13.05.1925
Efri deild: 76. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 3317 í B-deild Alþingistíðinda. (2091)

34. mál, mannanöfn

Frsm. minni hl. (Jónas Jónsson):

Þar sem hv. 1. landsk. (SE) snýst svo harðlega á móti fjarstöddum flokksbróður sínum í hv. Nd., hv. þm. Dala. (BJ), þá vildi jeg segja fáein varnarorð fyrir þennan hv. þm. (BJ) út af þessu máli.

Menn hafa tekið þrennskonar afstöðu til þessa máls. Fyrst eru þeir, sem vilja lofa hverjum manni að ráða því, hvernig nafn hann ber og hvort hann tekur sjer ættarnafn eða ekki. Til þessa flokks telst hv. 1. landsk. Þá kemur afstaða hv. meiri hl. allshn., sem segir, að þeir skuli halda ættarnöfnum sínum, sem fyrir mannsaldri hafi tekið þau, en að öll nýrri nöfnin skuli hverfa í gröfina með þeim, sem þau bera nú, og jafnframt skuli úr vegi rutt öllum möguleikum fyrir menn til að taka upp ný ættarnöfn framvegis. Þriðji flokkurinn, en forvígismaður hans er einmitt hv. þm. Dala., skoðar öll ættarnöfn óviðeigandi í íslensku máli og leifar frá mestu hnignunartímum ísl. menningar.

Jeg hefi beðið hæstv. forseta að viðhafa nafnakall við atkvgr., til þess að sjeð verði, hverjum flokkinum hv. þdm. fylgja. Jeg fyrir mitt leyti hallast að frv. óbreyttu, en sætti mig þó mun betur við afstöðu meiri hl. og brtt. hans en afstöðu hv. 1. landsk. Enda er mjer það sorgarefni, að háttv. þm. (SE), sem venjulega stendur svo framarlega í allri þjóðernisbaráttu okkar, skuli í þessu máli vilja halda þá braut, sem er óþjóðhollust.

Í sambandi við þetta mál er rjett að drepa á málhreinsunarbaráttu frænda vorra Norðmanna. Þeir hafa nýlega breytt nafni höfuðborgar sinnar, Kristiania í Osló, nafni eyjarinnar Spitzbergen í Svalbarð o. s. frv. í þessu kemur fram sama viðleitnin sem í frv. því, sem nú er hjer til umr. Það á að hreinsa málið.

Í rauninni er frv. þetta einnig bygt á alveg eðlilegum röksemdum. Úr því að við teljum okkur það fyrst og fremst til ágætis, að við höfum haldið máli okkar svo að segja óbreyttu frá landnámstíð og fram á þennan dag, þá er þetta spor í rjetta átt. Óbeygjanleg ættarnöfn breyta og spilla eðli íslensku tungunnar og eiga því að hverfa úr sögunni.