:

Jeg þarf aðeins að gera stutta athugasemd út af tveimur atriðum í ræðu hv. frsm. (JóhJóh) um styrk til Mjallar í Borgarfirði. Hv. frsm. gat þess, að framleiðslan hjá fjelaginu hefði verið gölluð. Jeg hefi leitað mjer upplýsinga um þetta mál síðan í gær. Það er rjett hjá háttv. frsm., að í byrjun urðu nokkrar misfellur á niðursuðunni hjá Mjöll. En orsökin var sú, að byrjað var á að nota mótor, en ekki gufuvjel. En þar sem hitastig mjólkurinnar má ekki breytast á meðan á niðursuðunni stendur, en mótorinn hinsvegar reyndist ótryggur, varð afleiðingin sú, að fram kom súr í mjólkinni. Vjelin, sem loka átti dósunum, reyndist einnig dálítið gölluð. Nú hefir verið bætt úr þessu hvorutveggja, fengin ný vjel til þess að loka dósunum og gufuvjel í stað mótorsins. Síðan hefir alt gengið vel. Jeg vil benda á í þessu sambandi grein, sem kom í Morgunblaðinu í morgun. Hún er skrifuð af manni, sem hefir gott vit á þessu máli. Hann tekur fram, að gallar þeir, sem fyrst hafi verið á niðursuðunni, sjeu nú horfnir. Hann mælir með mjólkinni og hvetur menn til þess að kaupa hana fremur en útlenda mjólk.

Þá mintist háttv. frsm. á, að verð það, sem bændurnir fá fyrir mjólkina, mundi vera óþarflega hátt. Það er þó meira en helmingi lægra en mjólkurverð hjer í Reykjavík. Jeg þykist vita, að bændurnir hafi reynslu fyrir því, að þetta verð sje hægt að hafa upp úr mjólkinni með því að breyta henni í skyr og smjör.

Jeg þarf ekki að fara um þetta fleiri orðum. Vildi ekki láta því ómótmælt, að þessi framleiðsla væri nú gölluð.