05.05.1925
Efri deild: 68. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 954 í B-deild Alþingistíðinda. (210)

1. mál, fjárlög 1926

Fjármálaráðherra (JÞ):

Um brtt. hv. fjvn. á þskj. 433 vil jeg segja það, að tekjur ríkissjóðs samkvæmt 2. gr. sjeu nú þegar svo hátt áætlaðar, eftir að hv. Nd. hefir hækkað þær um 930 þús. kr., að hvorki er rjett eða forsvaranlegt að hlaða þar meiru ofan á. Þess vegna tel jeg hækkunartill. háttv. fjvn. á þskj. 433 ekki rjettmætar eða á rökum bygðar, heldur skoða jeg þær aðeins sem tilraun til þess að fela fyrir mönnum, hvað gjaldabálkurinn hefir mikið hækkað í meðferð þingsins. Hinsvegar er engin hækkunin svo stórfeld, að jeg sjái ástæðu til þess að fara að rökræða það við hv. fjvn., og læt mjer því nægja að skjóta fram þessari almennu athugasemd.

Sjálfur á jeg nokkrar brtt. á þskj. 447, sem segja má þó um, að sjeu aðeins tvær brtt. Önnur þeirra er sú, að færa eftirgjafir á viðlagasjóðslánum inn í þær greinar fjárlaganna, sem þær samkvæmt efni eiga heima í, en taka svo upp tekjumegin, eða í 5. gr., jafnháa upphæð á móti, eða þá upphæð, sem allar eftirgjafirnar nema. Þetta er rjett, til þess að útgjöldin komi einhvern tíma fram í fjárlögum og landsreikningi. En ef fyrst er veitt lán úr viðlagasjóði og síðan eftir gefið með athugasemd aftan við fjárlögin, kemur það aldrei fram í fjárlögum eða landsreikningi, og sjest því ekki, hvað farið hefir til hins og þessa og útgjöld ríkisins í sjálfu sjer því aldrei rjett talin. Þessi brtt. miðar því aðeins að því að taka upp rjetta reikningsfærslu, en ekki til þess að sýna afstöðu mína til hinna ýmsu eftirgjafa, sem jeg þó kann að vera á móti. Læt jeg svo útrætt um þetta og vona, að hv. fjvn. geti fallist á, að þetta sje rjett hjá mjer, og vænti jeg því, að hv. þdm. sjái sjer fært að samþykkja brtt.

Þá er það hin brtt., og er hún sú I. í röðinni á þskj. 447, undir tölulið 2, og er um launabætur til aðstoðarlæknisins á Ísafirði. Í fjárlagafrv. stjórnarinnar var tekin upp sama upphæð og er að finna í núgildandi fjárlögum, eða 2 þús. kr., og þar beinlínis tekið fram, að hann njóti ekki annara launa úr ríkissjóði. Þessi upphæð lagði hv. fjvn. Nd. til, að lækkuð væri niður í 1500 krónur og færði sem ástæðu fyrir því, að ríkinu bæri engin skylda til þess að launa þessum manni. Þegar svo var komið, tók jeg mig til og rannsakaði þetta mál frá rótum og komst þá að þeirri niðurstöðu, að ríkissjóður hefði skyldum að gegna gagnvart þessum starfsmanni. Um málið gaf jeg svo skýrslu í hv. Nd., sem jeg ætla að leyfa mjer að flytja hjer einnig. En af því að skýrsla þessi er samhljóða þeirri, er jeg gaf í hv. Nd. og jeg les hana eins og hún hljóðar í handriti ræðuskrifarans í Nd., þá sje jeg ekki ástæðu til þess að skrifararnir fari að endurtaka það nú, því duga mun á sínum tíma að geta þess, að skýrslu þessa sje að finna á öðrum stað í Alþingistíðindunum.

1)

Jeg hefi svo litlu hjer við að bæta, en hefði jeg verið búinn að afla mjer þessara upplýsinga áður en jeg samdi fjárlagafrv., þá hefði jeg stungið upp á, að aðstoðarlækninum yrðu greiddar 2500 kr. að viðbættri dýrtíðaruppbót. Þessi brtt. mín fer fram á að veita 1700 kr. í viðbót við hin lögmæltu laun, sem eru 800 kr., og sje greidd dýrtíðaruppbót þar á eftir venjulegum reglum. Jeg hefi ekki sjeð ástæðu til að breyta þessum 1. lið 12 gr. að öðru leyti en þessari hækkun til aðstoðarlæknisins á Ísafirði nemur. Þessi liður er áætlunarliður, sem stafar af því, að ýms læknishjeruð standa auð og er þjónað af nágrannalæknum lengri eða skemri tíma á hverju ári, og þá fyrir helming lögmæltra launa.

Jeg skal svo ekki orðlengja frekar um þetta, en bæti því aðeins við, að mjer fanst sjálfsagt að bera fram till. þessa, svo að Alþingi gæfist kostur á að standa við loforð, sem telja má, að gefin hafi verið í öndverðu, er styrkurinn til þessa manns var tekinn upp í fjárlög.

En fari svo, mót von minni, að a-liður þessarar brtt. minnar verði feldur, þá tek jeg að sjálfsögðu aftur b-liðinn, enda er hann afleiðing af því, að fyrri liðurinn sje samþyktur.

*Skýrslu þessa er að finna á bls. 248–251 hjer að framan.