13.05.1925
Efri deild: 76. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 3316 í B-deild Alþingistíðinda. (2090)

34. mál, mannanöfn

Frsm. meiri hl. (Eggert Pálsson):

Jeg tel mjer ekki skylt að verja frv. í heild og mótmæla orðum hv. 1. landsk. (SE) á þeim grundvelli. Býst jeg og við, að hv. þm. Dala. (BJ), flm. frv. í hv. Nd., þykist einfær að verja gerðir sínar í þessu efni, og er mjer nær að halda, að ef hann og hv. 1. landsk. ættu tal saman um þetta mál, þá gæti svo farið, að háttv. 1. landsk. yrði að lækka seglin lítið eitt.

En það eru brtt., sem nú liggja fyrir, sem jeg og hv. þm. Seyðf. (JóhJóh) berum ábyrgð á. Hv. þm. (SE) vildi halda því fram, að brtt. gerðu frv. aðeins enn verra en það væri nú. Þær gengju enn nær persónulegu frelsi manna en frv. sjálft. Þessari staðhæfingu vil jeg mótmæla, enda eru brtt. bornar fram í því skyni að forðast sem hægt væri að ganga mjög nærri persónulegu frelsi manna. Og það hefir meiri hl. tekist, því samkv. brtt. fá þeir, sem nú bera gömul, jafnvel aldagömul ættarnöfn, að halda þeim framvegis fyrir sig og afkomendur sína, en hinir, sem tekið hafa upp ættarnöfn eftir 1912, fyrir sig og fædd börn sín. Aðrir fá ekki að bera ættarnöfn, og getur það varla talist skerðing á persónulegu frelsi manns, sem aldrei hefir borið ættarnafn, að banna honum það framvegis.

Annars má öllum vera skiljanlegt, hvað átt er við með tímatakmarkinu áramót 1912—’13. Þá gengu í gildi ný lög um ættarnöfn, þar sem mönnum var gefið undir fótinn að taka upp slík nöfn og þeir skrásettir, sem það gerðu.

Verði þetta frv. að lögum, þá er þar með slegið striki yfir þau lög og það ólag, sem mörgum hefir fundist þau lög hafa haft í för með sjer, og mega þeir menn því fremur við una, sem í rauninni eru andvígir öllum ættarnöfnum, jafnvel þó brtt. verði einnig samþyktar.