30.04.1925
Neðri deild: 68. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 3297 í B-deild Alþingistíðinda. (2072)

34. mál, mannanöfn

Frsm. meiri hl. (Árni Jónsson):

Í þessu máli hefir sú nýlunda skeð, að allshn. hefir ekki orðið sammála. Minni hl. leggur til, að 2. gr. og 8. gr. frv. haldist óbreyttar, en 4. gr. falli niður.

Hv. minni hl. heldur því fram, að lögin hafi rýrt virðinguna fyrir ættarnöfnum. Jeg held þau hafi aukið hana, því að þau hafa bætt úr þeim glundroða, sem var á þessu. Þá var það títt, að menn tóku sjer nöfn, án tillits til, hvort aðrir báru þau fyrir eða ekki. Ef maður bar tvö nöfn, kom það fyrir, að hann kallaði sig sínu nafni í hvorum stað. Þessu hafa lögin bætt úr. Ennfremur voru menn heitnir eftir ættarnöfnum annara og báru þau síðan.

Þessi siður, að taka sjer ættarnafn, er fleiri hundruð ára gamall hjer, og eru þess mörg dæmi. t. d. Vídalín, Thorlacius og fleiri.

Eftir 5. gr. mega þeir halda nöfnum, er nú hafa. Eigi jeg tvö börn, mega þau halda nafni mínu, en eignist jeg barn hjer eftir, fær það ekki að njóta sama rjettar.

Þá tala fylgjendur frv. mikið um að rækja minningu feðra sinna. Jeg verð þó að halda, að þessi siður sje út af fyrir sig enginn ræktarvottur við forfeðurna. Með miklu meiri sanni mætti segja, að það yki ræktarsemina að halda sömu ættarnöfnum og forfeður þeirra hafa borið. Þá held jeg, að þetta mál eigi nokkuð skylt við þjóðernistilfinningarnar, og því getum við áreiðanlega verið eins góðir Íslendingar, þó að við berum ættarnöfn. Sannleikurinn er sá, að ættarnöfn eru afleiðing þeirrar breytingar eða þróunar í þjóðfjelaginu, sem heimska væri að ætla, að löggjöfin geti til lengdar ráðið við. Maður heyrir oft talað um dýrmæti hins persónulega frelsis, — en hvað væri skerðing á því, ef það væri ekki svona löggjöf? Og hversu vænt sem okkur þykir um þjóðerni okkar og þjóðvenjur, þá megum við ekki gleyma því, að það hefir einungis gagnstæð áhrif, ef menn ætla að fara að vernda slíkt með lagaboðum. Slík viðleitni verður að eiga sjer upptök í hugarfari fólksins sjálfs.

Að þessu athuguðu vil jeg leyfa mjer að leggja til, að frv. þetta verði felt.