30.04.1925
Neðri deild: 68. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 3298 í B-deild Alþingistíðinda. (2073)

34. mál, mannanöfn

Bjarni Jónsson:

Hv. frsm. „stærri helmings“ allshn. (ÁJ) hefir nú rakið nokkuð, hvað fyrir þeim vakir, sem fella vilja frv. þetta.

Hv. frsm. (ÁJ) kvað ættarnafnalögin frá 1913 hafa aukið virðingu manna fyrir ættarnöfnum, og tel jeg það illa farið, ef svo er, því það er jafnan skaði, er menn hrapa að slíkum breytingum á þjóðsiðum og tungu. Hjer hefir sú orðið raunin á, að hrúgast hefir upp heill hópur af ættarnafnasmekkleysum og málleysum, sem hljóta að hafa það eitt í för með sjer að spilla málkend manna. Íslendingar hafa gleypt í sig Kleppskinnu, og ef einhverjum dettur í hug að kalla sig Goron eða Þvaran eða Skaran, þá er gleypt við því og smjattað á því. En slík ódæma saurgun á helgum stað má ekki lengur líðast.

Jeg viðurkenni með hv. frsm. (ÁJ), að það er harla óviðkunnanlegt að þurfa að banna mönnum með lögum að bera ónefni; m. ö. o. að banna með lögum að misþyrma tungunni, sjerstaklega íslensku tungunni, sem haldið hefir lífinu í þjóðinni og vakið virðingu á henni meðal erlendra þjóða. Má fullyrða, að ef vjer hefðum ekki haft tunguna, þá hefði enginn litið á land vort öðruvísi en útver og fiskimið, og myndum vjer þá seint hafa öðlast viðurkenningu á sjálfstæði voru.

En hvernig stendur þá á þessu hrapallega virðingarleysi fyrir rjetti málsins, sem lýsir sjer í því, hvernig menn leyfa sjer að misþyrma góðum og gömlum nöfnum? Lítum t. d. á ferðaáætlun fyrir strandferðaskip ríkisins, Esju, á þessu ári. Hvar í ósköpunum myndi t. d. boðið að nefna Hornafjörð í staðinn fyrir Höfn, eins og hann heitir frá fornu fari, eða Breiðdalsvík í staðinn fyrir Selnesbót, Fáskrúðsfjörð fyrir Búðir, Reyðarfjörð fyrir Búðareyri, Norðfjörð fyrir Nes, Mjóafjörð fyrir Brekku, Borgarfjörð fyrir Bakkagerði, Bakkafjörð fyrir Höfn, Ólafsfjörð fyrir Ólafsfjarðarhorn, Bitrufjörð fyrir Óspakseyri, Reykjarfjörð fyrir Kúvíkur, Súgandafjörð fyrir Suðureyri, Önundarfjörð fyrir Flateyri, Dýrafjörð fyrir Þingeyri, Tálknafjörð fyrir Sveinseyri, Patreksfjörð fyrir Vatneyri, Sand fyrir Hellissand, o. s. frv.

Þegar svo ennfremur er verið að halda t. d. í danska nafnið Ísafjörður, í stað Skutilsfjarðareyrar, sem staðurinn heitir að rjettu lagi, þá fer menn kannske að gruna, að ekki sje bráðnauðsynlegt að vera með lögum að auka virðinguna fyrir svona ónefnum. Það er nú ekkert nýtt, þó jeg haldi því fram, að það sje svo æfagamall þjóðsiður að kenna sig við föður sinn, að engin þörf sje á því að taka upp ættarnöfn. Skal jeg raunar játa, að það er harðara að gengið að banna mönnum ættarnöfn, sem lengi hafa haldist, eins og það, sem hv. sessunautur minn (JakM) hefir. Fann jeg og um daginn, að þetta snart hann, og skil jeg vel, að þar er um mannlegar tilfinningar að ræða. En þegar menn eru að taka sjer ný ættarnöfn, þá á ekkert slíkt sjer stað, ekkert nema hjegómaskapurinn einber.

Og nú er mjer spurn: Til hvers eru menn að flykkjast í skólana og þeim kent þar málið, þegar svo er leyft að þeyta inn í málið svo stórum og andstyggilegum málvillum, að enginn sá nemandi myndi verða fluttur úr bekk, sem setti þær í stíl hjá sjer. Sannleikurinn er sá, að menn hafa engu meiri rjett yfir mannaheitum og staða en hverjum öðrum orðum tungunnar, og því er það alger misskilningur, ef menn halda, að heimilt sje að veita mönnum með lögum rjett til að misþyrma íslenskum nöfnum. Nú er svo komið, að menn mega ekki segja Thorsteinssonar, því það er brot á móti þessari dýrmætu, útlendu reglu, sem raunar er ekki annað en þrælseinkenni þeirra þjóða, sem Rómverjar lögðu undir sig. En nú, þegar Íslendingar voru loksins orðnir frjáls þjóð, þá tóku þeir upp þrælsmerki gömlu, kúguðu þjóðanna.

Hv. frsm. (ÁJ) talaði um vandræðin, sem af því gætu leitt, þegar Jón Jónsson á Seyðisfirði hitti nafna sinn, Jón Jónsson á Akureyri, og spurði, hvort ekki væri heppilegra, að annar þeirra hjeti þá Seyðfjörð og hinn Eyfjörð. En hvers vegna heita þá ekki bara Eyjafjörður og Seyðisfjörður, sem brýtur þá að minsta kosti ekki lög málsins? Hitt er apað eftir Sigurði þeim, er nefndi sig Breiðfjörð, illu, heilli, og gerði með því tungu sinni ógreiða, þó skáld væri hann gott.

En nú vil jeg enn spyrja, hver sje hagurinn af ættarnöfnunum, þegar t. d. Eggert Briem í Reykjavík hittir Eggert Briem í Hafnarfirði eða Viðey. Væri ekki gott fyrir einn þeirra að taka upp annað nafn til viðbótar og kalla sig t. d. Eggert Briem Viðey, Eggert Briem Hafnarfjörður, o. s. frv.? Við höfum dæmin fyrir okkur. Það eru ekki nema 10 ár síðan Danir urðu að skipa mönnum að taka upp ný ættarnöfn, því öll þjóðin hjet annaðhvort Petersen, Hansen, Sörensen eða Jensen. Til þessara ráða hafa Íslendingar aldrei þurft að taka, og það er beinlínis rangt að segja, að ættarnöfnin verði nauðsynlegri eftir því sem þjóðinni fjölgi. Við erum ekki ennþá orðnir fjölmennari en Grikkir, og kenna þeir sig þó við föður sinn þann dag í dag og hafa ekki fengið neina ættarnafnasótt, þó stöðugt fjölgi þeim. En það er líklega vegna þess, að Tyrkir hafa ekki haft eins mikil áhrif á þá eins og stórþjóðirnar á oss Íslendinga.

Það hafa engin rök verið færð fyrir því, að ættarnöfn geri auðveldara að greina menn í sundur, enda þykist jeg hafa sýnt fram á, að svo er ekki. Það er síður en svo, að nokkur ágóði sje af ættarnöfnunum, á hverja hlið málsins, sem litið er. Og enn er ein skemd ótalin, sem ættarnöfnin hafa í för með sjer. Þau gera að engu þá fræðigrein, sem hjer hefir orðið þjóðlegust og merkilegust, og á jeg þar við ættvísina. Hún er steindauð, þegar ættarnöfnin hafa setið í nokkrar aldir. Má þessu til sönnunar benda á, hvernig farið hefir hjá nágrannaþjóðunum. Er og skiljanlegt, að þessi verði raunin, þegar sá siður er upp tekinn, að konur beri fyrst nafn föður síns, og síðan þess manns, sem þær eru giftar. Jeg gæti nú skilið þessa áfergju manna til nafnbreytinga, ef einhver stórþjóðin kæmi með her manns og setti það að skilyrði fyrir lífi og frelsi þjóðarinnar, að menn tækju sjer ættarnöfn. Hitt er háðung, sem skömm er að eigi sjer stað, að menn taki þennan sið ónauðbeygðir.

Hv. frsm. meiri hl. (ÁJ) sagði, að ættarnafnamenn hafi ekki verið verri Íslendingar en aðrir. Það hefi jeg heldur ekki sagt, að þeir væru nje hefðu verið, að öðru leyti en þessu, að með óbeygjanlegum ættarnöfnum valda þeir glundroða í beygingum orða og koma af stað allskonar kynvillum, án þess það þó varði við lög. En þeir geta verið bestu menn annars, þó sjónlitlir sjeu þeir á þessa hluti. Jón Sigurðsson tók einu sinni að skrifa sig Sívertsen, en komst brátt að raun um, að það var að engu leyti affarasælla, og tók því brátt upp aftur sinn barnasið. Má vafalaust velja sjer margan verri til fyrirmyndar en Jón Sigurðsson.

Þá er merkilegt að heyra lærðan mann, eins og hv. þm. (ÁJ) er, halda því fram, að ættarnöfnin sjeu ekki skemd á tungunni. Veit hann þó vel, að viðhald hennar er undir því komið, að ekki sjeu höfuðlögmál hennar brotin, en þar skilur íslenskuna frá öðrum tungum flestum, að hún hefir haldið beygingum sínum óbrjáluðum. En óbeygð ættarnöfn eru sjúkdómseinkenni, því þegar menn tala um að setjast hjá frú Kvaran, í stað þess að segja hjá frú Kvörunu, þá eru menn að venja sig á að brjála beygingu orðanna.

Jeg hefi áður minst á, að nafnorðin eru sterkasti þáttur tungunnar. En í nýgrískri tungu eru nafnorðin beygð sem í fornöld, og því geta þeir menn enn, er forngrísku hafa numið, skilið nýgrísku. En þau nafnorð, sem lengst lifa og minnugust eru, það eru eiginnöfnin. En nú er hjer vísir til að strika þau út og brjála. Þannig segja menn nú, að þeir hafi komið með e/s Gullfoss, í stað þess að segjast hafa komið á Gullfossi. Og þetta smálagast, ef ekki er tekið í taumana, uns íslenskan er orðin jafngöfugt mál og danskan eða mállýskurnar norsku, eða ennþá verra, eins og málið hjá stúlkunum í Kaupmannahöfn, sem „go po geden“ og segja „gú de“. En jeg vil minna á það, að ef til vill er sambandið við fortíðina, þegar á alt er litið, það dýrmætasta, sem hver þjóð á sjer. Hver einasta þjóð myndi vilja kaupa það dýru verði. Og sjerstaklega er okkur þó nauðsynlegt að halda lifandi sambandi við sögu vora og fortíð, því á því veltur, hvort vjer eigum að veiða erlendri sníkjumenning að bráð og láta þessa apaketti, sem nú hampa Kleppskinnu, ráða niðurlögum okkar. Hv. frsm. (ÁJ) benti á, að ættarnafnamenn gætu fundið sjer ættarnöfn, sem beygð væru í tölu, falli og kyni. En kynvillurnar eru, eins og jeg hefi oft bent á, verstar viðureignar, þegar kona á bróður manns síns og á börn með tengdaföður sínum. Og ennfremur má það vera óþægilegt fyrir þessa nýju ættarnafnamenn, þegar þeir hitta sína eigin afturgöngu. Las jeg nýlega í dönsku blaði viðtal við „Islands mest berömte Digter“ :

„Einar Hjörleifsson — er det Dem?“ spyr blaðamaðurinn.

„Ja, jeg har skrevet under det Navn i mange Aar. Nu kalder jeg mig Kvaran.“

„Hvorfor?“ spyr blaðamaðurinn.

„Jo, det er et Slægtsnavn. Hele min Familie antog det.“

Að lokum vil jeg láta í ljós þakklæti mitt til hv. minni hl. nefndarinnar fyrir að hafa fallist á að verja íslenska tungu, og sjerstaklega er jeg þakklátur hv. frsm. minni hl. (MT) fyrir þá yfirlýsingu hans, að hann muni greiða atkvæði með frv. eins og það er. Hann vill ekki helminga gott mál. Máske verða örlög þessa frv. nú þau að falla, en málið verður þá aðeins tekið upp aftur á næsta þingi, eða þinginu þar á eftir. Það gæti meira að segja komið til greina við kosningar, og þá veit jeg, hverri stefnu þjóðin kýs að fylgja. Má þá svo fara, að bannað verði að bera ættarnöfn, jafnvel áður en mönnum hefir unnist tími til að taka upp öll þau fegurstu, svo sem Hvolpon og Skolpon o. fl. Og því lofa jeg, að hvernig sem um frv. þetta fer, þá mun jeg ekki hætta að tala máli þjóðarinnar í þessu efni, og sjest þá síðar, hvor aðili ber sigur af hólmi, jeg eða ættarnafnamenn.