01.05.1925
Neðri deild: 69. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 3219 í B-deild Alþingistíðinda. (1985)

111. mál, útvarp

Atvinnumálaráðherra (MG):

Hv. frsm. (JBald) mintist á árgjaldið, sem notendur útvarpsins verða að greiða, og fór fram á, að það yrði haft sem lægst. Það er gefið, að það verður reynt, en taka verður tillit til þess, að það verður að vera hærra hjer á landi en annarsstaðar. Það er munur hjer eða í London, þar sem eitt slíkt fjelag hefir 1 miljón áskrifenda, en hjer á landi mætti kannske búast við 1 þúsundi. En samkvæmt heimild þeirri, er frv. gefur, býst jeg við, að það verði líka reiknað út, hve mikið leyfishafar þurfa að fá, og sett ákvæði um það, að gjaldskráin skuli endurskoðast eftir því sem reynslan kann að sýna. En það verður að ætlast til þess, að hluthafar fái sæmilega vexti af fje sínu og sæmilega borgun fyrir starf sitt.

Jeg kannast ekki við að hafa lagt það til við 1. umr., að nöfn leyfishafa væru tekin út úr frv. Jeg vjek að því, að það gæti komið til mála, en rjeði frá því, vegna þess, hve mikið þeir hefðu unnið fyrir málið. Og jeg lít svo á, að rjett sje, að þeir geri samninga við hin erlendu firmu áður en sjerleyfi er veitt. Auðvitað mætti líka veita sjerleyfið fyrst og setja svo gjaldskrána á eftir, en jeg hygg hitt betra. Leyfisbeiðendur hafa haldið því fram, að þeir mundu geta sett útlendingum stólinn fyrir dyrnar með verð á móttökutækjum, ef þeir gætu sýnt, að þeir hefðu einkaleyfi, og þess vegna yrðu þau ódýrari; að öðrum kosti gætu útlendingar snúið sjer til annara og fengið þá til að ganga inn á verri samninga.

Þar sem stendur í frv., að stöðin skuli hafa 150 km. radíus að minsta kosti, þá má eftir orðalaginu heimta það, að stöðin varpi svo langt, sem þörf er á, þó ekki minna en 150 km. Þessu er svo fyrir komið í frv. af því, að óvíst þótti, hvort betra væri að hafá eina eða tvær stöðvar á landinu.

Það er rjett hjá hv. frsm. (JBald), að eftir því sem stöðin sjálf er sterkari, eftir því verða móttökutækin ódýrari. En þá verður líka stöðin miklu dýrari, og verður að meta það hvorttveggja, því að það er rjett, sem hv. 3. þm. Reykv. (JakM) sagði, að af stærri stöð leiðir það, að árgjald verður að vera hærra.

Jeg býst við, að útvarpsstöðin fái ekki að starfa nema á vissum tíma dags, sem sje þegar hún getur ekki truflað loftskeytastöðina. En það getur verið, að loftskeytastöðinni verði breytt síðar, svo að þetta valdi ekki truflun.

Hv. frsm. (JBald) talaði um framsal sjerleyfis og var illa við það, en framsal er háð samþykki stjórnarinnar, svo að mjer finst ekki hætta á, að það verði notað til að okra á því.