14.05.1925
Efri deild: 77. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 3284 í B-deild Alþingistíðinda. (2055)

104. mál, útflutningsgjald

Frsm. (Jónas Jónsson):

Mig furðar á, að hv. þm. Vestm. (JJós) skuli taka það illa upp, þó að jeg benti á það, að kaupmannastjettin hjer, eins og annarsstaðar, er í stöðugri samkepni innbyrðis. Einmitt þetta slagorð, sem jeg hefi töluvert útskýrt hjer í vetur, er bygt á þessari frjálsu samkepni. Jeg skal taka ljóst dæmi. Jeg man ekki, hvort það var þessi háttv. þm. (JJós) eða einhver annar, sem var að brigsla mjer um það, að jeg eldi á ósamlyndinu hjer innanlands. En starf okkar samvinnumanna er einmitt alveg gagnstætt. Við viljum byggja brú á milli hjeraðanna til þess að leitast við að bæta lífskjör neytenda og framleiðenda. Nú veit hv. þm. (JJós), að það eru kringum 40 kaupfjelög á Íslandi, sem mynda sambandið og sem selja og kaupa í fjelagi. Þessi brú hefir, svo langt sem hún er gerð, verið gerð af þessum mönnum. Nú vil jeg spyrja: Hvernig er það með fiskikaupmennina? Mjer dettur alls ekki í hug annað en að tala með virðingu um hæfileika hv. þm. (JJós); jeg býst við, að hann sje duglegur kaupmaður í alla staði. En hann verður sjálfsagt að játa það, að hann stendur ekki, svo menn viti, í neinu slíku sambandi við þá kaupmenn, sem eru annarsstaðar á landinu, því að meðlimir þessarar stjettar standa ekki í neinu sambandi hver við annan til að styðja verslun landsins. Samtök þeirra eru aðallega pólitísk og miðuð við að hnekkja viðgangi sjálfseignarverslunar fólksins.

Þegar maður er staddur í Kaupmannahöfn, þá rekst maður þar venjulega á tugi ísl. kaupmanna, sem eru að kaupa þar inn vörubirgðir. Þeir sigla venjulega sjálfir til að velja vörurnar, treysta öðrum ekki til þess.

Vafalaust væri nú þjóðarbúskapnum kostnaðarminna, að færri sigldu, en í þess stað væru trúnaðarmenn kaupmanna starfandi ytra og keyptu inn þær vörur, sem þjóðin þarfnast.

Að vísu hafa fiskikaupmenn reynt að taka höndum saman, en árangur þeirra samtaka varð sá, að jeg geri ekki ráð fyrir, að kaupfjelögin hafi tapað af því fje, sem þessir yfirkaupmenn töpuðu þá og ljetu skella á bönkunum að langmestu leyti.

Nei, úlfúðin er ekki okkar megin samvinnumanna, heldur meðal þeirra, sem hv. þm. (JJós) tók sjer fyrir hendur að verja að tilefnislausu.

Það er misskilningur, að jeg hafi sjerstaklega verið að hrósa happi yfir, að hv. Nd. afgreiddi þetta frv. eingöngu sem útflutningsgjald. Jeg var að benda á það, að Búnaðarfjelagið fór fram á hvorttveggja, útflutnings- og innflutningsgjald. En hvers vegna varð þetta ekki ofan á? Af umhyggju hv. Nd. fyrir strandvarnarskipinu nýja, og ætti háttv. þm. Vestm. manna síst að lasta þá umhyggju. Fyrst um sinn greiða sjávarútvegsmenn og bændur þetta útflutningsgjald til ræktunarsjóðsins, en síðan gengur það til strandvarnarskipsins, og mun ekki veita af 14 milj. kr. til rekstrar þess árlega. Hjer eru bændur því skattlagðir um óákveðna framtíð vegna strandvarnarskipsins, og er langt frá því, að jeg sje að hafa á móti þessu fyrirkomulagi. Þetta er ekki nema eðlileg og sjálfsögð samvinna milli landbúnaðar og sjávarútvegs.

Þá sagði hv. þm. (JJós), að verslunarstjettin greiddi útflutningsgjaldið úr sínum vasa. Þetta má til sanns vegar færa að því leyti, sem kaupmenn leggja jafnframt stund á landbúnað eða fiskiveiðar, en annars ekki, svo þessi staðhæfing hv. þm. (JJós) er vanhugsuð í aðalatriðinu. Eða dettur nokkrum í hug að halda, að jafnsnjall kaupmaður sem hv. þm. (JJós) er greiði úr sínum vasa alla þá tolla, sem verslun hans greiðir í ríkissjóð? Nei, það eru auðvitað neytendurnir, sem greiða innflutningstollana, en framleiðendur til lands og sjávar greiða útflutningsgjöldin.

Háttv. þm. sagði, að jeg fylgdi öðrum grundvallaratriðum í verslunarskoðunum mínum en aðrir menn. Í fyrra áttust þeir hjer við hv. þm. (JJós) og hv. 2. þm. S.-M. (IP) út af því, að hv. 2. þm. S.-M. hugsaði sjer þann möguleika, að opinber útflutningsnefnd sæi um alla fisksölu okkar, þannig, að hver framleiðandi fengi sitt. Hv. þm. Vestm. (JJós) barðist ákaflega gegn þessari hugmynd, sennilega af því að hann er sjálfur fiskkaupmaður.

Jeg lít nú svo á, að t. d. væri rjettlátast, að þeir, sem vinna á mótorbátunum í Vestmannaeyjum, fengju það, sem fyrir fiskinn fæst, að frádregnum útgerðarkostnaði, í stað þess að hinir og þessir „spekúlantar“ hirði mikinn hluta ágóðans. Í stuttu máli er mín stefna í verslunarmálum sú, að enginn sje svikinn. Ef hv. þm. (JJós) álítur þessa stefnu ranga, þá getur hann skriftað um það mín vegna.

Hv. þm. Vestm. (JJós) byrjaði með því að áfella mig fyrir, að jeg hafi talað hjer um annað en sjálft útflutningsgjaldið við 2. umr. frv. Jeg verð nú að biðja hann að athuga, að 1. umr. fór fram á fundi, sem hafði staðið fram á nótt, og var þá ekki tækifæri til að tala um hina hlið málsins, þá, sem veit að ræktunarsjóðnum, en í raun og veru eru bæði málin eitt og sama málið. Þess vegna rakti jeg nú sögu ræktunarsjóðsins, m. a. til þess að sýna afstöðu hæstv. fjrh. (JÞ) til lánsstofnunar fyrir landbúnaðinn fyr og síðar. Hann svaraði, og jeg er ekki hræddur við dóm lesenda Alþingistíðindanna um þá deilu okkar, enda hefi jeg aldrei viljað loka þinginu fyrir almenningi. Og jeg mun með sjerstakri ánægju líta yfir þær bls. í þingtíðindunum, þar sem hæstv. fjrh. (JÞ) gafst tækifæri til að lýsa hinum mikla áhuga sínum fyrir velgengni landbúnaðarins. Þar var ekkert undan dregið. Loks vil jeg leiðrjetta það, sem sagt var í gær, að jeg hafi notað mjer þingmannsaðstöðu mína til að hafa menn á óleyfilegan hátt í áheyrendasölum þingsins. Sannleikurinn er sá, að í byrjun þings ljet jeg 2 bændur fá aðgangskort að áheyrendasölunum, og fóru þeir báðir heim til sín skömmu síðar án þess að skila miðunum. Aðrir hafa ekki fengið miða hjá mjer, svo alt, sem sagt hefir verið um þetta efni, voru tóm ósannindi.

Annars hefir stjórnarflokkurinn gengið svo langt, að jafnvel þingskrifurum hefir verið kastað, sem grunur ljek á að væru pólitískir skoðanabræður mínir, þó að aðrir væru teknir, sem áður höfðu verið. Stjórnarflokkurinn hefir vendilega reynt að tryggja sínum mönnum vinnu við þingið. Og ef nokkrir þm. þyrftu að kvarta um ofbeldi í þessu efni, þá er það einmitt andófsflokkurinn.