04.05.1925
Neðri deild: 71. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 3230 í B-deild Alþingistíðinda. (1993)

111. mál, útvarp

Ásgeir Ásgeirsson:

Jeg hefi flutt nokkrar brtt. við þetta frv., á þskj. 444. Fyrsta brtt. mín fer í þá átt, að í stað þess, að nú er ákveðið, að afl stöðvarinnar skuli ekki verða minna en 1,5 kw. í loftnetið, komi: „alt að 1,5 kw. í loftnetið, enda dragi stöðin um land alt.“

Jeg sje nú, að hv. allshn. hefir flutt brtt., um að 1,1 kw. komi í stað 1,5 kw., en að öðru leyti sje greinin óbreytt.

Nú er það svo, að enginn hjer á landi getur með nokkurri vissu sagt, hversu sterkan straum þurfi til að stöðin geti dregið um land alt, og þess vegna vil jeg ekkert fullyrða um það atriði. Um hitt eru allir sammála, að stöðin eigi að draga yfir alt landið. Þetta er að vísu nokkuð ónákvæmt, því styrkleika stöðvarinnar þyrfti líka að miða við viðkvæmni móttökutækjanna, en um þessi efni er ekkert hægt að segja að svo komnu máli, og þess vegna hefi jeg orðað svo brtt. mína. Það verður að leggja í vald landsstjórnarinnar að kveða nánar á um afl stöðvarinnar í samráði við sjerfræðinga, og ætti það ekki að koma að sök. Till. hv. allshn. er ekki bygð á nægilega mikilli þekkingu, og er því ekki hægt að samþykkja hana, enda hefir enginn hjer á landi nægilega þekkingu á þessu atriði, eins og jeg hefi áður sagt. Sumir hafa látið í ljós, að 0,5 kw. styrkleiki mundi nægja stöðinni til að draga um alt land, aðrir segja, að 1 kw. muni þurfa til þess, o. s. frv. Í þessu máli er ekki hægt að byggja á fengnum upplýsingum, og því varlegast að ákveða styrkleikann ekki nánar en gert er í till. minni, en þó svo, að sá vilji Alþingis komi skýrt í ljós, að stöðin eigi að fullnægja öllu landinu, enda er venjulegt, þegar sjerleyfi eru veitt, að sjá hagsmunum alls landsins borgið, eftir því sem föng eru á.

Þá er 2. brtt. mín um að engin viðtökutæki sjeu undanþegin stofn- eða árgjaldi til sjerleyfisfjelagsins, önnur en þau, sem landsstjórnin notar í sína þjónustu. Í frv. eru nú t. d. öll skip, sem hafa loftskeytatæki, undanþegin þessum gjöldum, ef þau fá sjer útvarpsviðtökutæki. Skipin, t. d. togararnir, munu áreiðanlega færa sjer útvarpið í nyt, ekki síður en allur almenningur á landi, og hvers vegna skyldu þau þá ekki greiða sama gjald? Auk þess verður gjaldið undir öllum kringumstæðum svo lágt, að hvorki togara nje önnur skip skiftir nokkru, hvort þau verða að greiða það eða ekki. Það er og vafalaust, að útvarpsstöðin mun oft og tíðum starfa ekki hvað síst vegna skipanna, einkum togaranna, og er því síður sanngjarnt að undanþiggja þá gjaldinu. Þess verður vel að gæta að svifta fjelagið ekki tekjum um of. Það þarfnast töluverðra tekna til að byrja með, og er það landsmönnum í hag, að fjelagið hafi yfir sem mestu fje að ráða þegar í upphafi. Alkunnugt er, hversu mikið tjón landssíminn hefir beðið vegna þess eingöngu, að ekki var meira lagt í kostnað um leið og hann var stofnsettur. Þá var sparað um of og vegna þess þurfti að endurnýja mörg tæki símans hálfu fyr en ella, svo að sparnaðurinn varð minni þegar til kom.

Í frv. eru tryggingarákvæði gegn því, að sjerleyfisfjelagið verði gróðafjelag. Við 1. umr. lagði jeg áherslu á þetta atriði, og hæstv. atvrh. (MG) hefir tekið í sama streng og lýst yfir því, að hæstv. stjórn muni í reglugerð setja ákvæði um ágóða fjelagsins, og er jeg fyrir mitt leyti ánægður með þá yfirlýsingu. Það verður hvort eð er ekki hjá því komist, að hæstv. stjórn sjeu faldar ýmsar framkvæmdir í sambandi við þetta sjerleyfi. En þegar hagnaður hluthafa fjelagsins verður aldrei meiri en segjum 9—10%, þá er lítil hætta á öðru en að því fje, sem fjelaginu áskotnast, verði varið notendum útvarpsins til gagns. Jeg legg því mikið upp úr, að till. mín verði samþykt.

Ennfremur hefi jeg flutt brtt. þess efnis, að útvarpsfyrirtækið verði um óákveðinn tíma undanþegið skattgreiðslu, í stað þess að nú er í frv. ákvæði um 5 ára skattfrelsi. Það ákvæði er reyndar meiningarlaust eins og frv. er nú orðað, þar sem ekki er heimilt að veita sjerleyfið til lengri tíma en 5—7 ára. Ef leyfið væri veitt til 15 ára, eins og beðið var um í fyrstu, þá hefði e. t. v. verið vit í ákvæði um 5 ára skattfrelsi, en úr því sem komið er, er það meiningarlaust. En jeg flyt brtt. mína ekki eingöngu vegna þess, að jeg álít ákvæðið þýðingarlaust, heldur jafnframt vegna þess, að jeg vil, að það komi skýrt fram, einnig í þessu ákvæði, að hjer sje ekki um gróðafyrirtæki að ræða. Útvarpsfyrirtæki á ekki að greiða skatt, þar sem það á að reka með hagsmuni almennings og alþjóðargagn fyrir augum, en ekki sem gróðafyrirtæki. Um þetta fyrirtæki gegnir alt öðru máli en þegar sjerleyfi er veitt til járnvinslu úr sandi, eða einhvers þessháttar, þar sem ýmiskonar brask liggur á bak við. Hjer hafa menn engar stórgróðavonir bak við eyrað. Leyfisbeiðendum gengur til almennur áhugi á málinu, og annað ekki.

Jeg skal ekki fara fleiri orðum um brtt. mínar, en jeg vil einkum benda hæstv. stjórn á eitt atriði, sem ekki er drepið á í frv., en sem þó þarf að hafa í huga. þegar sjerleyfisreglugerðin verður sett. Það þarf að hafa eftirlit með því, hver „prógrömm“ útvarpsins verða, þegar til kemur. Að mínu viti er nauðsynlegt, að nefnd manna verði falið slíkt eftirlit, og má setja hjer að lútandi ákvæði í reglugerð. Útvarp, sem alment er notað, getur verið feikna máttugt, bæði til góðs og ills. En til þess að koma í veg fyrir hin verri áhrifin, er ekki nema sjálfsagt, að hinu opinbera verði heimiluð afskifti af „prógramminu“.

Að vísu er svo til ætlast, að útvarpið komi atvinnuvegum landsmanna, einkum sjávarútveginum, að liði. Í því sambandi er fyrst og fremst nefnd sending veðurskeyta. Því verður ekki mótmælt, að útvarpsstöðin geti komið að allmiklu liði í þessu efni, en þó því aðeins, að veðurskeytin verði ábyggileg og spádómunum treystandi, og að sjómennirnir fari þá eitthvað eftir þeim. En þó þetta sje alt saman gott og blessað, þá verður aðalverkefni útvarpsins samt að vinna í þjónustu menningarinnar, og þess vegna þarf eftirlit með starfsemi þess.

Jeg get hugsað mjer, að útvarpið muni fá alveg sjerstaka þýðingu fyrir alla hljómlist í landinu. Henni háir nú strjálbýli landsins og fámenni, en þegar hljómlistarmennirnir geta sungið og spilað fyrir alt landið í einu, þá bætir það mjög úr skák. Liggur því mikið við, að ekki verði „varpað út“ öðrum söng og hljóðfæraslætti en þeim, sem völ er á bestum, og ber nauðsyn til að hafa eftirlit með því. Að öðrum kosti er hætt við, að smekkur þjóðarinnar spillist í þessum efnum, og er þá nærri því ver farið en heima setið.

Eins er sjálfsagt, að skólar og kirkjur hafi sína fulltrúa í eftirlitsnefndinni. Annarsstaðar er útvarp notað mjög mikið í þágu skólanna. Eru fluttir fyrirlestrar um alla skapaða hluti, en auk þess er útvarp einmitt ágætlega fallið til málakenslu. Annars eru það einkum barnaskólar, sem færa sjer útvarpið í nyt, og þegar þess er gætt, að í hvert skifti, sem eitthvað er sent frá útvarpsstöð, eru áheyrendur að meira eða minna leyti börn og unglingar, þá er fullkomin ástæða til, að þjóðfjelagið hafi eftirlit með því, hvað sent er. Að því er kirkjuna snertir, má geta þess, að margir kvarta nú yfir því, að húslestrarnir gömlu eru að miklu leyti úr sögunni. og vilja fá nýja húslestrapostillu handa almenningi, ef vera mætti, að það gæti blásið nýju lífi í húslestrana. En hjer er hlutur, sem getur komið í stað postillunnar, sem aldrei kemur út. Sumir hafa vitanlega hneykslast á þessari hugsun, en jeg sje ekki, að til þess sje nokkur ástæða. Jeg fæ ekki sjeð, að nokkuð miður kristilegt sje við það, þó að guðsþjónusta verði flutt á útvarpsstöð á sunnudögum, er kæmi í stað húslestrapostillu. Það er ekki eingöngu ræðan, sem send verður, heldur einnig sálmasöngur, og er þá augljóst, hvílík áhrif þetta getur haft á heimilislíf manna.

Fleira þarf ekki að nefna til að sýna fram á, að ríkið á að hafa afskifti af „prógrammi“ útvarpsins.

En jeg vil nefna það, sem jeg hefi áður sagt í sambandi við annað mál, og sem þá þótti nokkuð háfleygt, að ágæti útvarpsins er ekki hvað síst í því fólgið að vernda og efla heimilislífið. Það er rjett að efla allan vjelaiðnað, sem miðar að því að halda fólkinu við vinnu á heimilum sínum. Útvarpið dregur menn ekki frá heimilunum, heldur flytur það skemtanir inn á heimilin. En þjóðfjelaginu er fyrir langbestu, að vinna fólksins og skemtanir geti sem mest farið fram á sjálfum heimilunum. Möguleikar útvarpsins eru yfirleitt svo miklir, að jeg er viss um, að fáir gera sjer það ljóst.

En vegna þess, að flestir munu vera sammála um, að rjett sje að byrja útvarp hjer á landi með sjerleyfisveitingu, þá vildi jeg beina þeirri áskorun til hæstv. atvrh. (MG), að hann leggi alt kapp á, að frv. þetta nái fram að ganga á þessu þingi.