30.04.1925
Neðri deild: 68. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 3304 í B-deild Alþingistíðinda. (2074)

34. mál, mannanöfn

Tryggvi Þórhallsson:

Jeg kann ekki við, að það líti svo út í þingtíðindunum, sem enginn í þessari hv. deild hafi viljað standa með hv. flm. frv. (BJ) um mál þetta, áður en það verður ef til vill drepið við atkvgr., eins og drepin var tilraun fjvn., sem fór í líka átt. Jeg þarf ekki að taka til máls nú af því, að menn viti ekki, hvar jeg stend í málinu, en jeg vil láta það sjást prentað í þingtíðindunum, að hv. þm. Dala. (BJ) stóð ekki einn um málið. Og þótt jeg deili oft við hv. þm. Dala. og við sjeum mjög oft andstæðir í mörgum málum, þá stend jeg algerlega með honum um þetta mál. Jeg verð að segja það til sumra þeirra manna, sem hjer eru og brosa að umr., sem hjer fara fram, að jeg lít svo á, að þetta mál sje stærra í raun og veru en mörg mál, sem rædd hafa verið á þessu þingi; af því þau mál, sem beinlínis eða óbeinlínis miða að því að varðveita okkar tungu og miða að því að halda þjóðerninu styrku og öflugu og hreinu, það eru þegar til lengdar lætur merkustu málin.

Jeg hafði tækifæri til að víkja lauslega að þessu máli við umr. fjárlaganna, þegar við í fjvn. auglýstum okkar vilja í þessu og mótmæltum af okkar hálfu ættarnöfnunum, þótt við gerðum ráð fyrir að vísu, að þær till. yrðu feldar.

Jeg ætla að gera grein fyrir því í fjórum liðum, hvers vegna jeg fylgi þessu máli, og fylgi því fast. Að vísu eru oft leiðar endurtekningar á því, sem maður hefir áður sagt, en hjer verður aldrei góð vísa of oft kveðin.

Jeg er í fyrsta lagi með frv. vegna málhreinsunar, sem í því felst, og get algerlega skrifað undir það orð fyrir orð, sem hv. þm. Dala. sagði um spillinguna á málinu, sem óbeygjanleg mannanöfn og orðskrípi, sem leyft er að komast inn í málið, valda. Og ekki mun of mikið úr gert, hvaða hætta tungunni stafar frá þessum nöfnum. Jeg undirrita með honum, hvað þessi nöfn í málinu eru þýðingarmikil til þess að halda við tungunni hjá hverri þjóð.

Í annan stað er það, að jeg vil útrýma ættarnöfnum vegna fræðigreinar þeirrar, sem einna elst er og merkilegust á þessu landi, sem er ættfræðin. Í fyrstu bókinni, sem rituð var hjer á landi, var þessari tegund vísinda mikill gaumur gefinn, og hefir svo verið gert alt fram á þennan dag; og þess betur sem þjóðin hefir verið mentuð á hverjum tíma, þess meiri rækt hefir hún lagt við þessa fræðigrein.

Það veit jeg af talsverðum lestri þess, sem ritað er um það mál í útlöndum, að þessi fræðigrein á eftir að verða einhver sú mesta fræðigrein, sem iðkuð hefir verið. En jeg er viss um það, að ef ættarnöfnin útbreiðast, þá er hætta búin á þessu sviði. Jeg tek undir það með hv. þm. Dala., að fái ættarnöfnin að flóa yfir, verður það til þess að gera nálega óframkvæmanlegt að iðka þá fræðigrein.

Þriðja ástæðan fyrir því, að jeg fylgi málinu fast, er sú, að þegar breytingatímar ganga yfir þjóðina, viðskifti hennar og atvinnuhættir breytast, þá er langmest hætta fyrir þjóðina, að hún týni sjálfri sjer, týni sambandinu við fortíðina og sína sögu. Slíkir tímar ganga nú einmitt yfir okkar þjóð; og breytingin á nöfnum manna í ættarnöfn er einmitt greinilegt dæmi um þá hættu, sem vofir yfir okkar þjóð, að hún týni sjálfri sjer og sambandinu við fortíð sína. Þess vegna álít jeg, að á slíkum breytingatímum, þegar slík hætta stendur að þjóðinni, þá eigi að gera alveg sjerstakar ráðstafanir til þess að hrinda slíkri hættu af höndum sjer. Jeg er í engum vafa um, að sú breyting, sem þegar er orðin á nöfnum manna nú — í henni er fólgin mikil hætta fyrir hina íslensku þjóð í þessu efni. Þess vegna hika jeg ekki við að samþykkja þær till., sem hv. þm. Dala. ber fram um þetta, þó jeg hljóti að játa, að þetta er harkaleg aðferð. En jeg álít nauðsynlegt að fara harkalega að í þessum kringumstæðum.

Hv. frsm. (ÁJ) vjek í sinni ræðu að hinum gömlu og góðu svokölluðu íslensku ættarnöfnum. Jeg tek undir það, sem hv. þm. Dala. sagði um þau nöfn — sem að vísu eru ekkert mjög gömul, ekki margra alda gömul eins og hv. frsm. (ÁJ) sagði, heldur fárra alda, — að þau nöfn eru nálega öll til komin fyrir bein erlend áhrif. Þess vegna get jeg ekki fundið í þeim nöfnum neina rjettlæting fyrir því að vernda ættarnafnasiðinn.

Síðasta ástæðan, en ekki sú sísta, sem jeg vildi taka fram fyrir því, að jeg fylgi þessu máli fast fram, að hefja baráttu móti ættarnöfnunum og útrýma þeim, er sú ástæða, að það gæti verið mikill og merkilegur liður í því að vekja sterka þjóðernisöldu aftur í landinu. Og jeg álít, að þess sje full þörf. Jeg álít, að fyrir hverja þjóð sje það hin mesta nauðsyn, að hún haldi sjer vel vakandi í þeim efnum. Þar ætti okkur að vera ánægjulegt og áreiðanlega gagnlegt að fylgja því dæmi, sem við höfum sjeð hjá frændum okkar í Noregi. Það er nú viðurkent af öllum, að það hefir haft mikil áhrif í þessa átt, að Norðmenn hafa kastað nafninu, sem Danir gáfu höfuðborg þeirra, og tekið aftur upp gamla nafnið. Það er enginn vafi á, að þetta hefir orðið til þjóðernisvakningar þar í landi. Og ef við tækjum að útrýma ættarnöfnunum, þá er jeg heldur ekki í neinum vafa um, að það hefði í för með sjer þjóðerniseflingu. Og það álít jeg eins og nú standa sakir sjerstaklega nauðsynlegt, því mjer dylst það ekki, að undirlægjuháttur margra hjer á landi gagnvart útlendingum og útlendum áhrifum er þjóðerni okkar mjög háskalegur. Jeg var sjónarvottur að því hjer á dögunum, hvernig hálfur Reykjavíkurbær skríður fyrir útlendum áhrifum. Öllum þessum skriðdýrshætti þarf að eyða og spara til þess engin góð ráð. Og þó þetta frv. verði felt að þessu sinni, þá skal það mál verða tekið upp aftur, því það skal verða flutt til sigurs.