29.04.1925
Efri deild: 63. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 936 í B-deild Alþingistíðinda. (200)

1. mál, fjárlög 1926

Ingibjörg H. Bjarnason:

Það mætti nú segja, að það væri „að bera í bakkafullan lækinn“ að fara enn að minnast á Staðarfellsskólann væntanlega. En af því að jeg stend að brtt. á þskj. 408, þá þykir mjer hlýða að skýra lítilsháttar afstöðu mína til þessa máls.

Það var fyrst á þingi 1923, að þessu skólamáli var hreyft, en af því að það var þá svo illa undirbúið, gat jeg ekki ljeð því fylgi mitt. Á þinginu í fyrra var ekkert á málið minst. En nú á öndverðu þessu þingi bar hv. 5. landsk. (JJ) fram frv. þess efnis, að ríkið setji á stofn húsmæðraskóla á Staðarfelli, og var mentmn. þessarar hv. deildar fengið málið til meðferðar. Ekki hafði nefndin samið neitt endanlegt álit, er henni fyrir skömmu síðan barst erindi frá ungfrú Sigurborgu Kristjánsdóttur, þar sem hún bauðst til að taka Staðarfell á leigu og gerast forstöðukona hins fyrirhugaða húsmæðraskóla þar. Meðan á þessum heilabrotum stóð, átti nefndin tal við Magnús Friðriksson á Staðarfelli. Gaf hann þá í skyn, að hann myndi gefa enn nokkra fjárhæð, ef það yrði til þess að koma áhugamáli hans í framkvæmd, sem sje að koma upp húsmæðraskóla á Staðarfelli. Varð þetta svo úr, og hefir hann nú afhent hæstv. atvrh. skilríki fyrir 10 þús. kr. gjöf til skólans og hefir látið svo um mælt, að það ætti að vera til þess, að skólinn gæti með tíð og tíma eignast áhöfn á jörðina Staðarfell. Þetta ýtti undir okkur í nefndinni að ganga að tilboðum ungfrú Sigurborgar Kristjánsdóttur, að stofna þarna skóla sem einkafyrirtæki. Að vísu fór ungfrú Sigurborg Kristjánsdóttir fram á meira fje en brtt. nefndarinnár á þskj 408 gerir ráð fyrir, en nefndin sá sjer ekki fært að verða við þeim tilmælum hennar. Hinsvegar telur nefndin, að ekki megi áætla liðina a. og b. lægri en gert er. Kynni mín af ungfrú Sigurborgu Kristjánsdóttur eru þannig, að jeg tel málinu vel borgið í höndum hennar.

Um 3. lið á þskj. 408 þarf jeg ekki að vera langorð. Það hefir verið talin hál braut, sem þar hefir verið farið inn á. En það atriði hefir nú verið svo vel athugað af öðrum, að jeg treysti mjer ekki til að gera það betur.

Að nefndin var svona síðbúin með brtt. þessar, sem raun varð á, var ekki fyrir þá sök, að hún vildi fremja lögleysu. Heldur var það sökum þess, að nefndinni vanst ekki tími til að athuga þetta mál svo snemma, að hún gæti borið brtt. fram á venjulegan hátt. Annars þýðir ekkert að vera að fjölyrða um þetta nú, þar sem því hefir verið lýst yfir, að tillögurnar verði teknar aftur til 3. umr., svo háttv. fjvn. geti gefist kostur á að athuga þær. En hvaða breytingar, sem hv. fjvn. kann að gera við þær, mun mentmn. halda fast við till. sínar í öllum aðalatriðum.

Mjer hefir þótt rjett að lýsa afstöðu minni til þessa máls lítilsháttar, áður en jeg skilst við það, með því að það mun svo að segja orðið landfrægt, að jeg var á móti stofnun skóla þessa fyrst, er því var hreyft á þinginu 1923; en þá horfði málið alt öðruvísi við en nú. En jeg skammast mín ekkert fyrir það. Málið var þá algerlega óundirbúið og órannsakað, eins og jeg hefi tekið fram á öðrum stað í ræðu minni.

Þá vildi jeg segja fáein orð út af VI. brtt. á þskj. 400. Það er eitt atriði, sem ekki hefir verið tekið fram ennþá viðvíkjandi þeim lið. En það er, að það mun vera ósk ungfrú Nínu Sæmundsson, að hið mikla listaverk hennar „Móðurást“, sem gert hefir hana fræga, verði eign Íslands.

Jeg get viðurkent, að það geti orðið meiri hróður fyrir hana, ef listaverk þetta gæti orðið lengur til sýnis erlendis, því betri meðmæli með list hennar mun tæplega hægt að fá. En úr því að hún óskar þessa sjálf, þá vil jeg eindregið leggja það til, að fjárhæð þessi verði veitt, til þess að landið geti eignast listaverkið.