30.04.1925
Neðri deild: 68. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 3295 í B-deild Alþingistíðinda. (2071)

34. mál, mannanöfn

Frsm. minni hl. (Magnús Torfason):

Jeg get varla kallast framsögumaður að þessu máli, að minsta kosti er það á móti mínum vilja. Við vorum tveir í minni hl., og kaus hvor annan til þess. En hlutkesti rjeði. Annars er mjer það ekki á móti skapi að hafa þessa framsögu, því málið er gott.

Það hefir verið talað mikið um þetta mál bæði fyr og síðar og skal ekki langt farið út í það. Eins og allir vita, hafa verið gerð lög um ættarnöfn og staðfestingu þeirra, til þess að hið opinbera hefði eitthvert eftirlit með því, hvernig nöfn menn tækju sjer. Fyrrum höfðu aðeins heldri menn ættarnöfn. En svo fór að verða margur, sem vildi semja sig að sið þeirra, og þá komu lögin til sögunnar. Það verður nú ekki annað sagt en að ættarnafnalögin hafa verið notuð óspart, einkum af svonefndum uppskafningum. Hópur þeirra, sem slík nöfn bera, hefir stækkað, og löngunin til þess að komast í hann hefir minkað að sama skapi sem sneyddist um mannvalið. Það þykir nú orðið lítill vegur að bera ættarnafn.

Jeg þarf ekki að fara nánar út í þetta, en skal þó nefna eina ástæðu móti nöfnunum. Svo virðist, sem íslenskt mál sje illa fallið til ættarnafna. Orðkringustu menn stóðu að þessum lögum, en tókst ekki betur en raun er á orðin. Af þessum rökum og þeim, sem færð eru til í nál. minni hl., erum við þeim gersamlega mótfallnir. En að minni hl. fór ekki lengra en hjer er gert, er af því að þetta er stórmál, og treysti minni hl. þinginu ekki til þess að ráða því til lykta í lotu. Þessi lög ættu þá að vera millistig. Það er spurning, hvort ættarnafnalögin hafa staðið nógu lengi. Það er alveg auðsjeð, að vegur ættarnafnanna hefir minkað og vafamál, hvort ekki væri rjett að láta þau standa, uns óhugurinn er orðinn nógu mikill, hvort ekki er rjett að lofa heimskunni að rasa út.

Þessi breyting, sem hjer ræðir um, er undirbúningur undir algert afnám laganna. Hún er gerð svo væg, að við væntum, að þá gangi frv. fremur fram. En ef hv. flm. (BJ) kýs heldur, þá skal jeg greiða frv. hans óbreyttu atkv. Jeg heyri, að hann vill það; þá nær það ekki lengra, en þá er það ekki á mína ábyrgð, ef málið gengur ekki fram.

Þó er stefnumunur milli háttv. flm. og mín í máli þessu. Jeg hefi treyst því, að þjóðin verji tungu sína án bannlaga. Hann hefir ekki þetta traust. En það „liggja margar götur til Róm“, og mjer er sama hver farin er, ef í einn stað kemur niður.