14.05.1925
Efri deild: 77. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 3288 í B-deild Alþingistíðinda. (2056)

104. mál, útflutningsgjald

Jóhann Jósefsson:

Það er ánægjulegt, að hv. 5. landsk. (JJ) skyldi finna ástæðu til að fara nánar út í ræðu sína hjer í gær og afsaka framkomu sína að nokkru. Þess var síst vanþörf.

Hv. þm. (JJ) talaði um S. Í. S. og gat þess, að kaupmenn hefðu ekkert slíkt samband sem kaupfjelögin. Þetta er auðvitað rjett, og jeg fyrir mitt leyti harma það ekki.

Hv. þm. (JJ) gat þess rjettilega, að jeg t. d. stæði í engu hagsmunasambandi við kaupmenn á Norðfirði eða Húnaflóa o. s. frv., og hagsmunir okkar rekast heldur ekki á. En sá mikli munur er á fyrirkomulagi Sambandsins, með allri takmarkalausu ábyrgðinni, og verslunum einstakra kaupmanna, að gangi mjer, eða öðrum einstökum kaupmönnum, illa, þá geld jeg þess eða sá, er í hlut á, en ekki kaupmennirnir á Húnaflóa eða Ísafirði etc.; en verði kaupfjelag á Norðfirði fyrir skakkaföllum, þá er það sameiginlegt tap fyrir öll kaupfjelög landsins, sem eru í Sambandinu. Þetta fyrirkomulag virtist mjer hv. þm. (JJ) lofa svo mjög, en það hefir þegar komið í ljós, og á eftir að sýna sig betur, að slíkt skipulag á verslun landsins getur ekki verið þjóðinni holt. Hið holla við frjálsa kaupmannaverslun er meðal annars það, að þar ber hver maður ábyrgð gerða sinna sjálfur, en glappaskot manna þurfa ekki nauðsynlega að lenda á baki annara. Annars er öllum kunnugt, hverjum augum hv. þm. (JJ) lítur á kaupmannastjett landsins. (Forseti: Hv. þm. er kominn nokkuð langt frá efninu). Árið 1917 skrifaði hann grein um kaupmannagróða í Tímarit samvinnufjelaganna, og má þar sjá hugarþel hans til þessarar stjettar. En síðar fjekk hann sömu aðstöðu og kaupmenn til að græða öll þessi ósköp, sem hann heldur, að kaupmenn græði — og hvers vegna notaði hann þá ekki tækifærið? Hvers vegna græddi kaupfjelagið, sem hann stjórnaði, ekki eins og aðrir, sem höfðu sömu aðstöðu?