13.05.1925
Efri deild: 76. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 3314 í B-deild Alþingistíðinda. (2088)

34. mál, mannanöfn

Sigurður Eggerz:

Það ætti ekki að gefa lög um önnur efni en þau, sem nauðsynlega þörfnuðust þess, að þeim væri skipað með lögum. Sjerstaklega ætti þingið að sýna varkárni í því að gefa lög, sem víst er, að fótum verða troðin, og verða því til þess eins að vekja óvirðingu manna fyrir landslögum yfirleitt. Jeg verð að líta svo á, að þetta frv. stefni einmitt í þá átt. Þetta frv. gengur svo nærri persónulegu frelsi manna, að jeg tel óhæfu að samþykkja það. Þetta frv. er álíka viturlegt og ef menn vildu láta Alþingi setja lög um, að fólkið skuli ganga í svörtum sokkum, en ekki rauðum o. s. frv. Hver myndi hlýða slíkri löggjöf? Eða myndu lögreglustjórar hafa tíma til að framfylgja slíkum lagaboðum? En einmitt þessu líkt er það lagaboð, sem hjer á að setja.

Það er athugandi, að í þessum efnum hefir framþróunin annarsstaðar einmitt verið með sama hætti og hjer.

Háttv. meiri hl. allshn. hefir ekki getist allskostar að frv. óbreyttu, og heyrði jeg, að hv. frsm. (EP) skildi, að þeim mönnum, sem bæru gömul ættarnöfn, væri viðkvæmt mál, ef nöfnunum yrði kipt í burtu fyrir einhverja dutlunga hjer á hinu háa Alþingi. Þetta er auðvitað rjett, en þá er að athuga brtt. hv. meiri hl. Samkvæmt þeim eiga þeir einir, sem tekið hafa ættarnöfn fyrir árið 1912, að fá að halda nöfnunum. Þá koma þeir, sem tekið hafa ættarnöfn síðan. Þeir fá að halda þeim, meðan þeir og fædd börn þeirra lifa, en lengra nær sá rjettur ekki. Loks kemur allur almenningur, sem alls ekki fær að taka sjer ættarnöfn.

Með þessari skiftingu er verið að skapa forrjettindi fyrir tiltölulega fáa borgara þjóðfjelagsins, og get jeg að vísu verið hv. meiri hl. þakklátur fyrir, að jeg fæ að vera í hinum fína 1. flokki. En vel á minst! Úr því verið er að skifta mönnum í flokka á þennan hátt, hví eru þá ekki búnar til aðalsættir í landinu og þeim fengið jarðagóss og önnur fríðindi að sið ýmsra annara þjóða?

Jeg verð nú að segja, að svo vitlaust sem frv. er eins og hv. Nd. hefir gengið frá því, þá eru brtt. hv. meiri hl. þó enn óaðgengilegri. Eða hvar er ástæðan til þess að binda ættarnafnarjettindin við áramótin 1912—’13? Hvar er ástæðan til þess, að maður, sem tekið hefir ættarnafn árið 1910, fær að halda því, en annar, sem tekið hefir nafnið árið 1914, fær ekki að halda því fyrir niðja sína, svo sem lög standa til nú? Slíkt nær ekki nokkurri átt að mínum dómi. Og hvað vinst eiginlega við þessa breytingu? Áreiðanlega hætta menn þó ekki að bera ættarnöfn; það er víst. E. t. v. vinst það, að öll ættarnöfn enda á „sen“ eða „son“, eins og nú tíðkast helst hjer í höfuðstaðnum. Hjer er orðið mjög alment, að konur kalli sig föðurnafni manna sinna.

Jeg mun fyrst og fremst greiða atkv. á móti brtt. hv. meiri hl., því jeg álít þær svo þrungnar af ranglæti, að ekki nái nokkurri átt að samþykkja þær. Það getur ekki komið til mála, að löggjafarvaldið segi við vissa borgara þjóðfjelagsins: Þið megið bera ættarnöfn. Við aðra: Þið megið bera ættarnöfnin um vissan tíma. En við allan almenning: Þið megið alls ekki bera ættarnöfn, hvað sem tautar. — Það fer lítið fyrir persónulegu frelsi manna, þegar slík löggjöf hefir verið samþykt. Mjer fyrir mitt leyti þykir hart að sjá dýrmætum tíma þingsins varið til að ræða slíkan hjegóma.

Loks mun jeg greiða atkv. á móti sjálfu frv., því jeg er viss um, að enda þótt svo slysalega takist, að það verði gert að lögum, þá verða þau lög fyrirlitin af öllum skynsömum mönnum, og afleiðingin verður, að þeim verður bráðlega breytt aftur.