04.05.1925
Neðri deild: 71. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 3237 í B-deild Alþingistíðinda. (1995)

111. mál, útvarp

Atvinnumálaráðherra (MG):

Jeg er hlyntur 1. brtt. hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) og mig undrar dálítið á því, að hv. nefnd skuli vera á móti því að láta stjórnina ráða orku stöðvarinnar og taka ákvörðun um hana í samráði við fagmenn í þessu efni. Jeg sje ekki, að það sje neitt verra að heimila, að stöðin hafi alt að 1,5 kw. en að fastákveða, að hún skuli ekki hafa minna en 1,1 kw. Eftir upplýsingum, sem jeg hefi fengið, þá sje jeg ekki annað en að 1 kw. myndi undir öllum kringumstæðum vera nægilegt, og jeg tel, að engin ástæða sje til að krefjast þess, að stöðin verði stærri en nauðsyn býður. Þess vegna felli jeg mig betur við till. hv. þm. V.-Ísf. Náttúrlega má altaf deila um það, hvort betra sje, að stöðin sje sterkari og viðtökutækin ódýrari, eða vice versa. Það er alveg órannsakað mál.

Aftur á móti get jeg ekki annað en verið hv. nefnd sammála um 2. brtt. hv. þm. (ÁÁ). Jeg sje ekki ástæðu til að láta þessa leyfishafa fá meira en þeir hafa óskað eftir, og þeir hafa ekki beðið um, að heilar loftskeytastöðvar greiði árgjöld. Jeg veit heldur ekki, hvort hægt er að leggja á skip að greiða þennan skatt, að minsta kosti þau, sem áður hafa aflað sjer tækjanna og fengið leyfi til að reka sínar loftskeytastöðvar skattfrjálst.

Um 3. brtt. hefi jeg lítið að segja. Mjer finst það skifta mjög litlu máli, hvort fjelögin eru skattfrjáls í 5 eða 7 ár. Leyfisbeiðendur fóru fram á að fá sjerleyfið til 10 ára og vera skattfrjálsir helming þess tíma. Þaðan er till. nefndarinnar runnin. Mjer stendur sem sagt nokkuð á sama um þetta; geri þó heldur ráð fyrir að greiða till. hv. þm. V.-Ísf. atkv. mitt.

Jeg skal athuga það, sem hv. þm. (ÁÁ) talaði um viðvíkjandi ,,prógrammi“ stöðvarinnar. Hitt, sem hann mintist á, að málinu yrði hraðað, get jeg ekki ráðið við; en jeg vil leggja með því. En það vil jeg að hv. þm. viti, að ekki er víst, að neinar framkvæmdir verði þó frv. verði að lögum. Leyfisbeiðendur eru óánægðir. Einn þeirra talaði seinast við mig í morgun og sagðist ekkert mundu eiga meira við þetta mál. En vitanlega geta aðrir komið í staðinn, þótt jeg sje efins um, að svo fari.