01.05.1925
Neðri deild: 69. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 3227 í B-deild Alþingistíðinda. (1989)

111. mál, útvarp

Magnús Torfason:

Jeg hefi ekkert vald til þess að taka till. aftur; það var ekkert talað um það á nefndarfundi í morgun, og hv. frsm. (JBald) er ekki við, sem ræður mestu um þetta. Hv. 3. þm. Reykv. (JakM) talaði um, að það þyrfti að forðast þessa truflun á sendingu skeyta, og þess vegna þyrfti fjelagið að ráða yfir því, hvaða tæki yrðu notuð. Jeg get ekki sjeð, að það þurfi nokkra einokun þess vegna; það var einmitt meiningin hjá okkur, að hæstv. atvrh. yrði skylt að láta vinna að samningu þessarar reglugerðar, og það var álitið hjá okkur, að það þyrfti að setja ákvæði um fleira en það, sem í frv. stendur. Og hvað tækin snertir, þá get jeg ekki annað sjeð en að hæstv. atvrh. geti áskilið sjer að þurfa að samþykkja, hvaða tæki megi nota, svo að hver, sem ætlar að fá sjer tæki, þarf að fá sjer vitneskju um það, hvaða tæki hann má nota, ef það er ekki beint auglýst, og yfirleitt, hvað þetta snertir, líka það, hvort hæstv. atvrh. (MG) má gefa leyfið áður en samningarnir við útlendu fjelögin yrðu gerðir. Álit nefndarinnar skyldi vera óákveðið um þetta; okkur finst að vanti svo tilfinnanlega kunnugleika á þessu í landinu, að við megum til með að láta hæstv. atvrh. ráða þessu.

Það er náttúrlega ekki nema satt, að það er gott að hafa sem lægst árgjöld, en það er þá líka það að athuga, að Reykjavík myndi hafa aðalgagnið af því, en þeir, sem fjær eru, síður. En hvað snertir kunnáttu í þessu máli, þá veit jeg ekki betur en að deilur sjeu um það meðal loftskeytamannanna sjálfra, bæði um það, hvaða tæki skuli nota, og eins um það, hve sterk stöðin skuli vera.