13.05.1925
Efri deild: 76. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 3276 í B-deild Alþingistíðinda. (2049)

104. mál, útflutningsgjald

Jóhann Jósefsson:

Það getur nú vel verið, að spá hv. 5. landsk. (JJ) kunni að rætast, en hann er ekki einn um þá skoðun, að hjer sje þörf á fasteignabanka. En skyldi þá ekki þurfa einhvern mann til að stjórna honum, ef hann verður settur á stofn? Og ætli það geti ekki verið einhver, sem ljeti sjer fara svipuð orð um munn eins og hv. þm. (JJ) hefir látið sjer um munn fara um ræktunarsjóðinn og þá forstöðu, sem honum er ætluð?

Það var einhver hv. þm., sem var að tala um raunir þessarar deildar, og er það síst ofmælt, því að það er sannarleg raun fyrir deildina að þurfa að hlusta á þvílíkt þvæl og slúður, eins og ræða hv. 5. landsk. (JJ) var í þessu máli, sem hvergi kom nálægt kjarna málsins, heldur er rjettur samsetningur til þess að standa í „Tímanum“ undir J. J. eða 3 stjörnum, eða hvaða merki það nú er, sem þessi hv. þm. (JJ) notar.

Þegar hv. 1. landsk. (SE) stóð upp og fór að tala, þá bjóst jeg satt að segja við því, að hann fyndi ástæðu til að láta í ljós undrun sína yfir því, hvernig frsm.. fjhn. hefði farið með framsögu sína. Jeg ímynda mjer, að það sje leitun á því, þótt farið sje yfir öll þingtíðindin, að í framsögu á þingi hafi nokkur þm. nokkurntíma notað aðstöðu sína sem frsm. í nokkru máli til að ryðja úr sjer nokkru líku því, sem hv. þm. (JJ) hefir gert., (JJ: Það er best að reyna að sanna það). Jeg held, að það sje tæpast á nokkurs manns færi að eltast við allar þær staðleysur, sem hv. þm. (JJ) kom fram með hjer í dag. Frv. það, sem hjer er flutt um gjaldahækkun, sem lögð er aðallega á sjávarútveginn, stendur í nánu sambandi við lög um ræktunarsjóðinn, sem er mikið áhugamál landbúnaðarins, og er hugmyndin um hækkun útflutningsgjaldsins til stuðnings landbúnaðinum komin frá þeim mönnum meðal sjávarútvegsmanna, sem eru mjög víðsýnir og þjóðhollir. Það er því auðsætt, að þegar þessi hækkun á útflutningsgjaldi er sett í svo náið samband við frv. um ræktunarsjóðinn, þá verður öll andstaða gegn henni beinlínis til hindrunar því, að þetta komi í framkvæmd. Þótt við, sem teljumst aðallega fulltrúar sjávarútvegsmanna, finnum til þess, að hækkun þessi auki álögur á okkar stjett, þykjumst við ekki mega tefja fyrir velferðarmálum landbúnaðarins, með því að draga inn í mál þetta nokkra hreppapólitík eða stjettarhagsmuni. Sjávarútvegurinn hleypur með þessu undir bagga með landbúnaðinum, og sjávarútvegsmenn hjer á hinu háa Alþingi hafa af tilliti til hagsmuna þjóðarinnar í heild sinni enga tilraun gert til að aftra þessu, heldur þvert á móti greitt fyrir málinu og goldið því samþykki sitt. Því síður að þeir hafi gert þetta mál að tilefni til árása á vissar stjettir eða stjórnmálaflokka í landinu. En hvað gerir svo hv. frsm. (JJ), þegar hann á að skýra hv. deild frá því, að fjhn. sje samþykk frv.? Þá dregur hann ekki hreppapólitík, heldur svæsnustu flokkapólitík inn í málið og gerir þetta að árás, ekki aðeins á stjórnina, heldur líka á alla þá menn, sem að þessu verki standa, árás, þar sem aðalinntakið er, að þetta frv. um ræktunarsjóðinn sje aðeins yfirdrepskapur. Það er gamla sagan um það, að alt, sem gert er fyrir landbúnaðinn, sje frá honum sjálfum og hans flokki; það er sama þvælan og menn geta lesið í málgagni hans um hverja helgi. Jeg verð að segja það, að jeg teldi þetta illa farið fyrir hv. deild og öllu Alþingi, ef margir slíkir menn ættu sæti á þingi eins og þessi háttv. þm. (JJ), sem gætu fengið sig til að nota mál slíkt sem þetta, sem enginn ágreiningur er um, til þess að vaða allan þann langa elg, sem hv. þm. (JJ) hefir gert. (JJ: Þetta er alveg eins og hjá hv. þm. Ak. (BL)). Þá notaði hv. þm. (JJ) í síðustu ræðu sinni tækifærið til að kasta hnútum að kaupmannastjettinni, líklega fyrir það, að kaupmannastjettin kemur sjálfsagt til að innheimta mikið af þessu gjaldi. Hv. þm. (JJ) var að tala um það, að kaupmenn landsins keptust við að hafa skóinn niður hver af öðrum, um leið og drýgindalegt hól kom fram hjá honum um kaupfjelögin. Mjer finst, að sá maður, sem stjórnað hefir hinu aumasta verslunarfyrirtæki, sem stofnað hefir verið hjer á landi, ætti ekki að kasta hnútum í kaupmannastjett þessa lands, þar sem sennilega hver einasti maður í þeirri stjett stendur miklu framar þessum hv. þm. í öllu því, er að verslun lýtur.